40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 58 Fróðleikur 24. gr. sáttmálans er kynnt nemendum. 24. grein – Heilsuvernd Börn eiga rétt á að njóta besta mögulegs heilsufars sem hægt er að tryggja, s.s. með læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu. Aðildarríki skulu gera ráðstafanir til að draga úr barnadauða, berjast gegn sjúkdómum og vannæringu, stuðla að fræðslu um heilbrigt líferni og reyna að ryðja úr vegi hefðum sem eru skaðlegar heilsu barna. Barnshafandi konur og mæður ungbarna eiga rétt á heilsugæslu. Hvað felst í heilsuvernd fyrir börn? Öll börn eiga rétt á að komast til læknis þegar þau eru veik eða lenda í slysi og þau eiga rétt á því að fá þau lyf sem þau þurfa. Þá þarf að vernda börn með því að fræða foreldra um hvað það er sem börn þurfa til þess að foreldrarnir séu í stakk búnir að hlúa að heilbrigði barnsins. Þetta getur verið fræðsla um hollt mataræði og svefnþarfir barnsins auk þess sem tryggja þarf barni þær bólusetningar sem það á rétt á. Þetta er tryggt með sérstakri mæðravernd fyrir barnshafandi konur og ungbarnavernd fyrir ungbörn þar sem börnin eru vigtuð, mæld og bólusett. Umræður: • Hver ber ábyrgð á að barn fái allt sem það þarf? • Hver á að kenna börnum hvað er rétt og hvað er rangt? Foreldrar hvers barns þurfa að passa upp á allt þetta og ef þau geta það ekki þarf ríkið að skipta sér af og styðja foreldrana þannig að þeir geti annast barnið. Ef það nægir ekki eða foreldrar eru ekki til staðar þarf stundum að finna börnum annað heimili þar sem annað fólk annast barnið og veitir því allt þetta. Ríkið þarf svo að hafa tiltæka heilsuvernd, barnavernd og þjóðskrá sem passar upp á skráningu barns. Hvað þýðir það að foreldrar eigi að hugsa mest um hvað er best fyrir barnið? Foreldrar og aðrir umönnunaraðilar þurfa alltaf að passa upp á að það sem er best fyrir barnið ráði mestu. Þetta á ekki bara við um kornabörn heldur öll börn yngri en 18 ára. Börn hafa rétt á að segja sínar skoðanir á málum sem tengjast þeim og hafa áhrif á ákvörðunina, allt eftir aldri og þroska barnsins.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=