| 40345 | MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 12 | 4. Slysavarnir og líkamlegt öryggi Þessi hluti handbókarinnar á við um leikskóla og er stuðst við lög, reglugerðir og aðalnámskrá. Handbókinni er meðal annars ætlað að vera leiðarvísir fyrir leikskóla við gerð neyðaráætlana. Í lögum um landlækni nr. 41/2007 segir að hann skuli, í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, skipuleggja og halda skrár á landsvísu um heilsufar, sjúkdóma, slys, lyfjaávísanir, fæðingar og starfsemi og árangur heilbrigðisþjónustunnar. Formleg skráning í Slysaskrá Íslands hófst 1. október 2001. Í hana hafa verið skráðar staðlaðar lágmarksupplýsingar um slys, slasaða einstaklinga og eignatjón. Finna má tölur um fjölda slasaðra eftir aldri og kyni á vefsíðu Embættis landlæknis. Þar sem slysaskráin reyndist ekki nógu vel hefur verið ráðist í endursmíði hennar og endurskoðun á slysaskráningu. Á meðan sú vinna stendur yfir er gert hlé á skráningu slysa í miðlægan gagnagrunn. Vonir standa til að vinnunni ljúki á næstu misserum. Eldri tölur benda til þess að alvarlegustu slysin hér á landi verði á eða við heimili barna. Má þar nefna að alvarlegustu brunaslysin verða á eða við heimili barna á leikskólaaldri. Forvarnir og fræðsla Allt starfsfólk leikskóla (bæði fastráðnir og lausráðnir) þarf að kunna skyndihjálp leikskólabarna og viðhalda þeirri þekkingu með því að fara yfir og æfa reglulega viðbrögð við slysum og vá. Mikilvægt er að allir starfsmenn leikskólans kunni að bregðast við slysi á fumlausan hátt og er það á ábyrgð leikskólastjóra að svo sé. Hann ætti einnig að sjá til þess að haldið sé námskeið í slysavörnum og skyndihjálp leikskólabarna annað hvert ár þar sem starfsmenn endurnýja skyndihjálparréttindi sín. Þeir sem halda slysavarnanámskeið fyrir starfsmenn leikskóla skulu hafa til þess bæra þekkingu og reynslu. Einnig er mikilvægt að starfsmenn leikskóla æfi reglulega viðbrögð við mismunandi slysum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=