29 6. kafli Á næstu vikum hélt mamma áfram á námskeiðinu og því heimsótti ég Pierre og Adele reglulega. Stundum aðstoðaði ég Pierre við garðvinnuna og hann kenndi mér líka að búa til gómsæta kirsuberjasósu. Við töluðum aldrei aftur um veikindin en ég sá að honum leið ekki alltaf vel. Hvað gerist ef fólk veikist og getur ekki unnið? Hvar fær það hjálp? Stundum svitnaði hann óvenju mikið, stundi, hallaði enninu að skaftinu á skóflunni og gretti sig í framan. Yfirleitt fór hann þá inn í hús með Adele og lagði sig. Á meðan hélt ég oftast áfram að vinna við garðyrkjuna. Mér fannst það skemmtilegra og skemmtilegra. Við plöntuðum hvítlauk og tíndum hausteplin af fallegasta trénu. Elena kom stundum út á svalir þegar sólin skein þótt farið væri að hausta duglega. Þá vinkaði hún brosandi til mín. Ég var farinn að kunna vel við hana. Það var einn óvenju hlýjan dag í október að ég fann þau ekki. Eins og venjulega fór ég beinustu leið bak við hús eftir að ég kvaddi mömmu og skreið í gegnum gatið á girðingunni. En það kom engin Adele flaðrandi upp um mig. Og það hrópaði enginn Pierre, bienvenue mon ami. Bæði skelkaður og óttasleginn leit ég í kringum mig.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=