Paris Þórunn Rakel Gylfadóttir Myndhöfundur Brimrún Birta Friðþjófsdóttir
PARIS ISBN: 978-9979-0-3023-2 © 2025 Þórunn Rakel Gylfadóttir © 2025 Myndhöfundur: Brimrún Birta Friðþjófsdóttir Ritstjórn: Erla Guðrún Gísladóttir og Harpa Pálmadóttir Málfarslestur: Ingólfur Steinsson 1. útgáfa 2025 Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Kópavogi Hönnun og umbrot: Miðstöð menntunar og skólaþjónustu París er fyrsta bókin í bókaflokknum Að heiman og heim sem segir frá fólki sem hefur flutt í nýtt land og byrjað nýtt líf. Bækurnar fjalla um hvernig það er að kveðja eitt heimili – og finna annað. Því það er vel hægt að kalla tvo staði heim án þess að gleyma uppruna sínum. Að heiman og heim
Paris
Til pin Hvað myndi gerast ef þú þyrftir að flytja langt í burtu – frá vinum og öllu því sem þú átt að venjast heima fyrir? Í þessari sögu flytur Alexander með fjölskyldu sinni til Parísar. Hann er alls ekki spenntur – og finnst ekkert sérstaklega skemmtilegt að þurfa að læra frönsku eða kynnast nýju fólki. En svo gerist eitthvað sem hann átti alls ekki von á. Hann kynnist undarlegum manni og stórum, loðnum hundi – og það breytir öllu. Þetta er saga um vináttu, breytingar og það að finna von og hlýju þegar maður síst á von á því. Það er í góðu lagi að lesa söguna hægt og melta hana smám saman. Stundum birtast „sultukrukkur“ í sögunni – þær eru ekki með jarðarberjum heldur orðamarmelaði! Þær bjóða þér að hugsa aðeins dýpra. Í baguette-brauðinu leynast spurningar sem eru aðeins ætlaðar þér. Þær hvetja þig til að hugsa, ímynda þér og jafnvel skapa eitthvað nýtt. Af hverju er
3 Reyndu að ímynda þér hvað persónurnar eru að hugsa og upplifa. Þú getur líka spurt þig: Hvað myndi ég gera í svona aðstæðum? Til dæmis: Hvað myndir þú gera ef þú fyndir gervifót fyrir utan lítið hús? Myndir þú treysta manni sem kann bæði að halda bolta á lofti og búa til kirsuberjasultu? Hefurðu einhvern tíma hitt einhvern sem þú tengir strax við, jafnvel þótt þið talið ekki sama tungumál? Aftast í bókinni eru þrautir sem tengjast sögunni. Þar getur þú prófað hvort þú náðir að smyrja heilann vel á meðan þú last. Gangi þér vel og njóttu ævintýrisins!
5 1. kafli Þegar ég var 13 ára flutti ég með foreldrum mínum til Parísar. Mig langaði alls ekki til þess því mér leið mjög vel heima á Íslandi. Þar átti ég líka marga vini sem æfðu með mér bæði fótbolta og golf. Tvö eldri systkini mín fengu að búa ein í raðhúsinu okkar í Hafnarfirðinum. Þau voru bæði í menntaskóla. Reyndar bjuggu afi og amma í sama hverfi og lofuðu að aðstoða þau með því að bjóða þeim oft í mat og svoleiðis. Ég grátbað foreldra mína um að leyfa mér að búa hjá afa og ömmu eða systkinum mínum en þau þverneituðu mér. Ástæðan fyrir flutningunum var sú að pabbi fékk betri vinnu í París. Í raun held ég samt að mamma hafi aðallega ráðið því að við fluttum út. Um leið og hún vissi af þessu nýja atvinnutilboði þrýsti hún mjög mikið á hann að sækja um starfið. Ég heyrði hana segja: – Við höfum öll gott af því að komast í burtu frá þessari litlu eyju og upplifa eitthvað nýtt. Af hverju er Af hverju er gott að upplifa eitthvað nýtt? Þannig að þótt ég óskaði ekki eftir neinum breytingum á mínu lífi þá neyddist ég á endanum til að flytja frá bestu vinum mínum og það alla leið til Frakklands.
6 Fyrstu vikurnar úti leið mér alveg þokkalega því þá var pabbi ekki byrjaður að vinna. Ég held að hann hafi vorkennt mér því hann spilaði stundum við mig tölvuleiki langt fram á kvöld. Ég sá samt alveg að honum fannst það ekki sérlega skemmtilegt. Það fór talsverður tími í að koma okkur fyrir í nýju íbúðinni en við notuðum líka tímann til að skoða okkur um í París. Stundum keyrðum við um nágrenni borgarinnar á bílaleigubíl og nokkrum sinnum tókum við lest eitthvað lengst upp í sveit. – Alexander, finnst þér ekki frábært að við getum loksins verið svona mikið saman, spurði mamma oft. – Jú, sagði ég þótt ég væri alls ekki sammála henni.
