40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 27 Verkefni 1: Fjölskyldan mín Verkefni nemenda er að búa til listaverk sem túlkar þeirra eigin fjölskyldu. Form verksins er frjálst, nemendur geta til dæmis skrifað ljóð eða annan texta, málað mynd, búið til tónlist eða annað. Nemendur ráða hvort þeir velja sína kjarnafjölskyldu, stórfjölskyldu eða jafnvel valda fjölskyldu. Nemendur líma inn á verkið þær greinar Barnasáttmálans sem þeim finnst tengjast fjölskyldu þeirra og heimili. (Kennari er þá búinn að prenta út/ljósrita Barnasáttmálann og nemendur klippa niður.) Verkefni 2: Fjölskyldurnar okkar Einnig er val um að vinna verkefni líkt og myndin sýnir, þar sem hver nemandi teiknar sína fjölskyldu inni í húsi sem hægt er að opna og skoða fjölskyldurnar. Öll húsin í bekknum eru síðan sett saman á veggspjald. Nemendur líma inn á verkið þær greinar Barnasáttmálans sem þeim finnst tengjast fjölskyldu þeirra og heimili. (Kennari er þá búinn að prenta út/ljósrita Barnasáttmálann og nemendur klippa niður.) Fróðleikur 2. gr. Jafnrétti – bann við mismunun Öll börn eiga að njóta allra réttinda Barnasáttmálans án tillits til þess hver þau eru, hvar þau búa, hvaða tungumál þau tala, á hvað þau trúa, hvernig þau hugsa og líta út, af hvaða kyni þau eru, hvort þau eru fötluð, rík eða fátæk og án tillits til þess hvað fjölskylda þeirra gerir eða trúir á. Aldrei skal koma fram við barn af óréttlæti. Jafnrétti felur í sér að öll kyn, allur aldur, allir kynþættir og yfirhöfuð allar manneskjur hafa jafnan rétt og jöfn tækifæri til að taka þátt í samfélaginu. Í því felst jafnt aðgengi að opinberri ákvarðanatöku og að opinber þjónusta taki mið af þörfum allra kynja. Jafnrétti þarf að ríkja varðandi kyn, aldur, kynþátt, kynhneigð, kynvitund, stétt, móðurmál, trúarbrögð, heilsufar og fötlun. Jafnrétti – Jafn réttur – Jöfn réttindi – Öll börn eru jöfn og hafa jöfn réttindi. Þá er átt við þau grundvallarréttindi sem Barnasáttmálinn felur í sér. Það er ekkert sem réttlætir það að bara sum börn fái að ganga í skóla, eða bara sum börn fái heilbrigðisþjónustu. Öll þau réttindi sem fram koma í Barnasáttmálanum eru réttindi allra barna. Þó að það séu börn í heiminum sem búa ekki við það að réttindi þeirra séu virt þýðir það ekki að það sé í lagi, markmiðið er að réttindi allra barna séu virt og unnið er að því að úr þessu verði bætt. UNICEF, sem er Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er dæmi um samtök sem vinna að þessu markmiði, t.d. með því að safna peningum og nýta til þess að vannærð börn fái mat, börn geti gengið í skóla, börn fái bólusetningar, börn sem búa við stríð fái hjálp o. fl.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=