40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 47 Kennari útskýrir að ofbeldi geti haft margar birtingarmyndir: Hvað er líkamlegt ofbeldi? Kennari spyr nemendur – hafið þið hugmynd um hvað það er? Nemendur koma þá yfirleitt með margar skýringar o.s.frv. Líkamlegt ofbeldi er þegar líkamlegu afli er beitt gegn öðrum einstaklingi, hvort sem líkamlegur skaði hlýst af eða ekki. Dæmi um líkamlegt ofbeldi er að kýla, kyrkja, sparka, klóra, bíta, toga í hár. Hvað er andlegt ofbeldi Kennari spyr nemendur – hafið þið hugmynd um hvað það er? Stríða, skilja út undan, hunsa, segja ljót orð, mismuna. Kennari bendir á að orð geti líka sært rétt eins og spark. Andlegt ofbeldi getur til dæmis verið í formi orðaskipta, líkamstjáningar eða hunsunar. Dæmi um andlegt ofbeldi er samskipti sem einkennast af niðurlægingu, markvissu niðurbroti einstaklings, ómanneskjulegri framkomu, ofsóknum, öskrum, hótunum og ógnunum og langvarandi þögn. Andlegt ofbeldi er oft notað til að stjórna öðrum eða ná völdum yfir þeim. Hvað er kynferðislegt ofbeldi? Það telst kynferðislegt ofbeldi gegn barni ef einhver segir eitthvað kynferðislegt við barn, sýnir kynferðislegar myndir eða leyfir barni ekki að hafa einkastaði sína í friði. Kynferðislegt ofbeldi er mjög alvarlegt og má aldrei vera leyndarmál heldur er mikilvægt að segja frá. Kynferðislegt ofbeldi er aldrei barni að kenna og barn á alltaf rétt á hjálp. Hvað er stafrænt ofbeldi? Stafrænt ofbeldi, eða netofbeldi, er það þegar einhver notar tæki til að niðurlægja aðra, ógna, áreita eða fylgjast með öðrum. Það er stafrænt ofbeldi þegar ofbeldi er beitt gegnum síma, tölvu eða samfélagsmiðla. Það getur verið texti eða mynd með skilaboðum, tölvupósti eða gegnum samfélagsmiðil. Að taka myndir og myndbönd af einhverjum og dreifa er einnig stafrænt ofbeldi. Einnig ef einhver notar tækni til að fylgjast með öðrum og eltihrella. Hvað er vanræksla? Um vanrækslu er að ræða þegar þörfum barns er ekki sinnt þannig að það getur skaðað barnið. Þá er ekki um að ræða eitt atvik heldur viðvarandi ástand. Þetta getur átt við þegar barni er ítrekað ekki gefið að borða, það er ekki hugsað um að það sé nægilega vel klætt, það er ekki hugsað um hreinlæti barnsins, það fær ekki stuðning þegar kemur að skólagöngu, það er ekki talað við barnið né hlustað á það, það fær ekki umhyggju og ást. Hvað er einelti? Það kallast einelti þegar sömu manneskjunni er oft strítt. Einelti getur verið að sparka, hrinda, stela dóti, skemma eigur, uppnefna, stríða, baktala, útiloka úr vinahópi, hunsa, láta aðra gera eitthvað sem þeir vilja ekki eða ljót skilaboð á netinu. Þeir sem horfa á og gera ekki neitt til þess að stöðva eða hjálpa eru líka þátttakendur. Hvað er heimilisofbeldi? Það er líka ofbeldi að búa á heimili þar sem barn verður vitni að ofbeldi. Það er ekki í lagi og barn á þá rétt á að fá hjálp og vernd.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=