Réttindasmiðjan - mannréttindafræðsla

40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 30 Málamiðlun Forþekking Kennari byrjar á því að kynna og ræða hugtökin málamiðlun, samkomulag og að virða skoðanir annarra. Hér getur verið gott að ræða leiðir til að virða skoðanir og tilfinningar annarra, án þess að ganga gegn eigin sannfæringu eða láta vaða yfir sig. Fróðleikur Málamiðlun er mikilvæg í samskiptum þegar aðilar eru ósammála. Með málamiðlun er komist að niðurstöðu sem allir aðilar geta sætt sig við í stað þess að annar „vinni“ og hinn „tapi“. Gott er að taka dæmi sem nemendur geta tengt við, t.d. tveir vinir sem ætla að leika saman og þurfa að ákveða hvað þau vilja gera. Annar vinanna hafði hugsað sér að fara út í körfubolta og langar það mikið. Hinn hefur ekki gaman af því og langar afskaplega mikið til þess að teikna. Sá sem vill fara í körfubolta hefur alls ekki gaman að því að teikna. Hvað gera vinirnir þá? Einn möguleikinn er að hætta að leika saman. Það er samt sem áður ekki góð lausn, í grunninn langar þau að leika saman. Þau gætu fundið upp á einhverju öðru að gera, t.d. að spila saman. Það væri málamiðlun, lausn sem báðir aðilar geta fullkomlega sætt sig við. Þá eru bæði u.þ.b. 75% sátt í stað þess að annar aðilinn sé 100% sáttur og hinn 100% ósáttur en það er ekki góð lausn. Annað dæmi er fjölskylda sem þarf að ákveða hvað er í matinn. Spyrja má nemendur um fleiri dæmi sem þeim dettur í hug. Þetta má svo yfirfæra á stærri mál eins og t.d. stríð. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fara fram sífelldar málamiðlanir milli aðildarríkja um hvernig best sé að leysa alþjóðamál. Eins er mikilvægt fyrir nemendur að gera sér grein fyrir því að þau gera flest einhverjar málamiðlanir á hverjum degi, t.d. þegar þau ákveða að leika saman eftir skóla og þurfa að ákveða hvað þau ætla að gera saman eða þegar fjölskyldan ætlar að horfa á sjónvarpið saman og þarf að koma sér saman um hvað horft er á.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=