7 Ég fékk það ekki af mér að segja henni að mig langaði miklu frekar til að vera með vinum mínum heima á Íslandi. Það góða við þessar ferðir okkar var að ég gat verið í símanum án þess að mamma og pabbi væru að skipta sér af því. Ég horfði á myndbönd, spilaði tölvuleiki og talaði líka mikið við vini mína á netinu. Mamma pressaði samt alveg smá á mig að nota tímann til að læra frönsku á þessum ferðalögum. Mig langaði minna en núll til þess. Þegar ég benti henni á að enginn af vinum mínum þyrfti að læra í sumarfríinu, hætti hún loksins að suða í mér. Eina helgina fórum við alla leið í EuroDisney. Þótt margt væri mjög barnalegt þar þá var alveg gaman í stærstu tækjunum. Pabbi þorði reyndar ekki í þau, sagði að sig svimaði og yrði óglatt af öllum þessum snúningum. Við mamma fórum því ein í tækin á meðan fékk pabbi sér kaffi og hékk í símanum. Af hverju er Hvernig gekk Alexander að taka sín fyrstu skref í nýju landi? Á þessum ferðalögum okkar varð það strax svolítið vesen að foreldrar mínir voru mjög hrifnir af frönskum mat en ekki ég. Mér fannst hann hreinlega skrýtinn á bragðið. Þar sem mamma og pabbi vildu hafa mig ánægðan fórum við oft fyrst á pítsustað eða í bakarí til að kaupa eitthvað fyrir mig að borða og síðan á einhvern fínni
8 veitingastað fyrir þau. Mér fannst reyndar bakaríin æðisleg og verð að viðurkenna að brauðið í Frakklandi er miklu betra en heima. En svo lauk sumarfríinu og lífið varð bæði alvarlegra og leiðinlegra. Pabbi fór að vinna, ég byrjaði í skólanum og mamma skráði sig á jógakennaranámskeið. Það var einmitt vegna námskeiðsins hjá mömmu sem ég kynntist Pierre og Adele en af skiljanlegum ástæðum, þorði ég ekki að segja mömmu og pabba frá þessum nýju vinum mínum.
9 2. kafli Mamma lagði mikla áherslu á að ég lærði frönsku og vildi því ekki senda mig í alþjóðlegan skóla. Fyrstu vikurnar í franska skólanum voru ömurlegar því ég skildi sama og ekkert. Sumir krakkanna töluðu ensku en samt náðum við ekki að tengja. Mér dauðleiddist í frímínútum því enginn spilaði fótbolta og ég hafði engan áhuga á körfubolta og einhverjum leikjum sem ég kunni ekki. Í upphafi skólaársins fylgdi mamma mér alla leið í skólann og sótti mig líka því ég rataði ekki heim. Heima á Íslandi hefði ég ekki þolað það en þarna úti var mér sama, mín vegna máttu allir halda að ég væri mömmu- strákur. Ég hafði hvort sem var ekki áhuga á að kynnast krökkunum. Mamma keypti oft allskonar handa mér á leiðinni heim, eitthvert smádót og líka eitthvað gott að borða eins og kebab og góðar langlokur. Hún reyndi allt sem hún gat til að hafa mig ánægðan og ég vissi að hún fann til með mér. Eiginlega vorkenndi ég henni smá fyrir að vera alltaf að reyna að gera eitthvað sem hafði engin áhrif en málið var að mér fannst svo hræðilega leiðinlegt í skólanum að ég gat ekki einu sinni þóst vera ánægður. Hvað finnst þér erfitt – eða spennandi – við það að læra nýtt tungumál?
10 Næstum því daglega spurði hún mig sömu spurninganna. – Var gaman í skólanum? – Ágætt, svaraði ég en meinti leiðinlegt. – Lærðir þú eitthvað? – Helling, svaraði ég en meinti mjög lítið. – Ertu að tengjast krökkunum? – Já, svaraði ég en meinti nei. Og ég hélt að það myndi aldrei breytast. En svo kynntist ég Pierre og Adele fyrir algjöra tilviljun. Oft fylgdi ég mömmu á jóganámskeiðið strax eftir skóla. Ég hafði ekkert skárra að gera. Stundum hékk ég í símanum í stórum sófa sem var fyrir framan jógasalinn. Oftast var ég þó úti því fyrir aftan jógastúdíóið var frekar stórt plan og við enda þess, mjög hár veggur. Ég tók alltaf fótboltann minn með mér og lék mér að því að sparka í vegginn, halda boltanum á lofti og allskonar þannig. Einn daginn rúllaði boltinn út um lítið gat á járngirðingu sem var til hliðar við þennan nýja leikvöll minn. Ég skreið í gegnum gatið og yfir beð með trjárunnum. Þá var ég kominn inn í undarlegan bakgarð þar sem himinhá tré umkringdu stóra grasflöt. Boltann var hvergi að sjá svo ég skimaði eftir honum í rólegheitunum. Skyndilega heyrði ég eitthvað sagt fyrir aftan mig á frönsku. Ég sneri mér snögglega við og stirðnaði allur upp. Þarna stóð alskeggjaður, einfættur maður og studdi sig við
11
12 eina hækju. Með hinni hendinni hélt hann á boltanum mínum. Hann var rosalega sólbrúnn og með nokkur stór húðflúr á stæltum upphandleggjunum. Fötin sem hann klæddist voru síð og víð. Við hlið hans sat móbrúnn og mjög loðinn hundur sem sperrti eyrun. Hundurinn var greinilega einhvers konar blendingur. Ég vonaði að maðurinn henti til mín boltanum svo ég kæmist sem fyrst út úr þessum óþægilegu aðstæðum. En hann gerði það ekki. Þess í stað henti hann boltanum hátt upp í loft og lét hann skoppa á hné sér, svo á ristinni, svo skallaði hann boltann nokkrum sinnum og sendi hann síðan óvænt yfir til mín. Ég varð svo undrandi að mér tókst varla að grípa boltann. – C’est ton tour, sagði hann og brosti. Ég yppti öxlum. – Your turn, sagði hann með frönskum hreimi. Ég ætlaði að láta mig hverfa en það var eitthvað við bros hans og góðlegt augnaráðið sem fékk mig til að sýna honum hvað ég kynni. Ég lék listir mínar og svo gaf ég boltann yfir til hans og svo hann aftur til mín. Og svona hélt þetta áfram. Ef við misstum boltann hljóp ég á eftir honum og undantekningalaust fylgdi hundurinn með. Hvernig getur þú lært að treysta eigin innsæi í samskiptum?
