Réttindasmiðjan - mannréttindafræðsla

40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 8 Viðfangsefni smiðjunnar • Mannréttindi og barnasáttmálinn. Nemendur kynnast hugtakinu mannréttindi og tilgangi, tilurð og notkun Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. • Jafnrétti er helsta þema smiðjunnar, það að öll börn eru jafn mikilvæg er undirtónn alls sem gert er. Þó að öll börn séu mismunandi skipta þau öll jafn miklu máli og hafa sömu réttindi. Nemendur fræðast um hvað jafnrétti þýðir og hvað það felur í sér. • Nemendur fræðast um fordóma, hvernig þeir verða til og hvernig þá skuli varast ásamt því að setja sig í spor þeirra sem verða fyrir fordómum. • Máttur menntunar. Nemendur fræðast sérstaklega um mikilvægi menntunar og hvers vegna það er mikilvægt að öll börn fái jöfn tækifæri til menntunar. • Áhrifin mín. Annað þema sem er undirliggjandi í hverjum tíma smiðjunnar er að nemendur geri sér grein fyrir því hvernig þeir geta haft áhrif á líf sitt og annarra. Þeir sem hafa góð áhrif eru þeir sem bera virðingu fyrir réttindum annarra. Í framhaldinu er fjallað sérstaklega um hvað það þýðir að vera góð fyrirmynd. • Nemendur kynnast réttindum sínum samkvæmt Barnasáttmálanum með því að setja þau í samhengi við ýmis verkefni. Þá eru réttindi barna sett í samhengi við ábyrgð foreldra og aðildarríkja Barnasáttmálans. Það er mikilvægt að sá sem fræðir börn um réttindi sín geri sér grein fyrir því að í Barnasáttmálanum er hvergi talað um að börn hafi skyldur en með því að fræðast um réttindi sín læra nemendur að þeim ber að virða réttindi annarra. Ákvæði sáttmálans fjalla hins vegar um skyldur aðildarríkja, foreldra og annarra umönnunaraðila til að passa uppá að réttindi barna séu virt. • Að setja sig í spor annarra. Áhersla er lögð á að nemendur skilji hvað það þýðir að setja sig í spor annarra. Unnið er sérstakt verkefni þar sem nemendur setja sig í spor flóttabarna. • Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í smiðjunni kynnast nemendur Heimsmarkmiðunum, tilgangi þeirra, tilurð og hvernig þau virka sem ein heild. Nemendur kynnast því að það er margt sem hver og einn einstaklingur getur gert til að markmiðin náist. Aðalnámskrá Réttindasmiðja hentar vel til þess að takast á við verkefni sem snúa með beinum hætti að grunnþáttunum sex úr aðalnámskrá, en þeir eru: lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sjálfbærni, læsi, heilbrigði og velferð og sköpun. Hugtakið mannréttindi er sérstaklega tekið fyrir og farið yfir réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum, en réttindi barna tengjast heilbrigði og velferð með beinum hætti. Eins og áður kom fram er jafnrétti undirliggjandi þema smiðjunnar í heild þar sem haft er að leiðarljósi að allir jarðarbúar séu jafn mikilvægir. Nemendur velta fyrir sér fjölbreytileika fólks í heiminum og hvers vegna hann sé mikilvægur. Sjálfbærni er sérstakt viðfangsefni þegar kemur að umfjöllun um heimsmarkmiðin. Áhersla er lögð á lýðræðislega þátttöku barna í nærumhverfi sínu og þau hvött til að nýta sér rétt sinn og láta í ljós skoðanir sínar á málum er þau varða. Þá er sérstaklega farið yfir hvernig réttindi okkar geta takmarkast af réttindum annarra og að taka þurfi tillit til náungans. Þannig geta nemendur bætt læsi sitt á samskiptum manna og samfélaginu í heild.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=