40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 55 Hvaða einstaklingar eru góðar fyrirmyndir? Fólk sem hefur góð áhrif á annað fólk og hefur góð gildi er góðar fyrirmyndir. Fyrirmynd getur verið hver sem er og þarf ekki að vera frægur einstaklingur. Oft má finna góðar fyrirmyndir í nánum ættingjum eða vinum. Góðar fyrirmyndir bera virðingu fyrir réttindum annarra og koma vel fram við náungann. Fyrirmyndir hafa tileinkað sér gildi sem öðrum finnst eftirsóknarverð. Góðar fyrirmyndir hvetja aðra beint eða óbeint til góðra verka og veita öðrum innblástur, oft óafvitandi. Dæmi um góðar fyrirmyndir: Vigdís Finnbogadóttir Vigdís Finnbogadóttir var fyrsti kvenkyns forsetinn í heiminum. Hún var kosin árið 1980 og var forseti Íslands í 16 ár. Hún var einstæð móðir en hún var fyrst Íslendinga til að ættleiða barn sem einhleypur einstaklingur. Vigdís vakti heimsathygli sem fyrsti kvenkyns forsetinn og var boðið út um allan heim. Vigdís hafði gríðarlega mikil og góð áhrif á meirihluta Íslendinga. Hún kom alltaf fram við alla af virðingu, hafði jafnrétti að leiðarljósi og hafði sérstaklega hlýlegt viðmót og hefur enn. Hún komst yfir merkilegar hindranir og hafði velgengni hennar mikil áhrif á jafnréttisbaráttu kvenna. Þá er hún sérstakur verndari íslenskrar tungu og hefur ávallt verið til fyrirmyndar þegar kemur að fallegri málnotkun og virðingu fyrir tungumálum. Hún er mikilvæg fyrirmynd og stolt okkar Íslendinga. Hún hafði án efa mikið um það að segja að Ísland er eitt af þeim löndum í heiminum þar sem jafnrétti milli karla og kvenna er hvað næst því að nást. Vigdís Finnbogadóttir – stutt æviágrip og myndband Marcus Rashford Marcus Rashford, fótboltamaður hjá Manchester United, hefur nýtt frægðina og röddina sem velgengni hans á fótboltavellinum hefur fært honum og barist bæði fyrir fríum skólamáltíðum fyrir börn í viðkvæmri stöðu (á tímum covid) og barist fyrir aðgengi barna að lestri og bókum: Viðtal við Marcus Rashford: „Ég vil gefa næstu kynslóð tækifæri til að lesa.“ Viðtal við Marcus Rashford: „Ég tala fyrir þau sem ekki hafa rödd.“ Sjálfur ólst hann upp við kröpp kjör hjá einstæðri móður og veit því hversu mikilvægt þetta er. Hann lætur sig náungann varða, sérstaklega börn, og lætur gott af sér leiða. Ágætt fyrir kennara að horfa á þessa frétt til undirbúnings: Marcus Rashford-herferðin veitir börnum rétt á ókeypis skólamáltíðum í sumarfríum Umræða Kennari ræðir við nemendur um fyrirmyndir. Þurfa fyrirmyndir að vera fullkomnar? Er einhver fullkominn? Detta nemendum í hug einstaklingar sem eru góðar fyrirmyndir? Hér getur verið gott að minnast á að fyrirmyndir þurfa alls ekki að vera frægt fólk. Góðar fyrirmyndir geta líka verið manneskjur í nærumhverfi okkar sem hafa góð áhrif á okkur og hafa gildi sem okkur þykja eftirsóknarverð, t.d. foreldrar, ömmur, afar, systkini, frænkur, kennarar, þjálfarar, vinir og bekkjarfélagar Best er að fá sem flestar hugmyndir frá nemendum og skrá þær upp á töflu. Spyrja svo alltaf: Af hverju er þetta góð fyrirmynd?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=