Handbók um velferð og öryggi í leikskólum

| 40345 | MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 8 | Í barnaverndarlögum, nr. 80/2002 stendur að hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að gera barnaverndarþjónustu viðvart samkvæmt 17. gr. Barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, þroskaþjálfum og öllum öðrum sem koma að málefnum barna í skólasamfélaginu skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna og gera barnaverndarþjónustu viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu óviðunandi. Tilkynningarskylda samkvæmt barnaverndarlögum gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. Á vef Barna- og fjölskyldustofu má finna verklagsreglur og vinnulag, þar með taldar verklagsreglur skóla- og heilbrigðisstarfsfólks. Heilsuefling og forvarnir í leikskólum Í stuttu máli má segja að með forvörnum séum við að vinna að því að koma í veg fyrir að eitthvað gerist, til dæmis að barn verði fyrir slysi eða ofbeldi. Með heilsueflingu erum við að vinna að ákveðnu markmiði, það getur til dæmis verið að borða hollan mat til þess að líða vel og braggast. Hins vegar er þetta ekki klippt og skorið, og þannig er til dæmis heilsueflingarvinna sem felst í að kenna félags- og tilfinningafærni sem forvörn gegn ofbeldi. Þá er hreyfing í sjálfu sér heilsueflandi en getur líka verið forvörn gegn ýmsum líkamlegum og andlegum einkennum. Þess vegna er mikilvægt að vinna með markvissum hætti að heilsueflingu og forvörnum á heildrænan hátt.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=