PóGó og prumpið Sem bjargaði heiminum Saga og myndir eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur
PóGó og prumpið sem bjargaði heiminum ISBN: 978-9979-0-3006-5 © 2025 höfundur texta og mynda Bergrún Íris Sævarsdóttir Ritstjórar: Marta Hlín Magnadóttir og Sigrún Sóley Jökulsdóttir Faglegur yfirlestur: Hanna Björg Sigurjónsdóttir, prófessor í fötlunarfræði og Öryrkjabandalag Íslands Málfarslestur: Ingólfur Steinsson Hönnun og umbrot: Ester Magnúsdóttir Prentvinnsla: Prentmiðlun ehf. / Lettland Útgáfan var styrkt af Mennta- og barnamálaráðuneyti Íslands 1. útgáfa 2025 Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Kópavogur Svansmerkið, Prentgripur, 1041 0986
EFNISYFIRLIT 1. Á leið til Jarðar.....................................................................7 2. Hvar er ég?.........................................................................12 3. Ertu geimvera? ..................................................................18 4. Mig vantar föt! ..................................................................24 5. VARÚÐ!..............................................................................34 6. Kattarþrælar og heimsmet .............................................44 7. Er öskudagur eða? ...........................................................51 8. Ef þú ættir einn séns … ....................................................60 9. Magaverkurinn magnast .................................................66 10. Eldgos, flóð og fellibyljir ...............................................76 11. Ís í verðlaun ....................................................................82 12. Ertu viss? ..........................................................................88 13. Þessu er öllu lokið …......................................................93 14. Þakklætistár ....................................................................97 15. Vaxandi þrýstingur ......................................................101 16. Hvað er PóGó? ............................................................106 17. Allir gulu miðarnir ........................................................111
5 Á LEIÐ TIL JARÐAR Geimveran PóGó nálgast Jörðina á ógnarhraða. Eftir langt ferðalag getur hún loksins stigið fæti á fast land. Ferðalagið hefur tekið heil 400 ljósár! PóGó hefur aldrei áður verið svona langt í burtu frá heimaplánetunni, Poff. Drottningin af Poff hefur fyrirskipað algjöra endurskipulagningu á Vetrarbrautinni. Þar er mörg vandasöm verk að vinna. Fyrst á dagskrá er að útrýma dýrategundinni Homo sapiens, eða mannfólki eins og það kallar sig víst. PóGó hefði viljað fá skemmtilegra verkefni en hafði víst lítið val. Eins og öðrum Poffurum ber PóGó skylda til að hlýða því sem drottningin skipar fyrir. PóGó dauðleiðist á löngu ferðalaginu og hefur drepið tímann með því að teikna litríkar myndir á veggi geimskipsins. Veggina prýða nú teikningar af vinum PóGó og landslaginu á plánetunni Poff. Mig langar heim, hugsar geimveran og dæsir. Svo hellir hún sér upp á heitan bolla af orgorg. „Stjórnstöð kallar,“ heyrist allt í einu í talstöðinni. PóGó hleypur með sjóðheitan bollann að stjórnborðinu. „Já, halló! PóGó til stjórnstöðvar! Hvað er að frétta?“ spyr geimveran, fegin því að hafa loks einhvern að spjalla við.
6 „Lendingarstaður hefur verið valinn og hnitin skráð í kerfið. Haltu stefnu og þú ættir að lenda mjúklega innan skamms. Þú hefur fjóra jarðneska sólarhringa til þess að kanna eðli Homo sapiens og yfirfara gögn okkar um mannverur áður en við þurrkum þær út. Eftir að verkefninu lýkur munt þú snúa aftur til Poff.“ Geimveran geispar og fær sér stóran sopa af orgorginu. Svo teygir hún sig eftir spjaldinu og flettir í gegnum bæklinginn Mannfólk og aðrar óæðri tegundir.
7 PóGó veltir fyrir sér lýsingunni á mannfólkinu. Rétt eins og Poffarar hafa mennskir jarðarbúar útlimi, hendur, fætur og höfuð. Andlit þeirra eru reyndar að miklu leyti hárlaus. Poffarar hafa hins vegar litríkan og fallegan feld. Einstaka menn hafa einhvers konar feld-líki á andlitinu sem kallast skegg en PóGó finnst það virka óttalega lufsulegt. Á höndum og fótum hefur mannfólk heila tíu fingur og tíu tær, á meðan PóGó dugar sex af hvoru. Ein skýringarmyndin sýnir teikningar af innyflum. Mannfólk er með eitthvað sem kallast lungu, rétt eins og PóGó hefur loftpoka. Það er líklega þess vegna sem geimvera frá Poff getur heimsótt plánetuna Jörð án þess að kafna. Mannfólk er svo skrítið … en samt eitthvað krúttlegt, hugsar PóGó og teygir sig í talstöðina. „Afsakið en … ef ég má spyrja … Er alveg nauðsynlegt að drepa þau öll? Mætti kannski kála bara helming? Væri það ekki nóg?“ „Nei,“ svarar yfirmaðurinn án þess að hika. „Þeim er ekki viðbjargandi. Alheimurinn hefur ekkert gagn af þeim, enda eru þeir hvort eð er allir eins. Bara óspennandi litlir mannmaurar. Þitt eina hlutverk er að yfirfara bæklinginn áður en við bætum mannfólki á lista yfir útdauðar tegundir.“ Geimveran lítur í kringum sig á skrautlegt geimskipið. Það er eins gott að hún nái að þrífa málninguna af veggjunum áður en hún skilar skutlunni.
