14 „Erum við ekki öll svolítið skrítin? Ég sé þig reyndar ekki nógu vel til þess að vita hvernig þú lítur út. Ég er sko blindur,“ hlær Tomasz. Forritið TuNgA skilar ekki heldur neinum niðurstöðum um orðið blindu. PóGó opnar spjaldtölvuna og flettir á methraða yfir bæklinginn. Þar eru engar upplýsingar um blint fólk. Á myndunum hefur mannfólkið tvö augu á mann, rétt eins og Poffarar. Áhugavert, hugsar PóGó með sér og skoðar betur þessa mannveru sem passar illa við bæklinginn. Þetta er allt hið undarlegasta mál. „Hvað heitir þú?“ spyr Tomasz. Unglingurinn teygir úr munnvikunum svo það skín í hvítar tennurnar. Heima á plánetunni Poff myndi þetta þykja ógnandi hegðun, jafnvel stríðsáskorun. Samkvæmt bæklingnum kallast þetta hins vegar bros. Það er víst ein leið mannfólks til þess að láta í ljós ánægju eða sýna vingjarnlegt viðmót. PóGó reynir að brosa en andlitsvöðvarnir láta illa að stjórn. Um leið fattar PóGó að Tomasz sér brosið hvort eð er ekki. „Ég heiti P … Pó … Pálína,“ svarar geimveran. Hún vonar að nafnið sem hún hefur valið hljómi ekki fáránlega í eyrum unglingsins.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=