Réttindasmiðjan - mannréttindafræðsla

40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 77 Námsmat Námsmatið í réttindasmiðju er samsett úr lykilhæfni annars vegar og markmiðum aðalnámskrár hins vegar. Lykilhæfni metin með símati og sjálfsmati Kennari metur lykilhæfni nemanda með símati, en þá er upplýsingum um frammistöðu nemenda safnað markvisst saman, jafnhliða námi og kennslu (Ingvar Sigurgeirsson 1999:86). Þannig skráir kennari markvisst hjá sér hvernig nemandi stendur sig í tímum þegar kemur að eftirfarandi atriðum: • Nemandi sýnir kurteisi og kemur vel fram við aðra. • Nemandi tekur virkan þátt í kennslustundum, t.d. með því að taka þátt í umræðum. • Nemandi fer eftir fyrirmælum kennara. • Nemandi er sjálfstæður í vinnubrögðum. • Nemandi er jákvæður gagnvart verkefnum sem eru lögð fyrir. • Nemandi gengur vel um kennslustofuna. Í lok smiðjunnar fylla nemendur út sjálfsmat sem tekur á sömu atriðum. Þannig má auðveldlega bera saman niðurstöður og sjá ef eitthvað ber á milli. Mikilvægt er að lykilhæfnin sé kynnt nemendum í byrjun smiðjunnar. Sjálfsmat eflir sjálfsvitund nemenda og eykur líkur á því að þeir finni til aukinnar ábyrgðar í námi sínu. Ef sjálfsmat er fastur liður í námi er líklegt að nemendur taki virkari þátt í sínu námi (Ingvar Sigurgeirsson 1999:9). Markmið aðalnámskrár Mörg af markmiðum aðalnámskrár sem eru höfð að leiðarljósi í smiðjunni eru þess eðlis að erfitt er fyrir kennara að meta hvort þeim er náð. Dæmi um slíkt er hvort nemandi getur sett sig í spor annarra og hvort nemandi getur sýnt fram á skilning á kærleika. Vegna þessa er námsmatið í formi umsagnar kennara sem byggir á verkefnamöppu nemenda, frammistöðu í tímum, lykilhæfni og niðurstöðu úr könnun sem lögð er fyrir í lok smiðju. Ef tækifæri gefst til er einnig mælt með því að kennari ræði við hvern og einn nemanda í lok smiðju þannig að kennari glöggvi sig betur á skilningi hvers og eins ásamt því að gefa nemanda tækifæri til að tjá sig um hvað honum fannst sérlega áhugavert eða skemmtilegt og eins hvað honum finnist betur mega fara. Þá gefst kennara einnig tækifæri til að hrósa nemendum og hvetja og/eða benda á hvað nemendur þurfa að bæta. Námsmatsblöð fyrir lykilhæfni og umsögn kennara er að finna í kaflanum Gögn fyrir námsmat hér að aftan ásamt könnun úr efni smiðjunnar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=