8 Úff, þetta gæti tekið sinn tíma. Veggirnir voru bara svo gráir og niðurdrepandi, hugsar PóGó og nuddar laust yfir eina teikninguna. Geimveran fær sér annan bolla af sjóðheitu orgorg. Svo sækir hún blauta tusku og byrjar að þrífa. Það er óttaleg synd að fínu teikningarnar þurfi að fara. Mynstur og myndir prýða stýrið. Stóra stjórntölvan er þakin gulum doppum sem lífga upp á áður litlausa hönnun. PóGó hefur reyndar ekki hugmynd um hvað flestir þessara takka gera. Það kemur þó ekki að sök. Áfangastaðurinn hefur verið forritaður inn í tölvuna. PóGó þarf ekkert að gera. Bara þrífa og bíða þess að lenda mjúklega á réttum stað. PóGó bleytir tuskuna aftur og strýkur yfir gular doppurnar. Sumar renna auðveldlega af en aðrar eru þrjóskari. Ein doppan er pikkföst og geimveran beitir öllum sínum kröftum til þess að nudda hana burt. Um leið og PóGó þrýstir niður á lyklaborðið kviknar á skjánum fyrir ofan stýrið. „Viltu breyta um stefnu?“ stendur stórum stöfum þvert yfir skjáinn. Orðin JÁ og NEI blikka í sífellu. NEI! Breyta um stefnu? Ó nei! Hvað hef ég gert? hugsar PóGó og fálmar eftir réttum hnappi. Táknin á lyklaborðinu renna öll saman og geimveran veit varla lengur hvað hún heitir eða hvert hún stefnir. Af hverju
9 var ég ekki bara heima? hugsar PóGó en finnur loks takka sem gæti verið sá rétti. PóGó ýtir honum varlega niður. Um leið birtast ný skilaboð á skjánum. Orðin ERTU ALVEG VISS!? eru stór og ógnandi. Á stjórnborðinu blikkar rautt ljós og hátt sírenuvæl sker í eyrun. Geimverunni bregður svo svakalega að hún missir bollann úr höndunum. Heitt og þykkt orgorgið sullast yfir lyklaborðið og seytlar niður á milli takkanna svo neistar skjótast í allar áttir. Sírenuvælið hækkar og ljósið blikkar nú svo hratt að PóGó heyrir ekki lengur í eigin hugsunum. Hávær og vélræn rödd berst frá tölvunni: BROTLENDING! BROTLENDING! BROTLENDING! Alltaf þarf ég að klúðra öllu, hugsar PóGó og hniprar sig saman undir borði, með hnén upp að höku. Það eina sem hægt er að gera er að vona að geimskipið lendi í Suður-Asíu. Indland var valið sem lendingarstaður, bæði vegna staðsetningar og mannfjölda. Hátt hitastig Indlands hentar geimverunni líka vel þar sem hún kemur frá heitri plánetu. Á meðan tölvuröddin telur niður klemmir PóGó aftur augun og heldur niðri í sér andanum. 3 … 2 … 1…
10 HVAR ER ÉG? Geimveran rankar við sér. Svalt súrefni Jarðar hefur þrýst sér inn í loftpokana. Geimskipið er illa leikið eftir brot- lendinguna. Stýrið hvergi sjáanlegt. Jökulkalt loft berst á fleygiferð inn um glugga með brotna rúðu og PóGó byrjar samstundis að skjálfa. Það tekur dágóða stund að ná áttum en sem betur fer eiga Poffarar bækling um næstum því allt í himingeimnum. PóGó finnur bæklinginn Brotlending á framandi plánetu og byrjar að lesa. Skref 1: Felið farartækið með því að slá inn kóðann. PóGó stekkur á fætur og pikkar inn langa talnarunu á brotið lyklaborðið. Það rýkur úr stjórnborðinu og brunalykt gýs upp. Sem betur fer virkar kóðinn. Um leið og PóGó slær inn síðustu töluna verður geimskipið ósýnilegt. Geimveran fikrar sig af stað en meiðir sig í fótunum þegar harðir steinar stingast í iljarnar. Hún lítur hissa í kringum sig og virðir fyrir sér undarlegt umhverfið. Hér er allt grátt, fyrir utan nokkur gul tæki sem sveifla stórum steypuklumpum í loftinu. PóGó grípur spjaldið og flettir upp myndum af heimilum mannfólks. Ætli þetta séu hús? hugsar geimveran. Þetta gæti kannski orðið það
11 á endanum þegar tækin hafa lokið við verk sitt. Ef marka má hitastigið og umhverfið er PóGó hins vegar ekki á Indlandi. Hér eru engar kýr á vappi og engin falleg hof. PóGó hafði hlakkað svo til að rölta um indverskan markað og skoða textíl og matvöru í öllum regnbogans litum. Þess í stað hefur geimskipið brotlent í litlausri steypueyðimörk þar sem loftið hreyfist allt of hratt. PóGó hefur lesið sér til um veður og reynt að ímynda sér hvernig það er að fá vindgust í andlitið en bjóst ekki við svona miklu roki. Á Indlandi væru göturnar fullar af fólki á öllum aldri. Hér er hins vegar ekkert líf að sjá, hvorki gangandi á götum úti né klifrandi í trjám. PóGó flettir upp staðsetningu sinni á spjaldtölvunni. Samkvæmt kortinu heitir þessi staður Ísland. Þetta er fámenn eyja í Norður-Atlantshafi, ansi nálægt Norðurpólnum. Hér er svo hvasst að geimveran heldur varla jafnvægi. Henni líður sem hún gæti fokið í burtu með næstu vindhviðu. PóGó opnar því bakpokann og raðar ofan í hann grjóti til þess að þyngja sig. Nú ætti ég að tolla á jörðu niðri, hugsar PóGó og festir bakpokann á sig. Skyndilega kemur einhver gangandi. PóGó bakkar í flýti upp að húsvegg og fylgist með mannverunni úr öruggri fjarlægð. Þetta er líklega mannsungi. Hann er þó nokkuð hávaxinn þrátt fyrir hafa ekki náð fullorðinsaldri. PóGó kíkir í bæklinginn og sér að þetta er ekki ungi heldur svokallaður unglingur. PóGó langar að tala við veruna og kveikir á þýðingar- forritinu TuNgA. Það er frábær uppfinning sem hjálpar
12 Poffurum að tala við hinar ýmsu tegundir, rétt áður en þeim er útrýmt. Það tekur forritið örskamma stund að hlaða niður réttu tungumáli. PóGó nálgast krullhærðu veruna varlega. Unglingurinn heldur fyrir framan sig hvítu priki og slær því til og frá með snöggum hreyfingum. „Góðan daginn,“ segir geimveran og talar skyndilega íslensku eins og ekkert sé. Unglingurinn snýr sér í átt að PóGó og heilsar. Hann leggur ekki á flótta heldur stendur bara kyrr. Það er næstum eins og hann sé ekkert hræddur. Eins og honum bregði alls ekki við það að hitta loðna græna geimveru. „Vinsamlega leggðu frá þér vopnið,“ segir PóGó með ákveðnum tóni. „Vopnið?“ spyr unglingurinn og hlær. „Meinarðu hvíta stafinn minn?“ PóGó virðir hvítt prikið betur fyrir sér en finnur ekki merkingu fyrir hvíta stafinn í forritinu TuNgU. Enn hefur unglingurinn ekki sýnt nein viðbrögð við útliti geimverunnar. Það er nokkuð augljóst að PóGó er ekki af þessum heimi. Samt kippir unglingurinn sér hvorki upp við fálmarana né feldinn. Hann segist heita Tomasz og vera 13 ára gamall.
13 „Finnst þér ég ekkert skrítin … í útliti?“ spyr PóGó og bíður svars.
14 „Erum við ekki öll svolítið skrítin? Ég sé þig reyndar ekki nógu vel til þess að vita hvernig þú lítur út. Ég er sko blindur,“ hlær Tomasz. Forritið TuNgA skilar ekki heldur neinum niðurstöðum um orðið blindu. PóGó opnar spjaldtölvuna og flettir á methraða yfir bæklinginn. Þar eru engar upplýsingar um blint fólk. Á myndunum hefur mannfólkið tvö augu á mann, rétt eins og Poffarar. Áhugavert, hugsar PóGó með sér og skoðar betur þessa mannveru sem passar illa við bæklinginn. Þetta er allt hið undarlegasta mál. „Hvað heitir þú?“ spyr Tomasz. Unglingurinn teygir úr munnvikunum svo það skín í hvítar tennurnar. Heima á plánetunni Poff myndi þetta þykja ógnandi hegðun, jafnvel stríðsáskorun. Samkvæmt bæklingnum kallast þetta hins vegar bros. Það er víst ein leið mannfólks til þess að láta í ljós ánægju eða sýna vingjarnlegt viðmót. PóGó reynir að brosa en andlitsvöðvarnir láta illa að stjórn. Um leið fattar PóGó að Tomasz sér brosið hvort eð er ekki. „Ég heiti P … Pó … Pálína,“ svarar geimveran. Hún vonar að nafnið sem hún hefur valið hljómi ekki fáránlega í eyrum unglingsins.
15 Tomasz segist vera á leið í sund. Samkvæmt spjaldtölvunni er Ísland þekkt fyrir risastórar holur fullar af heitu vatni og eitthvað sem kallast rennibrautir. „Má ég koma með?“ spyr PóGó. Þegar Tomasz svarar játandi kippast munnvik geimverunnar ósjálfrátt upp á við í lítið bros. Hún er greinilega byrjuð að aðlagast plánetunni Jörð.
