102 „Finnurðu eitthvað?“ spyr Mars. „Það er að byrja,“ svarar PóGó og nuddar á sér kviðinn. Agnarsmáar loftbólur myndast í maganum og þrýstingurinn fer stigvaxandi. „Jæja …“ segir PóGó með fullan munn af ís. „Ég þarf að kveðja núna.“ Krakkarnir horfa inn um dyrnar, full vonar. PóGó vill ekki bregðast þeim. Loks réttir Tomasz fram höndina. Geimveran veit ekki alveg hvað hún á að gera, svo hún gerir bara það sama. Lófarnir mætast og Tomasz kreistir hönd geimverunnar þéttingsfast. Hana minnir að þetta heiti handaband og finnst það bara nokkuð notalegt. Skyndilega opnar Tomasz faðminn og vefur báðum örmum utan um PóGó. Hinir krakkarnir gera það sama og hópurinn stendur í gættinni í þéttum hnappi. „Hópknús!“ segir Adam björtum rómi. Geimveran skilur ekki alveg hvað er að gerast. Hún óttast að krakkarnir muni kremja úr henni líftóruna eða í það minnsta prumpið sem er byrjað að malla í maganum. „Ókei, stopp. Ekki meira svona knóshúp“ kreistir PóGó upp úr sér.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=