Réttindasmiðjan - mannréttindafræðsla

40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 72 Fróðleikur Sjálfbærni er mjög stórt hugtak. Í grunninn snýst þetta hugtak um að allir jarðarbúar geti mætt sínum þörfum án þess að ganga svo nærri auðlindum og lífríki jarðar að komandi kynslóðir geti ekki mætt sínum þörfum. Sjálfbærni snýst ekki bara um umhverfismál heldur einnig um heilsu og velferð, félagslegt réttlæti, menningarmál og efnahagslíf. Að baki hugtakinu sjálfbærni er viðurkenning á því að náttúran setur umsvifum fólks ákveðin takmörk. Það er svo verkefni alls mannkyns að finna út úr því hvernig jarðarbúar allir geta lifað lífi sínu og sinnt þörfum sínum á fullnægjandi hátt án þess að það komi niður á náttúrunni eða mannréttindum annarra jarðarbúa. Hvað er sjálfbær orka? Sjálfbær orka er orka sem klárast ekki og mengar ekki andrúmsloftið. Ef orka er sjálfbær er hún framleidd úr endurnýjanlegri auðlind og skerðir því ekki möguleika jarðarbúa framtíðarinnar til að uppfylla sína orkuþörf. Dæmi um sjálfbæra orku eru sólarorka, vindorka og vatnsorka. Þessir orkugjafar eiga það sameiginlegt að notkun þeirra veldur ekki losun á gróðurhúsalofttegundum og hefur því ekki áhrif á hlýnun jarðar. Hins vegar geta vindmyllur sem búa til vindorku valdið miklum fugladauða og sjónmengun og þá nota sumar vatnsaflsvirkjanir sem búa til vatnsorku stór uppistöðulón sem valda miklum náttúruspjöllum. Kol, gas og olía eru ósjálfbærir orkugjafar; takmarkaðar auðlindir grafnar upp úr jörðinni sem munu á endanum klárast. Notkun þessara ósjálfbæru orkugjafa veldur losun á gróðurhúsalofttegundum, sem hefur mikil áhrif á hlýnun jarðar. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að allir jarðarbúar þurfa að hugsa eins og ein stór fjölskylda, þar sem aðgerðir á einum stað geta haft áhrif víðs fjarri annars staðar í heiminum. Allir jarðarbúar eiga þessa plánetu saman. Allir þurfa að bera virðingu fyrir mannréttindum allrar heimsbyggðarinnar. Kennari kynnir Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Hér getur hentað að varpa mynd af heimsmarkmiðunum upp á skjá á meðan þau eru kynnt. Heimsmarkmiðin eru á Fylgiskjali 26. Kennari getur einnig sýnt kveikju sem kynnir markmiðin. Mikilvæg kveikja: Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun Heimsmarkmiðin í stuttu máli: • Heimsmarkmiðin voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna árið 2015. • Eiga að nást fyrir árið 2030 • Heimsmarkmiðin eru 17 talsins og snúast um mannréttindi, verndun jarðarinnar og atvinnulíf. • Þau taka bæði til innanlandsmála og alþjóðasamstarfs. • Markmiðin fela í sér fimm meginþemu, sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. • Markmiðin snúast um að ná fram jafnræði milli fólks í heiminum án þess að skaða umhverfi eða takmarka framtíðarmöguleika komandi kynslóða. • Sjálfbær þróun: Markmiðin snúast um að tryggja að allar manneskjur í heiminum hafi aðgang að því sem þær þurfa til þess að uppfylla grunnþarfir sínar, eins t.d. að hreinu vatni, mat og húsnæði en að á sama tíma sé verndun umhverfisins tryggð og náttúruauðlindirnar notaðar á sjálfbæran hátt þannig að nóg sé eftir af þeim fyrir framtíðina. Það er sjálfbær þróun.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=