16 ERTU GEIMVERA? Þegar PóGó og Tomasz nálgast sundhöllina heyrast raddir og köll. Tvö börn standa fyrir framan hvíta byggingu sem merkt er SUNDLAUG með stórum stöfum. Ó, nei! hugsar PóGó sem hélt að þau Tomasz yrðu ein í sundi. „Hæ krakkar,“ segir Tomasz. „Þetta er Pálína, hún er ný í hverfinu.“ „Ný á Jörðinni meinarðu?“ spyr lágvaxinn dökkhærður drengur með einhvers konar skálar yfir eyrunum. PóGó kíkir í snarhasti í bæklinginn en finnur engar upplýsingar um eyrnaskálarnar. Við hlið drengsins stendur stúlka með krosslagða handleggi og mælir geimveruna út. Stúlkan er líka með óvanaleg eyru, því utan um annað þeirra er bleikt tæki sem PóGó hefur aldrei séð áður. „Hæ, ég heiti Adam. Ertu geimvera?“ spyr dökkhærði drengurinn blátt áfram.
17
18 Viðbrögð Adams koma PóGó á óvart. Í bæklingnum var varað við ofsafenginni hræðslu eða lamandi ótta. Þess í stað starir drengurinn á geimveruna. Hann bíður brosandi svars, án þess svo mikið sem að svitna. Stúlkan stendur enn þögul en hallar höfðinu og pírir augun. Tomasz er sá eini sem bregst við eins og bæklingurinn sagði til um. Hann hefur greinilega loksins áttað sig. „Ha? Geimvera!?“ hrópar Tomasz. Hann stígur stórt skref til baka, nær vinum sínum. „Það er ekkert að óttast. Fyrirgefðu að ég blekkti þig. Nafn mitt er ekki Pálína heldur PóGó …“ Geimveran klórar sér í loðnu enninu og reynir að muna ræðuna úr bæklingnum. „Ég er bara auðmjúkur túristi frá fjarlægri plánetu. Mig hefur dreymt um að heimsækja Jörðina síðan ég var agnarsmár ungi.“ Krakkarnir stara opinmynnt á PóGó. Á skannanum sést að hjartsláttur Tomaszar hefur sem betur fer róast. „Þið getið séð mig, af því að þið eruð enn á barnsaldri. Ég er með sérstakan huliðshjálm sem tryggir að fullorðnir sjá mig hvorki né heyra í mér.“
19 „Vó, það er sniðugt! Ég væri til í svoleiðis,” segir Adam og brosir risastóru brosi. „Já, mjög töff,“ tekur Tomasz undir. Stúlkan hefur enn ekki sagt orð en horfir rannsakandi á geimveruna. „Hvað heitir þú?“ spyr PóGó og beinir orðum sínum til stúlkunnar. Allt í einu lyftir hún báðum höndum og byrjar að hreyfa fingurna, eins og til þess að mynda með þeim einhvers konar merki. Það tekur nokkrar sekúndur að skipta yfir í íslenskt táknmál í forritinu TuNgU. Með einföldum fingrahreyfingum segist stúlkan heita Sonja. „Ég er döff og heyri ekki með eyrunum, en get notað varalestur þegar ég sé framan í fólk ... og geimverur,“ segir Sonja og brosir. Allt í einu heyrist píp frá einhvers konar tæki á úlnlið Tomaszar. „Sundæfingin er að byrja, við þurfum að drífa okkur inn!“ segir Tomasz og Sindri táknar jafnóðum fyrir Sonju. Tomasz snýr sér með stafinn í átt að byggingunni. PóGó
20 lítur á stéttina. Litlir punktar mynda línu í átt að stórum glerdyrum hússins. „Viltu koma með?“ spyr Sonja með snöggum handahreyfingum. „Já! Komdu með!“ hrópar Adam. „Ég þarf að vita meira um þig, og plánetuna þína og hvernig þú komst hingað! Hvað borða geimverur eins og þú? Eða borðar þú kannski ekki neitt? Ertu með meltingarfæri? Færðu kannski í magann? Þarftu þá að prumpa … eða eru það bara dýrin á Jörðinni sem reka við?“ Adam heldur áfram að dæla spurningum yfir PóGó. Þegar inn er komið bendir Sonja á bekk þar sem PóGó getur beðið. Krakkarnir skipta liði og halda sig inni í lokuðu herbergi, líklega til þess að klæða sig í sundföt. Á meðan þau synda í stóru lauginni ákveður geimveran að dýfa tánum í vatnið. Hún velur litla kringlótta laug sem merkt er 42–44°c. Það er einmitt kjörhitastig Poffara. Í vatninu situr gamall maður með lokuð augu. Hann hefur ekkert hár á höfðinu en er þess í stað kafloðinn á bakinu, bringu og öxlum. Úfnar augnabrúnir slúta yfir hrukkótt augun. Út úr eyrum og nösum mannsins standa gróf hár. Sem betur fer ver huliðshjálmurinn PóGó frá fullorðnum augum. Maðurinn kippir sér því ekkert upp við nærveru grænu geimverunnar sem stendur á bakkanum við hlið hans. PóGó lætur tærnar síga ofan í volgt vatnið og notaleg tilfinning streymir
21 um líkamann. Á Poff er vissulega vatn en það er miklu klístraðra. Þetta vatn er silkimjúkt og áður en geimveran veit af er hún komin á bólakaf. Smám saman líður kuldahrollurinn úr PóGó og loks er hver einasti vöðvi orðinn slakur. PóGó skilur nú enn betur áætlunina um að útrýma mannfólkinu. Þegar hreinsun Jarðar er lokið ætlar drottningin af Poff nefnilega að nýta hana sem sumarleyfisstað. Plánetunni Jörð verður breytt í eina stóra lúxus heilsulind fyrir konungsfjölskylduna. Þetta verður í eina skiptið sem verkamaður eins og PóGó fær að heimsækja Jörðina og því eins gott að njóta þess í botn.
22 MIG VANTAR FÖT! „Ertu að koma upp úr?“ kallar Adam. Ég hef greinilega dottað í pottinum, hugsar PóGó og klifrar geispandi upp á bakkann. Krakkarnir eru búin að synda og komin aftur í fötin sín. Kannski ætti ég að klæðast fötum, eins og mannfólkið. Það gæti varið mig fyrir kuldanum, hugsar PóGó með sér og hristir grænan og gegnblautan feldinn. Vatnsdropar fljúga í allar áttir. Gamla manninum bregður þegar droparnir hæfa hann í andlitið. Hann lítur furðu lostinn í kringum sig. Þegar hann sér engan sökudólg lokar hann augunum aftur og lætur axlirnar síga. Geimveran hristir sig alla leiðina að krökkunum og er orðin sæmilega þurr þegar fram er komið. „Mig vantar föt,“ tilkynnir PóGó. Krakkarnir segja lítið mál að redda því. Þau ganga saman að risastórri körfu, fullri af flíkum af ýmsum stærðum og gerðum. „Hérna eru óskilamunirnir. Þeir eru næstum aldrei sóttir,“ segir Sonja með höndunum og yppir öxlum.