13 – Elle s’appelle Adéle. Ég yppti aftur öxlum. – Her name is Adele. Ég kinkaði kolli og brosti. Einfaldlega þannig kynntumst við. Í hvert skipti sem ég fylgdi mömmu í jóga fór ég inn í garðinn og lék mér við Pierre og Adele. Smátt og smátt fór mér að líða betur og um leið varð ég jákvæðari fyrir því að læra frönskuna. Pierre var góður kennari, hann talaði skýrt og greinilega. Þegar ég skildi hann ekki þá endurtók hann það sama á ensku og sagði það svo aftur á frönsku. Yfirleitt svaraði ég honum þó á ensku til að byrja með.
14 Þar sem ég vissi að mamma og pabbi yrðu alls ekki hrifin af þessum nýju vinum mínum vogaði ég mér ekki að segja þeim frá Pierre og Adele. Af hverju er Af hverju sagði Alexander mömmu sinni ekki satt?
15 3. kafli Ég komst fljótlega að því að Pierre og Adele bjuggu í pínulitlu timburhúsi undir risastóru tré við enda garðsins. Þegar við vorum að leika okkur rúllaði boltinn nokkrum sinnum lengst inn í garðinn. Það var yfirleitt ég sem náði í boltann og þannig komst ég að því að þar var lítið hús. Rétt innan við dyrnar sá ég líka gervifót. Utan á húsinu hékk fullt af skrýtnum listaverkum úr allskonar rusli og járni. Af hverju er Af hverju urðu Alexander og Pierre vinir? Einn daginn spiluðum við Pierre badminton í garðinum á meðan Adele lá í leti en þá fór allt í einu að rigna alveg rosalega mikið. – Þetta er nú meiri hellidemban! Drífum okkur inn, sagði Pierre, greip báðar hækjurnar og sveiflaði sér fimlega á þeim þvert yfir garðinn. Ég var enn svolítið smeykur við þessa nýju og dularfullu vini mína og þorði því varla að fylgja þeim inn. En þar sem ég var forvitinn og skalf auk þess úr kulda herti ég mig upp og steig inn fyrir þröskuldinn. Það kom mér satt að segja á óvart hversu snyrtilegt þetta agnarlitla heimili
16 var. Í stofunni var svefnsófi og á gólfinu við hlið hans var stór bastkarfa. Þarna var greinilega fletið hennar Adele. Hvað er fleti? Fyrir ofan sófann hékk stórt innrammað plakat af nöfnu hennar, söngkonunni Adele og á því stóð stórum stöfum á ensku. Could’ve had it all. Í horni stofunnar var geisladiskaspilari sem minnti mig á tækið sem amma og afi áttu. Við hlið spilarans var hilla með mjög mörgum geisladiskum. – Adele er algjörlega einstök listakona, sagði Pierre og horfði með aðdáun á plakatið. Hún syngur svo vel um glataða en heita ást. – Ég veit varla hver hún er, svaraði ég. – Þá skulum við hlusta á hana á meðan við fáum okkur heitt kakó og smá snarl, sagði Pierre og setti geisladisk í tækið. Ég varð að viðurkenna að konan söng mjög fallega en mér fannst Pierre stilla tónlistina óþarflega hátt. Hann raulaði með og kunni greinilega textana utan að. Adele fékk líka heitt kakó í hundaskálina sína. Í litla en notalega eldhúskróknum borðuðum við Pierre hvítt
17 brauð með smjöri, osti og jarðarberjasultu. Betri sultu hafði ég ekki smakkað á ævi minni. Í eldhúsinu voru langflestar hillur stútfullar af sultukrukkum með mismunandi merkimiðum. Í efstu hillunni stóðu margar flöskur þétt saman. Jus de pomme stóð á mörgum þeirra og ég vissi að það þýddi eplasafi.
18 Þótt enn væri dagur kveikti Pierre á kerti, sótti ullarteppi og breiddi það yfir axlirnar á mér. Svo stakk hann tveimur rafmagnsofnum í samband. Rigningin buldi á þakinu. Mér leið vel en samt fannst mér ég vera þarna í einhvers konar leyfisleysi. Hvað myndu foreldrar mínir segja ef þau vissu hvar ég væri niðurkominn? Mig langaði að vita meira um Pierre en samt ekki. Ég fann fyrir ótta. Hvað ef ég kæmist að einhverju sem gerði mig svo hræddan að ég vildi ekki hitta Pierre og Adele aftur? Ég var feginn að Pierre spurði mig aldrei um neitt. Mamma og pabbi voru sífellt að spyrja mig um eitthvað sem þau vissu oftast svörin við. Það gat verið rosalega þreytandi. Skyndileg hætti að rigna og sólin braust fram á ný. Ég stóð á fætur og gerði mig líklegan til að fara. Á leiðinni út freistaðist ég samt til að virða betur fyrir mér allar sultukrukkurnar. Af hverju átti Pierre eiginlega svona mikið magn af sultu? Sposkur á svip horfði Pierre á mig. – Komdu út, ég skal sýna þér svolítið sem þér finnst kannski áhugavert, sagði hann.
