101 „Auðvitað gengur þetta upp,“ segir Adam spenntur. „Við löguðum geimskipið og PóGó er með skothelt plan. Prumpið mun bjarga heiminum! Við vöknum í fyrramálið og fáum okkur morgunmat eins og hvern annan laugardag. Ég ætla að fá mér hunangsseríós, en þið?“ PóGó finnur aftur fyrir þakklætinu flækjast í hálsinum. Ég mun sakna þess að hlusta á löngu ræðurnar hans Adams, hugsar geimveran og kyngir. Æ, ég mun sakna þeirra allra. Það er engin leið að vita hvað gerist eftir að hún nær sambandi við drottninguna. Spurningin liggur í loftinu en enginn krakkanna þorir að færa hana í orð. Það eru víst stærri hlutir í húfi en líf óbreytts Poffara. Geimveran veit að prumpið dugar ekki alla leið heim til Poff. Hún mun aldrei hitta fjölskylduna sína aftur. Þau eru reyndar ekki mörg eftir. Fæst hafa snúið til baka úr verkefnum sínum í fjarlægum sólkerfum. PóGó horfir út um gluggann, upp í myrkan himininn og ímyndar sér heimastjörnuna sína í 400 ljósára fjarlægð. Það er mjög langt heim, hugsar PóGó. Skrítin tilfinning læðist að geimverunni þegar hún lítur aftur á vini sína. Allt í einu líður henni eins og hún eigi kannski frekar heima hér … á Jörðinni. Að lokum mun prumpið klárast og geimskipið hrapa til Jarðar. Ég enda eflaust líf mitt í miðju Atlantshafi. En það er í lagi, svo lengi sem ég bjarga vinum mínum, hugsar geimveran og kreistir fram bros.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=