40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 29 Verkefni og umræður sem tengjast myndbandinu 1. 00:00-01:54 Kynning og orðin þröngsýni og skammsýni. Umræður í bekknum. Hvernig myndir þú útskýra orðin þröngsýni og skammsýni? Erum við einhvern tímann þröngsýn eða skammsýn? 2. 01:55-03:51 Börn á flótta. Kaflinn um Völu sem flúði frá Úkraínu til Póllands. Hvers vegna þurfti Vala að flýja? Aflaðu þér upplýsinga um stríðið í Úkraínu og búðu til stutta kynningu fyrir bekkinn. 3. 05:28-07:51 Saga Ahmad sem náði að flýja úr flóttamannabúðum en þurfti að skilja fjölskyldu sína eftir. Dæmi um umræðupunkta: Hvers vegna þurfti Ahmad að flýja? Hvað þurfti hann að skilja eftir? Hvers myndir þú sakna mest ef þú þyrftir að flýja eins og Ahmad? 4. 10:17-13:20 Önnur grein Barnasáttmálans – þraut sem fjallar um jöfn tækifæri fyrir öll börn. Umræður í hópum: Getur verið ósanngjarnt að allir fái jafn mikið? Hvenær þá? Verkefni nemenda er að ræða spurninguna og koma með eitt eða fleiri dæmi þar sem það er rétt og sanngjarnt að sum börn fái meiri stuðning en önnur. Síðan kynna hóparnir niðurstöður sínar í bekknum og ræða þær. Fróðleikur Segja má að jafnrétti og bann við mismunun séu tvær hliðar á sama skildingi. Jafnrétti felur í sér að njóta réttinda til jafns við aðra. Mismunun á sér stað þegar einstaklingum er neitað um réttindi sín eða þau eru skert verulega á ómálefnalegum grundvelli, til dæmis vegna kyns, litarhafts, þjóðernis, fötlunar eða efnahags. Með því að berjast gegn mismunun erum við í raun að berjast fyrir jafnrétti. Mismunun er andstæða jafnréttis. Mismunun á sér stað þegar bara sumir fá eitthvað en ekki aðrir eða þá að einn hópurinn fær eitthvað sem er gott og annar hópur eitthvað sem er verra. Í 2. gr. Barnasáttmálans segir að réttindum barna megi aldrei mismuna á grundvelli kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=