Pógó og prumpið sem bjargaði heiminum | Kennsluleiðbeiningar | 2942 | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 2025 5 Um kennsluleiðbeiningarnar Þessar kennsluleiðbeiningar byggja á sýn höfundar bókarinnar um mikilvægi þess að gera veruleika barna, sem sjást sjaldan í bókum og afþreyingarefni, sýnilegri. Markmiðið er að stuðla að dýpri skilningi á sögunni og leggja fram verkefni sem stuðla að samkennd. Við gerð leiðbeininganna var því sérstaklega horft til þeirra hæfniviðmiða aðalnámskrár sem tengjast hugar- og félagsheimi nemenda í samfélagsgreinum. Áherslan er á að virkja nemendur til ígrundunar og samtals, efla siðferðisvitund og félagslega færni, auk þess að styrkja lesskilning og tjáningu. Leiðbeiningarnar fylgja framvindu bókarinnar og skiptast í verkefni sem tengjast hverjum kafla. Með hverjum kafla fylgja þrenns konar verkefni: Vangaveltur – Spurningar eða athugasemdir sem kennari getur nýtt hvort heldur sem er á meðan lestri stendur eða eftir hann. Þær eru ætlaðar bæði til að efla lesskilning og til að fá fram umræður um efni sögunnar, vekja forvitni og fá skoðanir nemenda sjálfra um efni sögunnar eða eigin hugmyndir. Spurninganna er hægt að spyrja munnlega yfir hópinn á meðan lesið er eða setja fram sem umræðu- eða ritunarverkefni eftir lestur. Verkefni kaflans – Nákvæm útfærsla á verkefni sem byggir á efni kaflans með lýsingu fyrir kennara. Aftast í kennsluleiðbeiningunum eru verkefnablöð tilbúin til útprentunar með fyrirmælum fyrir nemendur. Þessi verkefni miða að því að dýpka skilning nemenda á efni sögunnar. Lögð er áhersla á fjölbreytni og skapandi nálgun. Reynt var eftir fremsta megni að hafa verkefnin með skýru námsmarkmiði en einnig þannig úr garði gerð að kennari geti aðlagað þau að sinni kennslu, tíma og aðstæðum. Sprell – Fjölbreytt og skapandi verkefni sem geta brotið upp kennslustundirnar og nemendur unnið sjálfstætt. Áhersla er á hreyfingu, uppbrot, tjáningu, myndsköpun, orðaforða eða óhefðbundna nálgun á viðfangsefni sögunnar. Auk ofantaldra verkefna sem fylgja hverjum kafla er að finna í kennsluleiðbeiningunum lista með fjölmörgum lítillega útfærðum verkefnahugmyndum sem kennarar geta nýtt og aðlagað að sinni kennslu. Listinn er hvorki tæmandi né bindandi – hann er hugsaður sem verkfærakista til að auðga kennsluna og nýta fyrir frekari útfærslu kennara. Enn fremur er í kennsluleiðbeiningunum yfirlit yfir þau hæfniviðmið úr Aðalnámskrá grunnskóla sem unnið var út frá við gerð kennsluleiðbeininganna. Hafa ber í huga að fjölmörg önnur hæfniviðmið koma til greina, til að mynda í lykilhæfni, og ekkert því til fyrirstöðu að bæta við! Hjalti Halldórsson
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=