19 4. kafli Bak við hús Pierre og Adele var lítill skúr sem ég hafði ekki séð áður. Þar inni var enn meira magn af krukkum og flöskum. En þar var líka hjólið hans Pierre. Það hafði augljóslega verið sérsmíðað fyrir fatlað fólk. Á því voru pedalar fyrir bæði hendur og fætur. Vinstra megin, svolítið neðan við sætið var lítill pallur sem var sérhannaður fyrir það sem eftir var af fæti Pierre. En ekki nóg með það heldur var stór viðarkassi aftan á hjólinu og annar minni framan við það. Þetta farartæki var með því undarlegasta sem ég hafði séð. – Komdu, ég ætla líka að sýna þér svolítið annað, sagði Pierre glaður á svip. Ég elti hann eftir slóð á flötinni sem leiddi að rauðu viðarhliði. Innan við það var enn stærri garður, alveg gríðarlega fallegur með fjölbreyttum gróðri. Hér var auðsjáanlega verið að rækta eitthvað á mjög skipulagðan hátt. – Hér sérðu starfið mitt, sagði Pierre stoltur og Adele dillaði skottinu. – Og sérðu húsið þarna? Ef þú lítur upp á svalirnar kemurðu kannski auga á konu. Það má segja að hún sé atvinnurekandi minn. Pierre benti á ótrúlega fallegt hús á fjórum hæðum.
20 Jú, þarna var kona. Gráhærð og stíf á svip sat hún í hjólastól og teygði andlitið á móti sólinni. Ofan við mitti var hún aðeins í brjóstahaldara. Mér þótti það örlítið sérkennilegt því aðeins nokkrum mínútum áður hafði rignt hressilega. – Hún er mikill sólardýrkandi, sagði Pierre eins og hann hefði lesið hugsanir mínar. – Því miður eru svalirnar of þröngar til að hún geti snúið sér við í hjólastólnum og þess vegna er húð hennar algjörlega hvít á bakhliðinni. Hvernig er aðgengi fyrir fatlaða í þínum skóla? – Ég skil, svaraði ég og leið eitthvað furðulega. – Hún er ekki allra. – Hvað meinarðu? spurði ég. – Það líkar ekki öllum vel við hana og þar af leiðandi umgengst hún ekki margt fólk. Eiginlega bara mig og þá fáu sem aðstoða hana við daglegt líf. – Býr hún ein í þessu stóra húsi? – Já, hún missti eiginmann sinn og tvö börn í slysi. Elena var sú eina sem lifði það slys af. Það er mikil sorgarsaga. – Hvernig kynntust þið? – Á endurhæfingarstofnun. Þangað förum við árlega í nokkrar vikur í senn. Ég lenti í alvarlegu bifhjólaslysi
21
22 þegar ég var ungur og vitlaus. Þrátt fyrir að við Elena séum mjög ólík urðum við góðir vinir. Við áttum það líka sameiginlegt að hafa misst ástvini okkar af slysförum. Við stóðum bæði á erfiðum tímamótum þegar við kynntumst. Dæmir fólk stundum aðra eftir útliti og fjárhagsstöðu? – Svona eins og við tveir, sagði ég hugsi og starði áfram á konuna. – Það má segja það. – Fluttir þú strax til hennar? – Mjög fljótlega. Við gerðum með okkur samning. Ég fékk að gera upp garðhúsið og búa þar með því skilyrði að sjá um garðinn hennar. Hún er grænmetisæta og flest af því sem hún borðar rækta ég. Nema auðvitað um háveturinn. – Borðið þið allar sulturnar ein? – Nei, guð minn góður! Hún gaf mér leyfi til að búa til afurðir úr öllu því sem hún ekki nýtir. Ég sel þær og á þeim tekjum lifi ég, ásamt þeim litlu bótum sem ég fæ frá ríkinu. – Hvar selur þú safann og sulturnar?
23 – Ég keyri þær út á mismunandi staði snemma á laugardagsmorgnum. Viltu koma með næsta laugardag? Ég hugsaði mig um. Annan hvern laugardag mætti mamma á námskeiðið klukkan sjö. Ég gæti eflaust fundið ástæðu til fara með henni. – Já, takk, svaraði ég.
24 5. kafli – Ha, ætlarðu að vakna klukkan sex til að koma með mér í jógað á laugardaginn? – Já, mér finnst svo gott að einbeita mér að lærdómnum í sófanum í forstofunni, æfa mig í fótbolta í garðinum og ganga um hverfið, svaraði ég mömmu. – Ég held að sonur okkar sé að verða of háður mér, heyrði ég mömmu segja við pabba þegar hún hélt að ég heyrði ekki til. – Hann virðist engin tengsl mynda í skólanum. Ég hef áhyggjur af honum. – Gefum honum svigrúm, þetta hlýtur að lagast með tímanum, svaraði pabbi. Pierre beið með hjólið hlaðið af krukkum og flöskum í garðinum. Adele réð sér varla fyrir kæti og flaðraði upp um mig um leið og hún sá mig. Hvernig er vinátta á milli dýra og manna, er hún frábrugðin annarri vináttu? – Getur þú hlaupið með Adele í taumnum við hlið mér? Við förum afar rólega af stað. Ég hef sjaldan troðið jafn miklu á hjólið. Það kom nefnilega stór pöntun af eplasafa í fyrradag.
25 Við fórum á marga markaði þar sem Pierre afhenti vörurnar og fékk strax greiðslu í staðinn. Hann var vinsæll og vel liðinn. Allsstaðar þar sem við komum fagnaði fólk honum brosandi og klappaði Adele. Tveir kaupmenn gáfu Pierre fullan poka af kjöti handa Adele. Mér fannst gott að komast að því að fólk treysti Pierre vel. Af hverju er Af hverju finnst Alexander gott að fólk treysti Pierre vel? Á ávaxta- og grænmetismarkaðnum þreyttist Pierre ekki á að segja mér hvað allt héti á frönsku. Hann lét mig endurtaka orðin þar til ég bar þau rétt fram. Og eins og venjulega þá útskýrði hann á ensku ef ég skildi ekki eitthvað á frönsku. Oftar og oftar svaraði ég honum á frönsku. Pierre virtist þekkja alla. Sumir gáfu okkur ávexti og grænmeti. Fólk spurði hver ég væri.