„Þessir eru flottir!“ segir Adam og heldur uppi tveimur fremur ógnvekjandi árásarvopnum. Geimveran stekkur samstundis í varnarstöðu. Hún ber fyrir sig hendurnar og skipar Adam að afvopnast eins og skot. Krakkarnir hlæja hátt. Þau útskýra að vopnin heiti hælaskór og séu vinsæll fótabúnaður. Því á PóGó erfitt með að trúa. Það getur hvorki verið hollt né gott fyrir fætur að ganga á oddmjóum prjónum. PóGó hristir höfuðið og gramsar í körfunni. Upp koma flatbotna og fóðraðir skór, með löngum böndum. Neðst í körfunni rekst geimveran á eitthvað loðið. Í augnablik heldur hún að hún hafi fundið JóJó frænda sinn. Svo sér PóGó að þetta er bara ósköp saklaus gervipels. PóGó andar léttar, klæðir sig í pelsinn og fagnar því að JóJó frændi hafi ekki verið fleginn lifandi og breytt í kápu. Geimverunni bregður þegar þau koma út. Á meðan hópurinn var í sundi skall á niðamyrkur. Það er líkt og sólin hafi verið þurrkuð út af himinhvolfinu. 23
24 „Er ég líka orðinn blindur?“ spyr PóGó forviða og krakkarnir flissa. „Nei, það er dimmt á kvöldin“ svarar Adam og heldur áfram. „Það er reyndar ekki komið kvöld en Jörðin hallar. Þess vegna snýr Ísland í burtu frá sólinni. Sko, á veturna. Á sumrin er hins vegar bjart allan sólarhringinn. Þá sef ég með grímu yfir augunum.“ PóGó reynir að meðtaka upplýsingaflóðið. Adam þylur upp ótal staðreyndir um jafndægur, ljósaskipti og skammdegi. Eftir langan fyrirlestur er PóGó samt litlu nær. Það er erfitt að læra svona skelfilega mikið á einum degi. Bæklingurinn í spjaldtölvunni inniheldur greinilega mjög takmarkaðar upplýsingar. Kannski ég ætti að leiðrétta bæklinginn, bæta við því sem ég hef lært um lífið á Jörðu, hugsar PóGó og teygir sig í spjaldið. „Sér mannfólk sem sagt mjög vel í myrkri?“ spyr PóGó hópinn og klórar sér í kollinum. „Ég sé allavega ekki neitt,“ svarar Tomasz og útskýrir betur. „Í birtu get ég séð útlínur og skugga en á kvöldin þarf ég að treysta á hin skilningarvitin. Blinda getur þýtt svo margt. Sumir fæðast blindir eða fá sjúkdóma sem valda blindu. Aðrir missa sjónina eftir slys. Svo er til fullt af fólki sem fæðist án annars augans eða jafnvel
25 beggja. Heilinn minn hefur fundið leiðir fyrir mig til þess að skynja umhverfið. Ég treysti til dæmis heilmikið á heyrnina og lyktarskynið. Hvíti stafurinn hjálpar líka helling.“ PóGó veltir fyrir sér hvort Tomasz geti heyrt hvað nýi pelsinn er mjúkur. Uppreimaðir skórnir vernda viðkvæmar iljar geimverunnar frá gráu grjótinu. Kannski heyrir Tomasz í grænum tánum hreyfast inni í þessum framandi fótabúnaði. „En þið? Finnst ykkur ekkert dimmt?“ segir PóGó og beinir spurningunni að Sonju og Adam. Þau útskýra að augun venjist myrkrinu smám saman. Auk þess noti mannfólkið rafmagn til þess að lýsa upp götur og gangstíga. Það þykir PóGó mjög kjánaleg fjárfesting. Samkvæmt útreikningum geimverunnar væri mun hagkvæmara að banna fólki að vera á ferðinni eftir klukkan fimm á daginn. Best væri að læsa Íslendinga inni í húsum sínum og hleypa þeim bara út þegar sól er á lofti og öruggt að vera á ferli. Þessu mótmæla krakkarnir hástöfum en sættast loks á að vera ósammála PóGó. „Við ætlum í ísbúðina, kemurðu með?“ spyr Tomasz og bíður eftir svari. PóGó skilur ekki af hverju búð myndi selja klaka í þessum kulda en ákveður að fylgja krökkunum. Ísbúðin
26 reynist hins vegar ekki selja frosið vatn eins og PóGó hafði haldið. Krakkarnir kaupa sér risastór pappaglös með hvítu, köldu gumsi, brúnni leðju og litríkum molum. Sonja fullyrðir að PóGó verði að smakka og kaupir lítinn ís í brauði. PóGó þykir tilhugsunin frekar ógirnileg en nær ekki að hætta við. Sonja snýr aftur með einhvers konar kexkeilu á hvolfi og í henni er eitthvað sem minnir á hvítan kúk. „Á ég að setja þetta upp í mig?“ spyr PóGó efins. Sonja kinkar kolli. Adam og Tomasz skófla upp í sig hvíta gumsinu. Það er þá líklega ekki kúkabragð af ísnum, hugsar PóGó og rekur hikandi út úr sér fjólubláa tunguna. Um leið og tungan snertir kaldan ísinn er eins og þúsund glitrandi regnbogar lendi á bragðlaukunum. PóGó hefur aldrei upplifað annað eins! Sælustraumur fer um líkamann þegar PóGó fær sér stóran bita af ísnum. Sé hamingjan til hefur geimveran fundið hana hér, í ísbúðinni. Það tekur ekki nema 3,2 sekúndur að gleypa allan ísinn. Adam og Sonja hlæja og segja Tomaszi hvað gerðist. PóGó finnst reyndar ekkert fyndið við það að ísinn sé búinn og langar í meira. Í ísbúðinni vinnur miðaldra kona sem getur sem betur fer ekki séð geimverur. Án þess að hika stekkur PóGó inn fyrir afgreiðsluborðið, fleygir sér að ísvélinni og hallar höfðinu undir stútinn. Svo grípur PóGó handfangið og dælir ísnum beint upp í munninn á sér.
27 „Hvað er eiginlega gangi?“ spyr afgreiðslukonan þegar krakkarnir byrja að flissa. Konan snýr sér í allar áttir og skimar eftir því sem krökkunum finnst svona fyndið. Dísætur rjómaísinn dælist áfram upp í PóGó og bragðlaukarnir dansa af gleði. Allt í einu nálgast afgreiðslukonan ísvélina. Hún er gapandi hissa, með uppglennt augu og djúpar áhyggjuhrukkur á enninu. Það er líklega ansi sérstakt að sjá ísinn sprautast úr vélinni og hverfa jafnóðum í lausu lofti. Konan teygir fram höndina til þess að reyna að stöðva vélina. PóGó kyngir síðasta bitanum, sleppir handfanginu og hleypur aftur til krakkanna. Þau eiga erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum þegar þau sjá andlitið á PóGó, útatað eftir ísinn. Bak við afgreiðsluborðið klórar konan sér ringluð í kollinum. Þegar út er komið springa krakkarnir loks úr hlátri. Svo spyr Sonja geimveruna hvort henni hafi þótt ísinn góður. „Ís er það besta sem ég hef bragðað,“ svarar PóGó og brosir. Um leið og geimveran sleppir orðinu finnur hún að maginn er ósáttur við magnið sem hún dældi í hann. Háir skruðningar berast frá kviðnum og PóGó veit upp á sig sökina enda hafa Poffarar fimm sinnum minni maga en mannfólk.
