Réttindasmiðjan - mannréttindafræðsla

40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 5 Formáli Ég er lögfræðingur, kennari og barnabókahöfundur, sérhæfð í mannréttindum og málefnum barna. Bættur hagur barna er mér hjartans mál og því ákvað ég að afla mér kennsluréttinda. Í tengslum við það fékk ég einstakt tækifæri til þess að hanna og þróa kennsluefni til að nýta í réttindafræðslu. Sú vinna fór fram í Flataskóla í Garðabæ, þar sem ég kenndi og þróaði efnið á tímabilinu frá ágúst 2018 til maí 2020. Flataskóli er einn af þremur skólum sem voru fyrstir íslenskra grunnskóla til að uppfylla sérstök skilyrði og hljóta viðurkenningu sem réttindaskóli UNICEF haustið 2017. Þeir nemendur sem sátu tíma í réttindasmiðju á meðan á þróun efnisins stóð settu mark sitt á skipulag smiðjunnar, ekki síst þegar kom að því að skipuleggja hverja kennslustund og komast að því hversu mikinn tíma það tekur að kenna efnið og fyrir nemendur að vinna verkefnin. Á ég þessum nemendum sérstakar þakkir skyldar auk þess sem ég vil færa þáverandi skólastjóra Flataskóla, Ólöfu S. Sigurðardóttur, sérstakar þakkir fyrir traustið. Námsefnið var jafnframt lokaverkefni mitt til M.Ed. gráðu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands árið 2020. Efnið hef ég svo kennt í smiðjum í 6. bekk í Flataskóla frá því haustið 2022. Ég hef óbilandi trú á réttindafræðslu sem leið til að byggja upp samfélag fullt af réttsýnum og réttindameðvituðum einstaklingum sem iðka og trúa á jafnrétti og fordómaleysi. Efnið er sett upp þannig að allir kennarar geti kennt það, það þarf ekki sérstakan faggreinakennara til. Þannig ætti enginn að þurfa að skorast undan því að takast á við verkefnið að fræða börn um réttindi sín. Reynsla mín sýnir að nemendur hafa gagn og gaman af efninu og öðlast smátt og smátt meira öryggi og sjálfstraust til að taka virkan þátt í umræðum og velta upp mikilvægum spurningum. Það er von mín og trú að efnið verði kennt sem víðast og að allir hafi gaman af, bæði nemendur og kennarar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=