26 – Vinur okkar, svaraði hann. – Mjög góður vinur okkar. Við þrjú erum næstum því fjölskylda. Hjólið varð léttara og léttara með hverjum áfangastaðnum. Á leiðinni heim settist Adele lafmóð í fremri kassann. Þegar leiðin lá niður brekku stökk ég upp í aftari kassann og við brunuðum eftir strætum og götum. Stundum náðum við meiri hraða en bílarnir. Þá skellihlógum við. Pierre var með lítinn ferðahátalara með sér og við sungum hátt og snjallt með söngkonunni Adele. – Við borðum eitthvað gott og girnilegt þar sem ég afhendi síðasta skammtinn, kallaði Pierre upp í vindinn. Það var á litlum og kósí veitingastað sem Pierre sagði mér frá veikindunum. Hann var ekki einungis búinn að missa fótinn heldur hafði hann líka misst annað nýrað í slysinu. – Því miður er hitt nýrað farið að gefa sig. Það eru fá úrræði í boði. Ég veit ekki hvað ég á nákvæmlega langt eftir. Lifrin er heldur ekki upp á sitt besta. – Mér þykir leitt að heyra það, svaraði ég og var næstum farinn að gráta. – Þér finnst kannski undarlegt að ég skuli segja þér þetta. Við höfum ekki þekkst lengi en þú komst eins og ljós inn í líf okkar, sagði Pierre. – Ég hef lifað allskonar lífi og ég hef ekki alltaf verið til fyrirmyndar. Ég er þó góður mannþekkjari og ég vissi frá fyrstu stundu að þú værir vandaður drengur.
27 – Takk, sagði ég lágt og fann kökkinn þrýstast upp hálsinn á mér. – Þess vegna langar mig til að biðja þig um mikilvægan greiða. Þeim greiða fylgir mikil ábyrgð. – Er það Adele? – Já. – Hvað með garðinn? Og Elenu? Hvað skiptir þig mestu máli í vináttu? – Ég er búinn að biðja góðan vin minn um að taka við húsinu og starfinu. – Ég skil. Við þögðum í dágóða stund.
28 – En heyrðu karlinn minn, sagði Pierre og sló á öxlina á mér. – Þú þarft ekki að svara mér hér og nú. Ég er ekki dauður enn. Eigum við ekki skilið einn stóran ís? Á leiðinni heim, sungum við ennþá hærra en áður.
29 6. kafli Á næstu vikum hélt mamma áfram á námskeiðinu og því heimsótti ég Pierre og Adele reglulega. Stundum aðstoðaði ég Pierre við garðvinnuna og hann kenndi mér líka að búa til gómsæta kirsuberjasósu. Við töluðum aldrei aftur um veikindin en ég sá vel að honum leið ekki alltaf vel. Hvað gerist ef fólk veikist og getur ekki unnið? Hvar fær það hjálp? Stundum svitnaði hann óvenju mikið, stundi, hallaði enninu að skaftinu á skóflunni og gretti sig í framan. Yfirleitt fór hann þá inn í hús með Adele og lagði sig. Á meðan hélt ég oftast áfram að vinna við garðyrkjuna. Mér fannst það skemmtilegra og skemmtilegra. Við plöntuðum hvítlauk og tíndum hausteplin af fallegasta trénu. Elena kom stundum út á svalir þegar sólin skein þótt farið væri að hausta duglega. Þá vinkaði hún brosandi til mín. Ég var farinn að kunna vel við hana. Það var einn óvenju hlýjan dag í október að ég fann þau ekki. Eins og venjulega fór ég beinustu leið bak við hús eftir að ég kvaddi mömmu og skreið í gegnum gatið á girðingunni. En það kom engin Adele flaðrandi upp um mig. Og það hrópaði enginn Pierre, bienvenue mon ami. Bæði skelkaður og óttasleginn leit ég í kringum mig.
30 Ég læddist hægt og gætilega að litla húsinu. Dyrnar voru ólæstar. Þegar ég ýtti laust á hurðina urgaði í henni á meðan hún opnaðist draugalega hægt. Ég hvíslaði titrandi röddu: Pierre, Pierre og svo aðeins hærra Adele. Því miður fékk ég engin svör. Inni í húsinu var enga vísbendingu að sjá um hvar þau væri að finna. Taumurinn hennar Adele hékk þar reyndar á snaga. Derhúfan hans Pierre lá í sófanum. Líklega höfðu þau þurft að flýta sér eitthvert. Ég hugleiddi að banka upp á hjá Elenu en ég kunni ekki við það. Eða kannski gerði ég það ekki af því ég óttaðist sannleikann. Þegar ég kom heim spurðu mamma og pabbi hvort eitthvað væri að. Ég sagðist vera þreyttur og bað þau um að láta mig í friði. Næst þegar ég fylgdi mömmu á jóganámskeiðið fann ég þau heldur ekki. En ég tók eftir einu merkilegu, derhúfan hans Pierre var horfin en taumurinn hennar Adele var enn á sínum stað. Um kvöldið átti ég mjög erfitt með að sofna. Óttinn sótti frekjulega að mér. Ég reyndi eins og ég gat að halda í vonina. Ef það var Adele sem tók derhúfuna hans Pierre þá var kannski í lagi með þau bæði. Af hverju er Hvernig leið Alexander þegar hann fann ekki Pierre og Adele?