28 „Heyrðu Adam. Manstu þegar þú spurðir mig hvort geimverur prumpa?“ spyr PóGó og heldur báðum höndum um loðna bumbuna. „Já!“ svarar Adam og bíður spenntur. Sonja og Tomasz bakka ósjálfrátt nokkur skref áður en PóGó lætur vaða. PRRRUUMMMMP! Prumpið er svo kröftugt að PóGó lyftist frá jörðu og svífur upp í loft með grænt prumpuský undir sér. Smám saman sígur PóGó niður og vonar að maginn hafi lokið sér af en þá byrjar næsta losun … PRRRRUUUUUMMMMMPPPPPPPFFFFFF!!! Í þetta sinn þeytist PóGó upp í loft af fullum krafti, enn hærra en áður. Krakkarnir hrópa skelkaðir og teygja sig til himins. Eftir fjórar mínútur af stanslausu prumpi er loks allur vindur úr geimverunni. Hún svífur rólega til jarðar eins og sprungin blaðra og lendir á aumum og úrvinda rassinum. PóGó dustar af sér og stendur upp til þess að hneigja sig og taka við fagnaðarlátum. Heima á plánetunni Poff er alltaf klappað mjög lengi fyrir voldugum vindgangi. Krakkarnir klappa hins vegar ekki. Þau bíða bara, líkt og þau búist við því að PóGó biðjist afsökunar á þessu fyrirmyndarprumpi. Vandræðaleg þögnin er loks rofin með háværu pípi frá tækinu á úlnliði Tomaszar.
29 „Ég þarf að fara heim í kvöldmat,“ segir Tomasz og stöðvar pípið. Sonja og Adam kveðja og ganga samferða í vesturátt. Tomasz segist búa í næsta húsi og býður góða nótt. PóGó verður hugsað til brotinnar framrúðunnar á geim- skipinu sínu. Samkvæmt fálmurunum mínum á að kólna enn meira með kvöldinu. Einhvers staðar verð ég að komast í skjól yfir nóttina, hugsar geimveran og fitjar upp á nefið. Hún röltir af stað en heyrir svo Tomasz kalla á eftir sér. „Bíddu … PóGó! Hvar ætlarðu að sofa í nótt?“ „Ég veit það ekki alveg … “ svarar PóGó og sækir spjaldtölvuna. „Í bæklingnum stendur að það séu um 16 milljón hótelherbergi á Jörðu. Minnsta hótel heims er í bænum Amberg í Þýskalandi og það stærsta er í Malasíu. Mér sýnist þó ekki eitt einasta hótel vera í göngufæri við mig einmitt núna … “ Tomasz hlustar með samúðarsvip og spyr svo hvernig maginn sé. Geimveran strýkur yfir bumbuna en finnur enga ólgu svo hún segir Tomaszi að allt sé góðu lagi. „Sko … Þú mátt alveg gista hjá mér … en ég er með mjög næmt lyktarskyn …“
30 „TAKK! Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur,“ svarar PóGó hughreystandi. Vindganginum er lokið, ég lofa.“ PóGó eltir Tomasz að húsinu hans. Inni í eldhúsi stendur fullorðinn maður og hrærir í pottum. Þetta er líklega faðirinn, hugsar PóGó og gengur úr skugga um að huliðshjálmurinn sé virkur. „Witaj! Jak się miewasz?“ segir pabbinn á framandi máli. „Bardzo dobrze,“ svarar Tomasz áður en PóGó nær að hlaða niður tungumálinu pólsku. Tomasz fylgir PóGó inn í herbergið og fer svo fram til að borða kvöldmat með pabba sínum. PóGó hefur aldrei áður komið inn á heimili mannfólks svo það er margt að skoða. Þetta er ekki svo ólíkt heimilunum á Poff. Upp við vegg er umbúið rúm með röndóttu teppi. Þykkur pelsinn hefur reynst geimverunni vel og haldið á henni hita. Það er þó verulega freistandi að skríða undir teppið í örskamma stund. PóGó tyllir sér á rúmbríkina og strýkur lófanum yfir mjúkt teppið. Kannski bara nokkrar mínútur. Þetta hefur verið langur dagur og PóGó þarf sárlega á hvíld að halda. Brotlendingin hafði heilmikil áhrif, sem og óvæntur lendingarstaðurinn, krakkarnir, heiti potturinn og ísinn sem setti magann á hvolf. PóGó býst við öðru eins á morgun og þarf búa sig undir það, bæði líkamlega og andlega. Geimveran hjúfrar sig undir teppinu og Witaj! Jak się miewasz?: Halló! Hvernig hefurðu það? Bardzo dobrze: Mjög gott
31 flettir enn einu sinni í gegnum bæklinginn. Mannfólkið sem hún hefur rannsakað í dag líkist lítið þeim skrítnu skepnum sem bæklingurinn lýsir. Krakkarnir voru hvorki heimskir, vondir né sérlega ljótir. Þau voru aftur á móti vingjarnleg og hlý og meira að segja frekar fyndin og skemmtileg. PóGó lokar bæklingnum og um leið birtast skilaboð á skjánum. Undarleg tilfinning gerir vart við sig innra með geimverunni. Þetta eru ekki vindverkir, heldur eitthvað annað. Hún reynir að hunsa tilfinninguna og dregur teppið upp að höku. Á morgun hlýt ég að finna allt þetta vonda og ómerkilega fólk sem fjallað er um í bæklingnum, hugsar PóGó. Þá mun mér líða betur með að útrýma öllu mannkyni eins og það leggur sig.
32 VARÚÐ! Þegar PóGó vaknar er þessi undarlega tilfinning enn til staðar. Um leið og Tomasz vaknar biður geimveran hann um blöð og penna. Hana langar að skrifa hjá sér það sem hún hefur lært um mannfólkið, á meðan það er enn ferskt í minni. „Þið eruð allt öðruvísi en ég hélt. Það er til dæmis ekki orð um blindu í þessum bæklingi,“ segir PóGó og klórar sér í kollinum. Tomasz færir geimverunni lítinn bunka af gulum miðum. Hún skrifar hjá sér nokkur atriði og setur miðana ofan í bakpokann sinn. Því næst rölta PóGó og Tomasz af stað í skólann. Samkvæmt upplýsingum geimverunnar er grunnskóli einhvers konar fangelsi fyrir börn. Þar er börnum er kennt að haga sér eins og fullorðið fólk. „Hvað áttu að læra í dag? Ertu búinn að læra að þegja og hlusta, sitja kyrr og ydda blýanta?“ spyr PóGó og hrukkar ennið. Tomasz hlær og segir að skólinn sé nú reyndar alls ekki þannig. Í skólanum læri börn alls konar skemmtilegar greinar og fái að leika sér og spjalla
