7 PóGó veltir fyrir sér lýsingunni á mannfólkinu. Rétt eins og Poffarar hafa mennskir jarðarbúar útlimi, hendur, fætur og höfuð. Andlit þeirra eru reyndar að miklu leyti hárlaus. Poffarar hafa hins vegar litríkan og fallegan feld. Einstaka menn hafa einhvers konar feld-líki á andlitinu sem kallast skegg en PóGó finnst það virka óttalega lufsulegt. Á höndum og fótum hefur mannfólk heila tíu fingur og tíu tær, á meðan PóGó dugar sex af hvoru. Ein skýringarmyndin sýnir teikningar af innyflum. Mannfólk er með eitthvað sem kallast lungu, rétt eins og PóGó hefur loftpoka. Það er líklega þess vegna sem geimvera frá Poff getur heimsótt plánetuna Jörð án þess að kafna. Mannfólk er svo skrítið … en samt eitthvað krúttlegt, hugsar PóGó og teygir sig í talstöðina. „Afsakið en … ef ég má spyrja … Er alveg nauðsynlegt að drepa þau öll? Mætti kannski kála bara helming? Væri það ekki nóg?“ „Nei,“ svarar yfirmaðurinn án þess að hika. „Þeim er ekki viðbjargandi. Alheimurinn hefur ekkert gagn af þeim, enda eru þeir hvort eð er allir eins. Bara óspennandi litlir mannmaurar. Þitt eina hlutverk er að yfirfara bæklinginn áður en við bætum mannfólki á lista yfir útdauðar tegundir.“ Geimveran lítur í kringum sig á skrautlegt geimskipið. Það er eins gott að hún nái að þrífa málninguna af veggjunum áður en hún skilar skutlunni.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=