31
32 Í næsta skipti þóttist ég vera mjög svangur á leiðinni í jógað og bað mömmu um að kaupa handa mér kebab. Ég vafði kjötinu inn í servíettu og stakk því í vasa minn og síðan setti ég það á disk fyrir utan húsið þeirra. Næst þegar ég kom í garðinn var kjötið horfið þótt vini mína væri hvergi að sjá. Nú vissi ég allavega að Adele
33 væri á lífi og sennilegast var að hún gengi um ein og frjáls því taumurinn hékk enn við dyrnar. En hvar var Pierre? Ég yrði að finna hann. Það þýddi aðeins eitt. Ég yrði að dvelja í garðinum í langan tíma til að auka líkurnar á því að hitta Adele. Kvöldið fyrir stóra daginn, daginn sem ég komst að sannleikanum, reyndi ég að bera mig vel heima. Ég sagði mömmu og pabba að besti vinur minn hefði boðið mér heim til sín eftir skóla svo líklega kæmi ég seint heim. Þau spurðu hvað hann héti og hvar hann ætti heima og ég var tilbúinn með sannfærandi svör. Ættu foreldrar að vita allt sem gerist í lífi barna sinna? – Af hverju hefur þú ekki sagt okkur frá honum fyrr? – Bara, ég meina þið eruð ekkert að segja mér mikið frá vinum ykkar. Þau trúðu mér og kinkuðu brosandi kolli þannig að ég fékk smá samviskubit yfir að ljúga að þeim. Sérstaklega þegar ég heyrði hvað mamma sagði við pabba þegar þau fóru að sofa. – Mikið er ég þakklát fyrir það að drengurinn sé loksins að eignast vini og finna sig í skólanum. Næsti dagur var engum öðrum líkur og ég er viss um að aldrei á ævinni muni ég gleyma því sem gerðist þá.
34 7. kafli Ég mætti í skólann og fór út með öllum hinum í fyrstu frímínúturnar. Síðan lét ég mig einfaldlega hverfa. Hvað hefðir þú gert í sporum Alexanders? Það var ekkert mál fyrir mig að rata að jógastúdíóinu. Fyrst leitaði ég að Pierre og Adele í nágrenninu en án árangurs. Mjög vonsvikinn settist ég niður framan við húsið þeirra og greip með báðum höndum um höfuðið. Einmitt þá heyrði ég gelt. Vongóður leit ég upp. Þarna var þá Adele. Mjög horuð skokkaði hún þreytulega til mín og sleikti mig allan í framan. Þegar ég horfði í augu hennar sá ég mikla sorg. Ég fékk sting í hjartað og lagðist niður við hlið hennar og strauk henni blíðlega. Fljótlega stóð hún á lappir og fór að ýlfra. Ég gerði mitt besta til að róa hana en þá beit hún laust í peysuna mína og reyndi að toga mig á fætur. Ég sótti tauminn hennar og krækti honum í hálsbandið og við lögðum af stað út í óvissuna. Fyrst gengum við eftir götum og strætum sem ég þekkti ágætlega. Eftir því sem við gengum lengra því æstari varð Adele og að lokum fór hún að hlaupa. Ég hljóp og hljóp við hlið hennar. Síminn hringdi. Þá bað ég hana um að stoppa en hún gegndi mér ekki. Með lafandi tungu
35 togaði hún mig viðstöðulaust í gegnum hverfi sem voru mér gjörsamlega ókunnug. Trúlega voru mamma og pabbi að reyna að ná í mig. Sennilega hafði skólinn látið þau vita að þar væri mig hvergi að finna. Kannski hafði kennarinn minn sagt við þau: Sonur ykkar hvarf einfaldlega í frímínútum. Við höfum ekki hugmynd um hvar hann er. Kannski var meira að segja komin frétt um hvarf mitt í fjölmiðla: Umfangsmikil leit er hafin að ungum íslenskum dreng sem nýfluttur er til landsins. Síðast sást til hans á skólalóð grunnskóla í hverfinu Tournelle.
36 Drengurinn er skolhærður og bláeygður, klæddur í bláar buxur, gráa peysu og íþróttaskó. Nú var ég orðinn virkilega stressaður. Hjartað barðist um í brjósti mér og ég var kominn með blóðbragð í munninn. Loksins stoppaði Adele fyrir framan stóra byggingu þar sem á stóð Hôpital. Adele byrjaði að gelta hvellt. Af hverju er Lýstu líðan Alexanders í stuttu máli daginn sem hann fór með Adele á spítalann. Ég reyndi að þagga niður í henni til að fólk færi ekki að veita okkur eftirtekt. Adele hélt áfram að gelta, fólk horfði undrandi á okkur. Ég leit á símann. Tíu ósvaraðar hringingar frá mömmu og pabba og líka úr númerum sem ég þekkti ekki. Hvernig í ósköpunum gat ég bjargað mér út úr þessum vandræðum? Ég átti engin ráð. Ég settist niður á tröppurnar við inngang spítalans. Adele var mjög óróleg og sperrti eyrun í hvert sinn sem dyrnar opnuðust. Eftir stutta stund togaði hún mig á fætur og reyndi að draga mig upp tröppurnar. Ég streittist á móti. Adele horfði biðjandi á mig. Ég hristi höfuðið. Þá kippti hún skyndilega í tauminn og stefndi niður tröppurnar. Ég elti hana að litlu skoti sem var undir spítalatröppunum. Skotið var dimmt, þröngt og rakt. Mér leið illa þarna niðri og togaði Adele aftur út. Ég óskaði þess afar heitt að
37 vera kominn heim til mömmu og pabba og andaði léttar þegar við gengum aftur upp kjallaratröppurnar. En þá tók ég líka eftir derhúfunni hans Pierre í kjaftinum á Adele.
