Réttindasmiðjan - mannréttindafræðsla

40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 36 Verkefni 3: Emmanuel Ofosu Yeboah Emmanuel Ofosu Yeboah er íþróttamaður og aðgerðasinni frá Gana. Hann fæddist árið 1977, en hann fæddist fatlaður þar sem hann hafði aðeins einn heilbrigðan fótlegg. Í heimalandi hans, Gana í Vestur-Afríku, var það lengi þannig að ef barn fæddist fatlað var líklegt að það yrði yfirgefið eða illa sinnt. Líklega fengi það enga menntun og myndi þannig líklega enda sem betlari á götunni. Talið var að barnið væri haldið bölvun. Emmanuel barðist gegn þessum hræðilegu fordómum gegn fötluðum með hetjulegum hætti þegar hann hjólaði með sínum eina fótlegg heila 650 km þvert yfir Gana. Hann berst enn þann daginn í dag fyrir réttindum fatlaðra. Við kynnumst sögu hans í þessari bók. Kennari les bókina „Emmanuel‘s Dream“ eftir Laurie Ann Thompson fyrir börnin, eða endursegir söguna. Upplestur bókarinnar er aðgengilegur á YouTube, til dæmis hér. Eftir að búið er að lesa bókina er tilvalið að horfa á eftirfarandi myndband um hann: Emmanuel’s Ride: An Inspiring True Story Umræður • Hvað getur saga Emmanuels kennt okkur? • Hvernig fannst ykkur sagan? • Hvað fannst ykkur merkilegast við söguna? • Hvers vegna þurftu margir aðrir með fötlun að betla? • Hvernig leið ykkur þegar við lásum söguna? Fróðleikur Við þurfum öll að vera meðvituð um að fordómar, sem fylgja neikvæðu gildismati, geti komið upp í okkur öllum en þá er mikilvægt að staldra við, átta sig á þeim og leiðrétta sig. Það er ávallt gott að temja sér að setja sig í spor annarra. (Hér getur kennari farið yfir hvað það er að setja sig í spor annarra.) Einn af þeim hópum sem oft verða fyrir fordómum er einstaklingar sem glíma við fötlun af einhverju tagi. Fötlun einstaklings þýðir ekki að hann geti ekki lagt sitt af mörkum til samfélagsins. Fötluð börn hafa sömu þarfir og langanir og önnur börn, um að fá að vera með og leggja sitt af mörkum. Fordóma ber að varast í þessum tilvikum sem öðrum. Oft má læra mikið af þeim sem hafa fötlun og þau sem þurfa að glíma við hindranir geta oft verið fyrirmyndir annarra þegar kemur að dugnaði, þrautseigju og þolinmæði. Fötluð börn eiga rétt á sérstakri aðstoð, sbr. 23. grein Barnasáttmálans, til að tryggja þeim jöfn tækifæri. Í því felst ekki mismunun, heldur þvert á móti. Í því felst jafnrétti. Þessi sérstaka aðstoð miðar að því að tryggja það að þeir einstaklingar sem hana þurfa geti nýtt sér réttindi sín og að borin sé virðing fyrir þeim, þeir geti betur bjargað sér sjálfir og verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Þessi sérstaka aðstoð getur verið í margs konar formi, sum þurfa sérstaka aðstoð í skólanum, sum þurfa sérstök hjálpartæki, sum þurfa sérstaka þjálfun eða endurhæfingu, sum þurfa aðgang að sérstakri tómstundaiðju o.s.frv.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=