París

26 – Vinur okkar, svaraði hann. – Mjög góður vinur okkar. Við þrjú erum næstum því fjölskylda. Hjólið varð léttara og léttara með hverjum áfangastaðnum. Á leiðinni heim settist Adele lafmóð í fremri kassann. Þegar leiðin lá niður brekku stökk ég upp í aftari kassann og við brunuðum eftir strætum og götum. Stundum náðum við meiri hraða en bílarnir. Þá skellihlógum við. Pierre var með lítinn ferðahátalara með sér og við sungum hátt og snjallt með söngkonunni Adele. – Við borðum eitthvað gott og girnilegt þar sem ég afhendi síðasta skammtinn, kallaði Pierre upp í vindinn. Það var á litlum og kósí veitingastað sem Pierre sagði mér frá veikindunum. Hann var ekki einungis búinn að missa fótinn heldur hafði hann líka misst annað nýrað í slysinu. – Því miður er hitt nýrað farið að gefa sig. Það eru fá úrræði í boði. Ég veit ekki hvað ég á nákvæmlega langt eftir. Lifrin er heldur ekki upp á sitt besta. – Mér þykir leitt að heyra það, svaraði ég og var næstum farinn að gráta. – Þér finnst kannski undarlegt að ég skuli segja þér þetta. Við höfum ekki þekkst lengi en þú komst eins og ljós inn í líf okkar, sagði Pierre. – Ég hef lifað allskonar lífi og ég hef ekki alltaf verið til fyrirmyndar. Ég er þó góður mannþekkjari og ég vissi frá fyrstu stundu að þú værir vandaður drengur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=