38 8. kafli Skrefin upp að aðalinngangi spítalans voru þung. Ég þrýsti á bjölluhnapp á veggnum við aðalinnganginn. Með hinni hendinni hélt ég um tauminn. Adele dillaði rófunni við hlið mér. Stór viðarhurð opnaðist upp á gátt inn í rúmgóða forstofu. Mér brá þegar ég sá þar vopnaðan vörð. – Að hverju ertu að leita vinur? spurði hann. – Mon ami, sagði ég hikandi og rétti fram húfuna. Vörðurinn horfði rannsakandi á mig. – Þú mátt ekki fara inn með hundinn en ég skal passa hann á meðan þú leitar að vini þínum, svaraði hann. – Alls ekki sleppa honum lausum, bað ég. – Ég mun ekki svíkja ykkur félagana. Mig grunar að þessi hundur hafi leitað að þér í nokkra daga. Treystu mér. Titrandi gekk ég að stóru afgreiðsluborði. – Hvert er eftirnafn vinar þíns? spurði ungur maður. – Ég veit það ekki. – Ertu fjölskyldumeðlimur? – Ég er góður vinur hans. Mjög góður. – Ertu með skilríki? spurði ungi maðurinn alvarlega.
39 – Nei, sagði ég og fann að röddin var að bresta. – Þá er mér ekki heimilt að veita þér upplýsingar. Þá gat ég ekki meira. Þvílík vonbrigði. Ég lét mig falla á gólfið og hágrét. Það næsta sem ég vissi var að einhver reisti mig upp og lyfti mér í fang sér. Þetta var vörðurinn. Ég heyrði hann tala reiðilega við unga manninn. – Sérðu ekki að þetta er bara barn! – Hvar er hundurinn? spurði ég. – Hvar er Adele? – Hafðu ekki áhyggjur, hann er í öruggum höndum, svaraði vörðurinn.
40 Maðurinn bar mig inn í eitthvert herbergi og lagði mig niður í mjúkan stól. Ég hnipraði mig saman í keng og starði niður á marglitar gólfflísar. Tárin streymdu niður vangana. Tíminn silaðist áfram. Fleira fólk kom inn í herbergið. Það talaði ákaflega hátt og hratt, ég skildi varla orð af því sem þau sögðu. Síminn hringdi og hringdi. Ég gat ómögulega svarað. Af hverju er Af hverju svaraði Alexander ekki símanum? Ég rétti einhverjum símann. Mér var undarlega sama um allt og alla. Nema Pierre og Adele. Einhver lagði hönd á öxl mér. Ég leit upp. – Ert þú Alexander? spurði kona í hvítum sloppi. Hún talaði blíðlega. – Já. – Varst þú vinur Pierre Durand? – Ég er vinur hans, sagði ég allt of hátt og skerandi og reyndi að halda aftur af tárunum. Konan tók um hönd mína. – Því miður þá dó vinur þinn aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann lagðist hér inn. Hann sagði okkur frá þér en við vissum ekki hvernig við gætum náð í þig. Pierre bað mig um að skila því til þín að honum þætti
41 afskaplega vænt um þig. Að þú hefðir alltaf minnt hann á son hans sem dó ungur. Ég gat ekki hreyft mig, fætur mínir voru gjörsamlega máttlausir. – Hvar er hundurinn? Hvar er Adele? var það eina sem ég gat stunið upp úr mér á milli ekkasoga. – Hann er í góðum höndum. Hafði ekki áhyggjur af honum. Reyndu að hvílast. Mamma og pabbi komu skömmu síðar og fóru með mig heim. Ég lagðist örþreyttur beint upp í rúm og þau settust áhyggjufull á rúmstokkinn hjá mér. Ég sagði þeim alla söguna. Það tók þau langan tíma að meðtaka hana. Hvað einkennir að þínu mati gott samband milli unglinga og foreldra? – Já, en ég skil ekki, já en ég skil ekki … , af hverju í ósköpunum sagðir þú okkur ekki frá þessu fyrr, sögðu þau aftur og aftur. – Sumt er ekki hægt að útskýra fyrir foreldrum sínum, svaraði ég. Nokkrum dögum síðar fórum við öll með blóm til Elenu. Það var greinilegt að hún var mjög sorgmædd. – Pierre hneig niður þegar hann var að vinna í garðinum, það var ég sem pantaði sjúkrabílinn, sagði hún.
42 – Ég hefði viljað láta þig vita en ég vissi ekki hvernig ég gat náð í þig. – Ekkert mál, svaraði ég. – Adele hljóp á eftir sjúkrabílnum, sennilega alla leiðina að spítalanum, bætti hún við titrandi röddu.
