Handbók um velferð og öryggi í leikskólum

| 40345 | MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 32 | Ljósastaurar, girðingar og hlið úr járni Ef girðingarstaurar, ljósastaurar og hlið eru úr járni, t.d. galvaníseruð, þarf að mála þau upp í 1,5 metra hæð því annars er hætta á að börn geti fest við þau tungu eða fingur í frosti. Ef leiktækið er vottað samkvæmt gildandi staðli EN 1176 þarf ekki að mála járnhluta þess. Ruslaskýli, tunnur og gámar Ruslaskýli, tunnur og gámar skulu ekki vera staðsett upp við leikskólabyggingar, því mikil hætta er á bruna í leikskólabyggingum ef kveikt er í rusli í tunnum og gámum. Því skulu ruslaskýli, tunnur og gámar vera staðsett talsvert frá byggingunni samkvæmt mati eldvarnaeftirlits. Þetta dregur einnig úr fallhættu, en börn nota þetta sem tröppur til að komast upp á byggingar. Hjólastandar Hjólastandar þurfa að vera staðsettir þar sem ekki er hætta á að fólk falli um þá, helst nokkrum metrum frá inngangi. Mikilvægt er að merkja svæðið í kringum þá þannig að sjóndaprir einstaklingar sjái þá. Öruggast er að hjólastandar séu festir við vegg eða notaðir séu sérstakir standar sem eru yfirleitt stærri og fyrirferðarmeiri. Umferð og bílastæði við skólalóð Þegar barn byrjar í leikskóla þarf að kynna foreldrum/forráðamönnum barnsins aðkomu umferðar að leikskólanum. Slíkt felur í sér forvarnir og dregur úr líkum á að hætta skapist vegna umferðar á álagstímum. Einnig þarf að kynna fyrir foreldrum, bæði þegar börn byrja í skólanum og reglulega eftir það, leiðbeiningar um umferð á lóðinni; að þeir fari hægt, séu ekki í símanum og séu með fulla athygli við aksturinn í kringum leikskólann. Börnin sjást oft illa því þau eru lítil og eru óútreiknanleg í umferðinni því þau eru enn að læra. Mikilvægt er að allir sem erindi eiga í leikskóla komist þangað á öruggan hátt gangandi, hjólandi og/eða akandi. Þess skal gætt að umferð akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda sé aðskilin eins og hægt er. Æskilegt er að bílastæði við leikskóla séu staðsett við leikskólabygginguna og merkt sérstaklega fyrir starfsfólk og fyrir foreldra.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=