PóGó og prumpið sem bjargaði heiminum - kennsluleiðbeiningar

Pógó og prumpið sem bjargaði heiminum | Kennsluleiðbeiningar | 2942 | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 2025 4 Um bókina Sagan um PóGó og prumpið sem bjargaði heiminum er 25. bókin sem ég skrifa fyrir börn. Ég hef fjallað um flest milli himins og jarðar – en aldrei áður haldið út fyrir himinhvolfið! Þetta er líka í fyrsta sinn sem ég skrifa bók þar sem aðalpersónur eru með sýnilegar og ósýnilegar fatlanir. Þegar ég lít um öxl sé ég að ég hef ekki alltaf sýnt heiminn eins og hann er. En það er aldrei of seint að gera betur! Von mín er að sagan gefi innsýn í veruleika barna sem sjást allt of sjaldan í bókum og afþreyingu. Það er einlæg trú mín að bækur, bíó og sjónvarp eigi að endurspegla raunveruleikann – að sýna ekki börn með fatlanir er ekki annað en sögufölsun. Forréttindum fylgja oft fordómar og besta leiðin til að brjóta þá niður er með fræðslu – án þess þó að fjörið týnist! Markmið bókarinnar var fyrst og fremst að búa til spennandi ævintýri með marglaga persónum sem eru vissulega með fatlanir án þess að þær séu aðalatriðið. Upplifanir PóGó eru í forgrunni og með því að fylgja geimveru til Jarðar má setja í orð erfiðar og stundum óþægilegar spurningar. Geimveran hljómar oft eins og kjáni, en er tilbúin að læra og viðurkenna mistök – og það er eiginleiki sem við öll ættum að tileinka okkur. Við slík skrif er mikilvægt að leita til réttra aðila. Eva Þengilsdóttir og Andrea Valgeirsdóttir hjá ÖBÍ komu verkefninu af stað og fjölmargir álitsgjafar lásu yfir handritið – því, eins og ÖBÍ minnir á: ekkert um okkur án okkar! Barnamálahópur ÖBÍ lagði til mikilvægar ábendingar og Stjörnu-Sævar veitti dýrmætar athugasemdir – enda er ég í þessari bók komin 400 ljósár út fyrir mitt sérsvið. Ég er afar þakklát öllum yfirlesurum, ritstjóranum Mörtu Magnadóttur og teymi MMS fyrir fagmennsku og áhuga. Þá kom enginn annar en Hjalti Halldórsson að gerð kennsluleiðbeininga – einn besti kennari sem ég þekki. Það er fátt betra en fallegt samstarf – og, eins og bókin sýnir, þá erum við alltaf sterkari þegar hæfileikar hvers og eins fá að skína. Áfram PóGó – og áfram allskonar! Bergrún Íris Sævarsdóttir

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=