43 Þegar við kvöddum þá stakk Elena laumulega miða í lófa minn. Þar stóð einfaldlega: Adele og svo eitthvert heimilisfang. Mamma og pabbi reyndu að sannfæra mig um að það væri ekki skynsamlegt að taka Adele að okkur. Þau buðu mér að fara heim til Íslands í frí og jafna mig hjá ömmu og afa. Ég neitaði, ég gaf mig ekki. Ég neitaði að mæta í skólann, lokaði mig flesta daga inni í herbergi og spilaði tölvuleiki fram á nótt. Borðaði bara það sem mig langaði í. Oft svaf ég í marga klukkutíma um miðjan dag. Það tók mig heilar tvær vikur að fá þau til að samþykkja að taka Adele að okkur. Ég grét af gleði þegar þau loks sögðu já og mætti daginn eftir aftur í skólann. Við pabbi sóttum hana á hundaheimili fyrir utan borgina. Adele ýlfraði af gleði þegar hún sá mig og ætlaði ekki að hætta að sleikja mig í framan. Á leiðinni heim í bílnum lá hún ofan á mér og sleikti sífellt á mér höndina. – Takk pabbi fyrir að leyfa mér að eiga Adele. Þetta er það besta sem þið mamma hafið nokkurn tímann gert fyrir mig, sagði ég og brosti glaðlega til pabba. Pabbi rétt svo jánkaði og brosti dauflega til okkar í baksýnisspeglinum en þagði svo alla leiðina heim. Það var ólíkt honum. Við vorum varla komin inn úr dyrunum þegar hann hlammaði sér áhyggjufullur á svip niður í sófann, andvarpaði þungt og faldi andlitið í höndum sér.
44 Mamma settist hjá honum. – Er eitthvað að? Ég hélt niðri í mér andanum og horfði til skiptis á mömmu og pabba. – Það hefði sannarlega verið skynsamlegt að athuga málið betur áður en við gáfum samþykki okkar fyrir þessu. – Hvað áttu við? – Tíkin er greinilega hvolpafull.
45 pRAUTIR Hér eru tillögur að fjölbreyttum verkefnum sem þú getur unnið eftir að hafa lesið bókina París. Verkefnin má vinna í stílabók eða tölvu. Markmiðið er að efla lesskilning, tjáningu, orðaforða og dýpri tengingu við efni sögunnar. Samheiti Skrifaðu upp orðin og settu rétt samheiti við: ORÐ SAMHEITI 1. skrýtinn A. byrjun 2. sérlega B. þónokkur 3. aðallega C. furðulegur 4. upphaf D. mest 5. talsverður E. mjög 6. undrandi F. af og til 7. stundum G. hissa Skrifaðu setningu í stílabók með hvoru orðanna í samheitaparinu. Dæmi: – Orð: sérlega og mjög – Setning: Veðrið var sérlega gott og úti var mjög notalegt.
46 Lýsingarorð Skrifaðu niður eins mörg lýsingarorð og þér dettur í hug sem geta lýst persónum sögunnar – Pierre, Alexander, mömmunni, pabbanum og hundinum Adele. Hugsaðu um hvernig orðin láta þig líða um persónuna – lýsa þau góðum eiginleikum, slæmum eða bara hlutlausum staðreyndum? Flokkaðu orðin sem: jákvæð neikvæð hlutlaus Dæmi: Lýsingarorð Nafn Tegund Ástæða góður Pierre jákvæð því hann var góður kennari og hjálpaði öðrum
47 Bókmenntagreining – Hvað finnst þér? Þú getur valið að vinna skriflega, myndrænt eða munnlega. Veldu það sem hentar þér best! 1. Hver er boðskapur sögunnar? Er einhver ádeila (t.d. á samfélagið, skólann, foreldra eða samskipti fólks)? Útskýrðu með dæmi úr sögunni. 2. Tímalína sögunnar Teiknaðu tímalínu með helstu atburðum í réttri röð. Þú getur notað örvar, tákn, lit eða myndir. 3. Hvenær gerist sagan? Hvaða árstíð, tímaskeið eða sögulegur tími er þetta? (Ytri tími) 4. Hversu langur tími líður í sögunni? Gerist hún á einum degi? Nokkrum vikum? Mörgum árum? (Innri tími) 5. Hverjir eru aðalpersónurnar? Hver eða hverjir eru í aðalhlutverki? Hvað einkennir þau? 6. Sjónarhorn – hver segir söguna? Er hún sögð í fyrstu persónu (ég) eða þriðju persónu (hann/hún)? Hvernig hefur það áhrif á það hvernig þú upplifir söguna?
48 Ritun Hugsaðu þér hvað gæti gerst eftir að sagan endar – og búðu til þitt eigið framhald! Veldu hvernig þú segir frá: • Skrifaðu framhaldið í dagbókarformi – eins og Alexander sé að skrifa sjálfur. • Gerðu myndasögu með texta. • Skrifaðu beint framhald – eins og það væri kafli 9 í bókinni. • Búðu til fréttagrein um það sem gerist næst – eins og frétt úr bæjarblaði! Láttu hugmyndaflugið ráða. Gangi þér vel. Orðaleit Reyndu að finna sem flest orð úr stöfunum í orðinu: AÐSTÆÐUR Dæmi: ær, tuða Skrifaðu niður öll orðin sem þér detta í hug. Hvað eru þau mörg?
Alexander er 13 ára þegar hann flytur með fjölskyldunni til Parísar. Hann saknar vina sinna, fótboltans og notalegra daga með ömmu og afa. Allt er framandi – borgin, skólinn og tungumálið – og Alexander á erfitt með að aðlagast nýja lífinu. En svo kynnist hann Pierre – hlýlegum manni sem hefur gengið í gegnum margt – og Adele, stórum og loðnum hundi sem fylgir honum hvert fótmál. Þrátt fyrir að þau séu ólík myndast óvænt og dýrmæt vinátta á milli þeirra. Stundum tekur lífið óvænta stefnu – og þá skiptir máli að eiga vin sem stendur með manni. Höfundur sögunnar er Þórunn Rakel Gylfadóttir og myndhöfundur Brimrún Birta Friðþjófsdóttir 40775 Paris Að heiman og heim
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=