RISAstórar smáSÖGUR 2019
62 Æfingabúðir Ég vaknaði mjög spennt um morguninn því ég var að fara í fyrstu æfingabúðirnar mínar með skólahljómsveit Kópavogs. Ég flýtti mér í skólann en tíminn leið óeðlilega hægt. Loks var skólinn búinn og ég gat hlaupið heim. Ég kláraði að pakka og beið eftir því að klukkan yrði fimm. Þá kvaddi ég mömmu og pabba og fór upp í Digranes. Rútan var að bakka inn á planið þegar ég kom og Helga, vinkona mín, var þar. Ég kom kornett-töskunni og farangrinum í farangursrýmið og settist svo inn í rútu við hliðina á Helgu. Eftir nokkra bið lagði rútan af stað. Ég lagði andlitið upp við rúðuna og lokaði augunum. Eftir þó nokkurn akstur vorum við komin. Ég fór með kornettið inn í íþróttahúsið, þar sem við áttum að æfa, og restina af farangrinum inn í skólann. Ég fór svo út að leika mér á meðan ég beið eftir fyrstu æfingunni. Ég valhoppaði niður að læk og settist niður. Allt í einu flaug lítill fugl af grein og settist við hliðina á mér. Ég hafði aldrei verið svona nálægt alvöru fugli. „Halló,“ sagði fuglinn. Ég starði á hann. „Getur þú talað?“ „Já, eiginlega. En ekki mannamál,“ tísti hann. „Það ert þú sem skilur mig.“
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=