70 Blað Adams er þakið skrautlegu mynstri í ólíkum litum. Adam hefur málað úlf en ekki með útlínum. Þess í stað er úlfurinn byggður upp af agnarsmáum ferningum og þríhyrningum. Það er gaman að gleyma sér í myndinni. Þegar geimveran rýnir betur í blaðið sér hún fleiri dýr. Hugur Adams virðist alveg einstakur. PóGó laumast nær og fylgist með andliti Adams á meðan hann málar, einbeittur á svip. „Dáldið töff, ha?“ heyrist allt í einu sagt. PóGó snýr sér við og sér Mars. „Já,“ hvíslar PóGó og brosir. „Þetta er ólíkt öllu sem ég hef séð. Adam er greinilega mjög flinkur listamaður. Það er eins og hann sjái liti og form á annan hátt en hin börnin.“ „Sammála,“ svarar Mars. „Það er sko alveg algengt hjá fólki sem er skynsegin, eins og við Adam.“ „Hvað er skynsegin?“ spyr PóGó og sækir gulan miða í bakpokann. „Vá! Það vantar greinilega mjög margt í bæklinginn þinn,“ svarar Mars. „Skynsegin fólk er með taugafræðilegan fjölbreytileika. Það er til dæmis fólk með ADHD eða á einhverfurófinu.“
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=