43 Þegar við kvöddum þá stakk Elena laumulega miða í lófa minn. Þar stóð einfaldlega: Adele og svo eitthvert heimilisfang. Mamma og pabbi reyndu að sannfæra mig um að það væri ekki skynsamlegt að taka Adele að okkur. Þau buðu mér að fara heim til Íslands í frí og jafna mig hjá ömmu og afa. Ég neitaði, ég gaf mig ekki. Ég neitaði að mæta í skólann, lokaði mig flesta daga inni í herbergi og spilaði tölvuleiki fram á nótt. Borðaði bara það sem mig langaði í. Oft svaf ég í marga klukkutíma um miðjan dag. Það tók mig heilar tvær vikur að fá þau til að samþykkja að taka Adele að okkur. Ég grét af gleði þegar þau loks sögðu já og mætti daginn eftir aftur í skólann. Við pabbi sóttum hana á hundaheimili fyrir utan borgina. Adele ýlfraði af gleði þegar hún sá mig og ætlaði ekki að hætta að sleikja mig í framan. Á leiðinni heim í bílnum lá hún ofan á mér og sleikti sífellt á mér höndina. – Takk pabbi fyrir að leyfa mér að eiga Adele. Þetta er það besta sem þið mamma hafið nokkurn tímann gert fyrir mig, sagði ég og brosti glaðlega til pabba. Pabbi rétt svo jánkaði og brosti dauflega til okkar í baksýnisspeglinum en þagði svo alla leiðina heim. Það var ólíkt honum. Við vorum varla komin inn úr dyrunum þegar hann hlammaði sér áhyggjufullur á svip niður í sófann, andvarpaði þungt og faldi andlitið í höndum sér.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=