33 inn á milli. Hann fullvissar geimveruna um að hinir krakkarnir muni taka henni vel. Svo lofar hann að enginn muni hálshöggva PóGó eða tilkynna til yfirvalda. „Ég þarf á höfðinu að halda, sjáðu til,“ ítrekar PóGó og nuddar grannan hálsinn. „Kannski það sé samt best að þú setjir upp hettuna … bara svona til öryggis …“ svarar Tomasz og beygir í átt að skólanum. Skólabyggingin er ekki lokuð af með háum fangelsisveggjum. Fyrir utan hana eru þó einhvers konar grindur í ýmsum litum. Þar hanga nokkur börn á hvolfi, eflaust að fá útrás fyrir sinn innri apa. Það er ekki svo langt síðan mannskepnan þróaðist frá því að ganga á fjórum fótum. PóGó hefði haldið að þeir sem hönnuðu skólana vildu frekar hjálpa börnum að berjast á móti hinu forna eðli. Þannig gætu börnin þroskast og þróast í átt að siðmenntuðum einstaklingum. Á lóðinni eru ekki bara klifurgrindur heldur einnig hangandi bíldekk sem börnin sitja á og sveifla sér í fram og til baka. PóGó skilur ekkert hvað bíldekk hafa með nám að gera en eltir Tomasz að fótboltavelli við skólann. Þar bíða Adam og Sonja en einnig tveir krakkar í viðbót. Við hlið Adams stendur krakki með rautt hár sem vísar beint upp í loft. Krakkinn er með einhvers konar glugga fyrir augunum sem PóGó hefur ekki séð áður. Þarna stendur líka
34 drengur sem líkist Sonju að næstum öllu leyti. Þau eru nokkurn veginn alveg eins, hugsar PóGó. Drengurinn stendur hins vegar ekki, heldur situr í undarlega útlítandi stól. Þegar við komum nær sé ég að stóllinn er á hjólum! Meira að segja stólarnir hafa dekk, hugsar PóGó og skilur ekkert í þráhyggju mannfólks fyrir dekkjum. PóGó ætlar að sækja sér gulan miða til þess að skrifa þetta hjá sér. Áður en geimveran nær að opna bakpokann hafa krakkarnir hins vegar séð hana og viðbrögðin láta ekki á sér standa. „Vó …“ segir drengurinn sem lítur út eins og Sonja. „Ert þú þessi … PóGó?“ spyr hinn krakkinn sem skynjarinn hefur enn ekki náð að kyngreina. Adam tekur að sér að kynna hópinn. Orðin sullast út úr honum á ógnarhraða. Fyrst bendir hann á drenginn í stólnum. „Sko, þetta er Sindri, hann á risasafn af Pokémonspjöldum og tvo upprunalega Alakazam. Ég hef oft beðið hann að bítta en hann vill það ekki.“ Adam snýr sér að rauðhærða krakkanum. „Þetta er Mars en ég veit ekki hvort hán safnar Pokémonspjöldum. Við höfum aldrei rætt það. Hán elskar
35 fótbolta, körfubolta, handbolta og örugglega bara allar boltaíþróttir. Það er sko ekki ein manneskja betri í marki en Mars, að minnsta kosti ekki í þessum skóla. Kannski í einhverju öðru hverfi. En ég veit það ekki því ég hef ekki spilað fótbolta þar.“ „Mars? Eins og plánetan Mars? Það er nú ekki hefðbundið strákanafn,“ segir geimveran ringluð. „Nei, enda er ég ekki strákur,“ svarar Mars og brosir. „Ó, þú ert sem sagt stúlka, ég skil,“ svarar PóGó og kinkar kolli. „Neibb, ekki heldur,“ segir Mars hlæjandi. „Ég er stálp.“ PóGó grípur bæklinginn upp úr bakpokanum og skoðar aftur fyrstu blaðsíðurnar. „Ég finn ekkert um stálp. Það er ekki til.“ „Þú ættir kannski að halda áfram að uppfæra þennan bækling,“ segir Tomasz. „Æ, það er oft bara talað um tvö kyn. Þau eru samt miklu fleiri,“ segir Mars. „Ég er kynsegin. Þótt þú finnir það ekki í bæklingnum þínum þá er það samt til.“
36 „Ah, nú skil ég. Á minni plánetu erum við öll kynlaus nema drottningin. Hér á Jörðinni eru sem sagt ekki bara tvö kyn, heldur mörg!“ Geimveran skrifar niður orðið kynsegin og stutta útskýringu. Svo snýr hún sér að Sindra. „Af hverju eru hjól á stólnum þínum?“ spyr PóGó og krakkarnir hlæja.
37 Á leið sinni til Jarðar lagði PóGó nokkra jarðarbrandara á minnið. Þetta var ekki einn þeirra. Samt hlæja krakkarnir eins og þetta hafi verið svakalega fyndið. „Getið þið vinsamlega hætt að hlæja að mér?“ biður PóGó og setur upp ákveðnasta svipinn sinn. „Hver er tilgangurinn með þessum stólahjólum? Af hverju gengur þú ekki bara um á afturfótunum eins og vinir þínir?“ Sindri hættir að hlæja og útskýrir að hann sé með CP. PóGó teygir sig í gulan miða og skrifar hjá sér helstu atriðin sem Sindri nefnir. Samkvæmt bæklingnum notar manneskja tvo fótleggi til þess að ferðast um. Þar er ekkert að finna um CP eða það sem krakkarnir kalla fatlanir. „CP er hreyfihömlun,“ segir Sindri, greinilega vanur að útskýra fötlunina. Sumir sem eru með CP nota engin hjálpartæki við gang, aðrir þurfa til dæmis spelkur eða hjólastól. Það er mjög misjafnt eftir því hvernig lömun fólk er með.“ PóGó rennir yfir stuttan kafla um sjúkdóma en þar stendur að veikt fólk eigi að vera á spítala. Sindri er ekki á spítala heldur bara í skóla eins og vinir hans. Tomasz er ekki heldur á spítala þrátt fyrir að vera blindur. Hið sama gildir um Sonju, sem heyrir ekki stakt orð sem PóGó segir. Adam er mjög ólíkur dæmigerðum dreng af tegundinni Homo Sapiens. Svo er það Mars, sem er hvorki stelpa né strákur heldur stálp. Það læðist að PóGó
38 sá óþægilegi grunur að kannski sé ekkert til sem heitir dæmigerð manneskja. Það þýðir að þekking Poffara á mannkyni sé byggð á algjörum misskilningi. PóGó veltir fyrir sér hvort hægt sé að útrýma heilli dýrategund án þess að vera 100% viss um að hún þurfi að deyja. Sindri og krakkarnir hafa líka spurningar fyrir PóGó. Þau vilja vita hvort geimverur éti fólk og spyrja hvernig fálmararnir virka. Geimveran er hins vegar sjálf frekar upptekin af því hvað Sonja og Sindri eru lík. „Af hverju eru þið með sama andlit?“ spyr PóGó og bendi á þau til skiptis. Aftur hlæja krakkarnir og geimveran er farin að halda að hlátur sé einhvers konar krakkakækur. Hún er í það minnsta handviss um að hafa ekki sagt brandara í þetta skiptið. „Þau eru tvíburar,“ svarar Mars. Sonja stillir sér brosandi upp við hliðina á Sindra. „Tví-burar?“ spyr ég og leita að þýðingunni í TuNgU. „Meinarðu að þau hafi bæði komist fyrir í legi móður sinnar á sama tíma? Það er aldeilis mögnuð móðir!“ Enn og aftur hlæja krakkarnir. Áður en PóGó fær svar heyrist bjölluhljómur frá skólanum.
