Réttindasmiðjan - mannréttindafræðsla

40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 66 Réttindi og forréttindi Kveikja – saga lesin Kennari les eða endursegir sögu eða kafla sem gefur tilefni til umræðna um réttindi og forréttindi. Dæmi um efni sem getur hentað: • Rúnar góði eftir Hönnu Borg Jónsdóttur með myndum eftir Heiðdísi Helgadóttur – sjötti kafli. • Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnússon – t.d. kaflinn Draugabörnin. Kennari stýrir umræðum í bekknum. Umræðuefnið ræðst af einhverju leyti að kveikjunni sem valin er, en eftirfarandi spurningar þurfa að vera með: • Hvað eru forréttindi? • Hver er munurinn á réttindum og forréttindum? Eftir að nemendur hafa velt þessu fyrir sér útskýrir kennari muninn á réttindum og forréttindum. Mannréttindi byggjast á því sem hver og ein einasta manneskja þarf til þess að geta liðið vel; holl næring, hreint vatn, húsaskjól, föt, virðing, menntun, heilbrigðisþjónusta o.s.frv. Forréttindi eru eitthvað sem er gott og skemmtilegt að fá, en er ekki nauðsynlegt til að geta lifað, þroskast og liðið vel. Það er mikilvægt að börn læri að geta greint á milli réttinda sinna og þeirra forréttinda sem þau njóta þannig að þau taki forréttindum sínum ekki sem sjálfsögðum hlut. Kennari nefnir dæmi og gefur nemendum einnig færi á að koma með dæmi. T.d. eru það réttindi að eiga heimili en forréttindi að eiga eigið herbergi. Það eru réttindi barna að fá að leika sér en forréttindi að eiga nýjasta og fínasta leikfangið. Það eru réttindi að eiga föt þannig að manni verði ekki kalt en forréttindi að eiga mikið magn af tískufatnaði. Það eru réttindi barna að fá nægan og hollan mat að borða en það eru forréttindi að fá alltaf þann mat sem mann langar mest í eða að fá alltaf eftirrétt o.s.frv. Þegar rætt er um réttindi barna við nemendur er líka mikilvægt að leggja áherslu á að börn þurfa að virða réttindi hvert annars.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=