5 Á LEIÐ TIL JARÐAR Geimveran PóGó nálgast Jörðina á ógnarhraða. Eftir langt ferðalag getur hún loksins stigið fæti á fast land. Ferðalagið hefur tekið heil 400 ljósár! PóGó hefur aldrei áður verið svona langt í burtu frá heimaplánetunni, Poff. Drottningin af Poff hefur fyrirskipað algjöra endurskipulagningu á Vetrarbrautinni. Þar er mörg vandasöm verk að vinna. Fyrst á dagskrá er að útrýma dýrategundinni Homo sapiens, eða mannfólki eins og það kallar sig víst. PóGó hefði viljað fá skemmtilegra verkefni en hafði víst lítið val. Eins og öðrum Poffurum ber PóGó skylda til að hlýða því sem drottningin skipar fyrir. PóGó dauðleiðist á löngu ferðalaginu og hefur drepið tímann með því að teikna litríkar myndir á veggi geimskipsins. Veggina prýða nú teikningar af vinum PóGó og landslaginu á plánetunni Poff. Mig langar heim, hugsar geimveran og dæsir. Svo hellir hún sér upp á heitan bolla af orgorg. „Stjórnstöð kallar,“ heyrist allt í einu í talstöðinni. PóGó hleypur með sjóðheitan bollann að stjórnborðinu. „Já, halló! PóGó til stjórnstöðvar! Hvað er að frétta?“ spyr geimveran, fegin því að hafa loks einhvern að spjalla við.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=