39 „Skólinn er að byrja! Við Sonja erum í landafræði í fyrsta tíma,“ segir Adam spenntur. „Vissirðu að einu sinni voru öll löndin tengd saman í eitt risastórt meginland sem hét Pangea?“ Tomasz býður PóGó að koma með í náttúrufræði til þess að læra meira um mannfólkið. Áður en þau koma inn í stofuna dregur geimveran derhúfuna niður að augum. Svo setur hún upp hettuna til þess að vekja ekki athygli hinna krakkanna. PóGó hefur litlar áhyggjur af kennaranum sem er greinilega mjög fullorðinn. Hann virðist reyndar svo rosalega gamall að PóGó efast næstum um að hann lifi kennslustundina af. PóGó sest á auðan stól næst veggnum og felur sig bak við stóra kennslubók sem heitir Maðurinn. Strax á fyrstu blaðsíðu sér PóGó nokkuð sem þarf að bæta í bæklinginn. „Eyrnamergur er fita og vax sem myndast … “ byrjar PóGó að skrifa og hryllir sig. Mannfólk er ansi subbuleg dýrategund. Í bókinni eru upplýsingar um gröft, slím, hor og fleira sem PóGó hafði ekki hugmynd um. Smám saman fyllist borðið af gulum miðum. Í lok tímans treður PóGó þeim ofan í bakpokann og fylgir krökkunum fram. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Sindra gengur í íþróttum, hugsar PóGó og reynir að ímynda sér hvernig hann fari í handahlaup, notandi hjólastól. Það eru mikil læti í íþróttasalnum og kennarinn
40 blæs hátt í smáa flautu. Þetta er ung kona með sítt hár sem bundið hefur verið í ótal litlar fléttur. Fálmararnir skanna konuna og senda frá sér viðvörunarmerki. „VARÚÐ! Við erum ekki örugg hér!“ segir PóGó við krakkana og ýtir þeim aftur fyrir sig. „Ha?“ spyr Tomasz hissa og Sindri og Mars virðast ekkert skilja hvað PóGó á við. „Sjáiði hægri fótlegginn! Íþróttakennarinn er augljóslega vélmenni!“ „Rósa er ekki vélmenni!“ segir Adam en hikar og hnyklar brýnnar. „Eða … ég held allavega ekki að hún sé það.“ Mars springur úr hlátri og dregur upp símann. Hán slær inn orðið stoðtæki og sýnir PóGó ótal myndir. Á einni myndinni má sjá hlaupara með gervifót og gullmedalíu um hálsinn. Önnur mynd sýnir karlmann með gervihandlegg. Hann heldur á ungabarni og gefur því að drekka úr pela. Barnið virðist ekki í uppnámi. Það grætur ekki og sýnir í raun engin merki um ótta. „Geta vélmenni eignast börn?“ spyr PóGó og Mars fórnar höndum. „Maðurinn er ekki VÉLmenni PóGó! Þetta er bara mjög venjulegur maður. Kannski missti hann handlegginn í slysi
41 eða vegna sjúkdóms. Kannski fæddist hann bara svona. Það geta verið alls konar ástæður fyrir því að hann er einhentur.“ „Ég held ég þurfi tvo gula miða fyrir þetta,“ segir PóGó og skrifar niður orðið einhentur. Tíminn hefst og Rósa, íþróttakennarinn, á ekki í neinum vandræðum með að hlaupa fram og til baka. Þegar tímanum lýkur losar hún fótlegginn af sér og þurrkar hnjáliðinn með þvottapoka. Svo smellir hún fætinum aftur á sinn stað og fær sér sopa af vatni. Síðan geimveran lenti á Jörðu fyrir tæpum sólarhring hefur hún séð marga merkilega hluti. Þessi málmfótur er þó líklega það langflottasta. PóGó veltir fyrir sér hvort hægt sé að bæta við sig útlimum. Það kæmi sér stundum vel að hafa fleiri hendur.
42 KATTARÞRÆLAR OG HEIMSMET Í hádeginu fylgir geimveran krökkunum í matsal skólans. Hún býst að sjálfsögðu við fangelsisfæði en sýnist börnin flest ánægð með matinn. „Hvað er þetta?“ spyr PóGó og bendir á diskinn hennar Sonju. „Steiktur fiskur,“ svarar hún. PóGó hermir eftir einföldum handahreyfingunum. Kosturinn við táknmál er að það heyrir enginn í okkur, hugsar PóGó. Það gæti komið sér vel í ýmsum aðstæðum, til dæmis á leynilegum fundum. Sindri segir að með fisknum séu kartöflur og eitthvað sem heitir remúlaði. Geimverunni finnst það fyndið því afi hennar heitir einmitt Remúl og hún kallar hann alltaf Remúlafi. PóGó hefur reyndar ekki hitt afa sinn síðan hann fór í verkefni fyrir 4000 árum síðan. Remúlafi sneri aldrei aftur heim og síðan PóGó brotlenti hefur geimveran innst inni óttast að hljóta sömu örlög. Geimskipið er jú illa leikið og því ekki alveg öruggt að PóGó að komist aftur heim til sín.
43 „Vissirðu að skólinn okkar var byggður árið 1959 og sumir segja að það séu að minnsta kosti fjórir draugar í kjallaranum?“ segir Adam spenntur. PóGó heyrir vel hvað hann segir en hugurinn er þjakaður af áhyggjum. Geimverunni finnst eins og þungur Gúbbelblúbb hangi á bakinu á henni, með sinn langa rana og risastóra rass. Það eru ekki margar dýrategundir eftir á Poff en Gúbbelblúbbar eru í uppáhaldi hjá drottningunni og hafa því verið friðaðir. Hvað ef ég kemst aldrei aftur heim til Poff? hugsar PóGó og byrjar að svitna. Allt í einu finnur geimveran lítinn lófa strjúka á henni loðna kinnina. Smávaxin stelpa hefur prílað upp á bekkinn og tekið báðum höndum um andlit PóGó.
44 Hún hefur fallegan augnsvip og PóGó líður eins og hún sjái einhvern veginn meira eða betur en hin börnin. „Ha-ó,“ segir hún, veifar hendinni og hlær. „Þarna ertu, Þorbjörg!“ segir fullorðin kona og kemur gangandi að borðinu. „Þú mátt ekki stinga mig svona af!“ „Þetta er Kiran,“ segir Sonja með táknmáli. „Þorbjörg er með Downs-heilkenni og hefur Kiran með sér sem NPA stuðning.“ „NPA?“ stafar PóGó með fingrunum. „Notendastýrð persónuleg aðstoð,“ útskýrir Sonja. PóGó pikkar í öxlina á Tomaszi og biður hann að rétta sér miða. Bakpokinn mun fyllast hratt með þessu áframhaldi, hugsar geimveran með sér. Á meðan hún skrifar niður útskýringuna á NPA strýkur litla stelpan á henni feldinn. Ekkert hinna barnanna hefur þorað að koma svona nálægt PóGó. Einlægt fas Þorbjargar hefur undarleg áhrif á hjarta geimverunnar. „Hvað ertu gömul?“ spyr geimveran eins lágt og hún getur. Kiran er sem betur fer djúpt sokkin í lestur á meðan hún borðar hádegismatinn sinn. Hún veitir krökkunum
45 því litla athygli. Hún er greinilega mun yngri en hinir krakkarnir og á líklega að sitja hjá yngsta skólastiginu. Stóru krakkarnir virðast ekkert kippa sér upp við að hún sitji til borðs með þeim. Þorbjörg dregur upp spjaldtölvu og bendir á mynd af tölunni 7. Þetta er sniðug græja með fullt af myndum. Á skjánum eru ýmis tákn. Með því að benda segist Þorbjörg eiga bröndótta kisu sem heitir Granóla. PóGó hefur sem betur fer ekki séð kött á ferli og vonar að það gerist aldrei. Kettir voru fyrstu geimverurnar sem komu til Jarðar til þess að útrýma mannfólki. Eftir stutta dvöl leið köttunum hins vegar svo vel að þeir snarhættu við að kála fólkinu og gerðust gæludýr þeirra í staðinn. Í árþúsundir hafa kettir stjórnað mannfólki, með mali sínu og mjúkum feldi. Fólk fattar ekki einu sinni að það sé kattaþrælar. Mannfólk stjanar við kettina, veitir þeim húsaskjól, gefur þeim að éta og strýkur þeim. Svo kúka kettirnir í sandkassa og fólk mokar upp kúknum með lítilli skóflu og bros á vör. PóGó finnur til með Þorbjörgu að þurfa að þjóna kettinum Granólu en stelpan virðist undarlega ánægð með gæludýrið sitt. Krakkarnir klára að borða hádegismatinn. PóGó hefur enn ekkert borðað í dag og langar reyndar mest af öllu að spara magaplássið fyrir rjómaís eftir skóla. Eftir hádegi munu krakkarnir læra stærðfræði og íslensku. PóGó ákveður að nýta tímann frekar á bókasafninu. Þar kemur PóGó sér fyrir innan um stafla af bókum
46 um mannslíkamann og mannfræði. Gulu miðunum fjölgar á borðinu. Það er svo margt sem PóGó hafði ekki hugmynd um. Mannfólk fær til dæmis eitthvað sem kallast gæsahúð, þrátt fyrir að hafa engin líffræðileg tengsl við fugla. „Hvað ertu að lesa?“ PóGó snýr sér við og sér að þar stendur Sindri. „Sindri!“ segir PóGó hissa. „Þú stendur?“ Hann brosir og færir sig nær borðinu. Þá sést að hann heldur sér uppi á einhvers konar grind, með smáum hjólum. „Já, ég get sko gengið, ef ég er með göngugrindina. Það er frekar þröngt á milli bókahillanna og ég kemst ekki almennilega um á hjólastólnum.“ PóGó horfir í kringum sig og sér að bókasafnið er illa skipulagt. Með því að hækka bókahillurnar upp í loft væri hægt að hafa lengra á milli þeirra. Þá gæti Sindri rúllað sér um án vandræða. Hann virðist þó ráða vel við göngugrindina og röltir hægum en öruggum skrefum að næstu bókahillu. „Sástu þessa?“ spyr hann og dregur fram Heimsmetabók Guinnes.
