64 MAGAVERKURINN MAGNAST Þegar PóGó vaknar næsta morgun, segir Tomasz að það sé föstudagur. Geimverunni bregður við fréttirnar enda er hún glorhungruð. „Nei, það er ekki föstu-dagur,“ hlær Tomasz. „Þú þarft ekki að fasta. Dagurinn heitir bara föstudagur. Þetta er eitthvað gamalt nafn, síðan fólk borðaði ekki kjöt á þessum degi.“ PóGó varpar öndinni og hlakkar til að fá sér eitthvað gott í morgunmat. Faðir Tomaszar situr inni í stofu og les. Vinirnir laumast í eldhúsið og finna til morgunkorn og haframjólk. Það tekur PóGó ekki nema augnablik að sporðrenna innihaldi skálarinnar. Tomasz býður upp á ábót og á augabragði hefur geimveran gleypt í sig fimm kúffullar skálar. Morgunkornspakkinn er tómur og tímabært að halda af stað í skólann. PóGó ákveður að vera með krökkunum í skólanum til hádegis en ganga eftir það að geimskipinu. Dagurinn býður ekki upp á margar klukkustundir af dagsbirtu. PóGó verður því að nýta vel hverja stund sem býðst eftir að birt hefur til. Þegar geimveran nálgast skólalóðina setur hún upp hettu og sólgleraugu. Tomasz gengur við hlið hennar, með hvíta stafinn sér til trausts og halds.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=