40756 | Réttindasmiðjan – Mannréttindafræðsla | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 13 Hvað eru mannréttindi? Forþekking • Kennari getur byrjað vinnuna á því að skoða orðið réttindi með bekknum. Hvað eru réttindi? • Geta börnin nefnt dæmi um réttindi sem þau hafa? Hvað eru þá mannréttindi? Geta börnin nefnt dæmi um mannréttindi? Mannréttindi eru réttindi sem eru okkur nauðsynleg til þess að lifa sem manneskjur. Þau snúast um að allir fái haldið mannlegri reisn. UNICEF hefur gefið út myndbönd sem geta hentað sem kveikja. Hvað eru mannréttindi? Kveikja – myndband Myndbandið útskýrir hvað mannréttindi eru. Það er töluvert af flóknum orðum í þessu myndbandi, svo sem: jafnrétti að framselja, óframseljanlegur virðing náttúruhamfarir húsaskjól meðfæddur ofbeldi skilyrðislaus vanþekking alþjóðlegur hatur hugmyndafræði óaðskiljanleg sáttmáli heilsa Kennari metur hvaða orð þarf að ræða áður en myndbandið er sýnt. Það er líka hægt að stoppa myndbandið eftir þörfum og ræða efnið. Teiknimyndin Við eigum öll réttindi er á einfaldara máli. Þessi teiknimynd er til á ensku og öðrum tungumálum. Hér getur hentað að horfa bara á útskýringuna á hugtakinu réttindi (1:00-1:37) Lagið We’ve All Got Rights er líflegt og skemmtilegt og fjallar um sama efni. Umræður í bekknum og/eða í hópum • Hvað eru mannréttindi? • Af hverju þurfum við mannréttindi? • Hverjir hafa mannréttindi? • Hvaða réttindi hafa börn? • Af hverju þurfa börn sérstök réttindi? • Hver á að passa upp á að réttindi barna séu virt? • Hverjir þurfa að þekkja réttindi barna? • Hvaða máli skiptir að börn þekki réttindi sín? Af hverju? Eftir umræðurnar skiptir kennari nemendum upp í hópa. Hver hópur velur sér eina af spurningunum hér fyrir ofan (eða skapar eigin spurningu) og býr saman til svar við henni. Svörin mega gjarnan vera myndræn eða studd myndum. Síðan kynna hóparnir vinnu sína í bekknum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=