47 PóGó tekur við bókinni og opnar hana fyrir miðju. Á opnunni má sjá ljósmynd af manneskju sem samkvæmt myndatextanum var 251 sentímetri á hæð. Maðurinn var svo hávaxinn að hann þurfti að beygja sig til þess að standa uppréttur inni í húsinu sínu. Á næstu blaðsíðu er mynd af konu sem er fullorðin en ekki nema ungbarn að stærð. Geimveran flettir áfram en ekkert af því sem hún sér stemmir við gögnin hennar. Í bókinni má sjá manneskjur með ótal málmlokka í andlitinu, húðflúr um allan líkama og mann með mjög teygjanlega húð. Á einni síðunni er kona sem var með svo langar neglur að hún gat ekki lengur skeint sér. Mannfólk er greinilega enn furðulegra en ég hélt, hugsar PóGó og flettir áfram. Eftir nokkrar blaðsíður kemur geimveran að heimsmeti sem vekur áhuga hennar. Árið 2017 borðaði maður að nafni Isaac Harding-Davis 806 grömm af ís á einni mínútu. Fyrir það varð hann heimsmethafi og uppskar frægð og frama. „Ég gæti toppað þetta met,“ segir PóGó við Sindra og sýnir honum myndina. Sindri kinkar kolli. Svo segir hann nokkuð sem PóGó hafði ekki hugsað út í. „Allt sem þú gerir er reyndar heimsmet, því þú ert örugglega fyrsta geimveran til að gera það á plánetunni Jörð.“
48 Ég kinka kolli og ákveð að segja ekkert um kettina við Sindra. Hann heldur áfram að þylja upp heimsmet. „Þú ert til dæmis fyrsti Poffarinn til að borða rjómaís. Svo ertu fyrsta geimveran sem les bók á skólabókasafni … svo við vitum til,“ segir Sindri og yppir öxlum. „Ég var líka fyrsti Poffarinn sem prumpaði í lofthjúpi Jarðar,“ bætir PóGó við. Sindri hlær dátt og PóGó prófar að hreyfa raddböndin til þess að framkalla sama hljóð. Hláturinn líkist lítið mennskum hlátri en tilfinningin sem fylgir er skondin og skemmtileg. „Þú ert pottþétt fyrsti Poffarinn sem eignast vini á Jörðinni,“ segir Sindri og brosir. PóGó sendir honum bros til baka. Heima á PóGó marga vini og veit því vel hvað það er að þykja vænt um aðrar verur. Vissulega mætti kalla krakkana vini mína, hugsar PóGó en man um leið eftir verkefni sínu. Eftir örfáa daga er þetta allt búið. Endalokin nálgast og ég get ekkert gert til þess að stöðva þau. Eða … ég held ekki.
49 ER ÖSKUDAGUR EÐA? Eftir að kennslu lýkur fer PóGó niður í anddyri skólans og finnur þar Tomasz og Mars. Þau sitja á bekk og Mars er niðursokkið í að skissa í stóra svarta bók. Hán teiknar og lýsir myndinni jafnóðum fyrir Tomaszi. „Naruto er með gult hár og blátt hárband með silfruðu merki,“ segir Mars og teiknar fastar ofan í útlínurnar á merkinu. „Finndu hér,“ segir Mars og stýrir hönd Tomaszar að blaðsíðunni. Hann strýkur fingri yfir útlínurnar og brosir. „Töff! Viltu teikna Sakura næst?“ spyr Tomasz og Mars flettir yfir á næstu síðu. PóGó hefur alltaf elskað að teikna en almennt eru Poffarar ekki mikið fyrir myndir. Á Poff þekkist engin list, ekki eins og á plánetunni Jörð. PóGó dáist að því hvernig mannfólk hefur skreytt veggina með alls kyns myndum. Utan um sumar myndirnar hafa verið settar spýtur, eins og til að sýna þeim enn meiri virðingu. Sumar spýturnar eru útskornar og skrautlegar. Kannski get ég einn daginn sett svona spýturamma utan um eina af mínum eigin teikningum, hugsar geimveran og bros
50 breiðist út yfir andlitið á henni. Öll þessi mannabros eru svo smitandi að PóGó stendur sig að því að brosa við minnsta tilefni. „Ísbúðin?“ spyr Sindri sem birtist í anddyrinu ásamt Sonju. Þorbjörg hleypur í humátt á eftir þeim um leið og hún heyrir orðið ís. Kiran eltir hana eins og skuggi. Fálmarar PóGó nema stress- og streituhormón í loftinu. Krakkarnir eru greinilega dálítið taugaóstyrk þegar Kiran er nærri. PóGó segir Sonju með fingrahreyfingum að það sé ekkert að óttast. „Kiran getur ekki séð mig. Við þurfum bara að gæta þess sem við segjum. Það sé til dæmis alveg bannað að spyrja mig spurninga út í plánetuna Poff á meðan Kiran er nálægt okkur.“ Sonja andar léttar og sendir hópnum þumal til merkis um að hafa ekki áhyggjur. Hópurinn heldur af stað í ísbúðina. PóGó heldur pelsinum þétt upp að sér. Í dag er ekki bara rok heldur líka rigning. Því miður er rigningin ekki jafn mjúk og notaleg og vatnið í heita pottinum í gær. Þess í stað lemur regnið PóGó í andlitið, úr öllum áttum. Fálmararnir lyppast niður og pelsinn verður níðþungur af bleytu. Í bæklingnum stóð að regndropar ættu að falla beint til jarðar. Á Íslandi virðast þeir hins vegar fjúka um í allar áttir. Loks nálgast þau ísbúðina og PóGó andar léttar þegar hópurinn kemst í skjól. Í afgreiðslunni er ekki sama
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=