40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 7 Til kennara Til undirbúnings kennslu í réttindafræðslu er mælt með því að kennarar horfi á og tileinki sér námskeiðið Réttindafræðsla í framkvæmd sem er að finna inni á fræðsluvettvangi UNICEF á Íslandi. Þar er farið yfir hvers vegna það er nauðsynlegt að tryggja börnum réttindafræðslu en bæði lögin og aðalnámskrá gera ráð fyrir því. Einnig er farið yfir þann dýrmæta ávinning sem hlýst af markvissri réttindafræðslu og hugmyndir að leiðum. Auðvelt er að skrá sig inn á fræðsluvettvanginn með tölvupóstfangi. Réttindasmiðja Námsefni þetta hentar vel til kennslu í smiðjum fyrir nemendur á miðstigi í grunnskóla sem og fyrir almenna samfélagsgreinakennslu inni í bekkjum. Um er að ræða kennsluáætlanir fyrir 12 smiðjur. Hver smiðja er áætluð sem 80 mínútna kennslustund. Hægt er að kenna efnið í heilum bekkjum en gott er að kenna í minni hópum ef möguleiki er á því. Efnið byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Efninu fylgja fylgiskjöl ef kennari kýs að nota þau en reynt er að setja fram hugmyndir að fleiri útfærslum á kennslunni í öllum smiðjunum. Einnig eru tillögur að námsmatslistum ef kennarar vilja nýta sér þá. Meginmarkmið Meginmarkmið með námsefninu eru að nemandi: • geri sér grein fyrir því að öll börn eru jafn mikilvæg • kynnist réttindum sínum samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna • verði færari um að setja sig í spor annarra • geti tekið þátt í samræðu og samstarfi í jafningjahópi með því að hlusta og bera virðingu fyrir skoðunum annarra og tjá eigin skoðanir • geri sér grein fyrir mikilvægi þess að virða réttindi annarra og getu sinni til að hafa góð áhrif á annað fólk • geri sér grein fyrir eigin mikilvægi og mætti til að hafa áhrif þegar kemur að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna Lykilhæfni Kennari kynnir fyrir nemendum lykilhæfnina sem metin verður í smiðjunni. Kennari útskýrir fyrir nemendum að hann meti frammistöðu nemenda í hverri kennslustund fyrir sig og einnig að nemendur meti sjálfir frammistöðu sína þegar kemur að lykilhæfninni. Lykilhæfnin er eftirfarandi: • Nemandi sýnir kurteisi og kemur vel fram við aðra. • Nemandi tekur virkan þátt í kennslustundum, t.d. með því að taka þátt í umræðum. • Nemandi fer eftir fyrirmælum kennara. • Nemandi er sjálfstæður í vinnubrögðum. • Nemandi er jákvæður gagnvart verkefnum sem lögð eru fyrir. • Nemandi gengur vel um kennslustofuna.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=