28 „Heyrðu Adam. Manstu þegar þú spurðir mig hvort geimverur prumpa?“ spyr PóGó og heldur báðum höndum um loðna bumbuna. „Já!“ svarar Adam og bíður spenntur. Sonja og Tomasz bakka ósjálfrátt nokkur skref áður en PóGó lætur vaða. PRRRUUMMMMP! Prumpið er svo kröftugt að PóGó lyftist frá jörðu og svífur upp í loft með grænt prumpuský undir sér. Smám saman sígur PóGó niður og vonar að maginn hafi lokið sér af en þá byrjar næsta losun … PRRRRUUUUUMMMMMPPPPPPPFFFFFF!!! Í þetta sinn þeytist PóGó upp í loft af fullum krafti, enn hærra en áður. Krakkarnir hrópa skelkaðir og teygja sig til himins. Eftir fjórar mínútur af stanslausu prumpi er loks allur vindur úr geimverunni. Hún svífur rólega til jarðar eins og sprungin blaðra og lendir á aumum og úrvinda rassinum. PóGó dustar af sér og stendur upp til þess að hneigja sig og taka við fagnaðarlátum. Heima á plánetunni Poff er alltaf klappað mjög lengi fyrir voldugum vindgangi. Krakkarnir klappa hins vegar ekki. Þau bíða bara, líkt og þau búist við því að PóGó biðjist afsökunar á þessu fyrirmyndarprumpi. Vandræðaleg þögnin er loks rofin með háværu pípi frá tækinu á úlnliði Tomaszar.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=