6 Kynning á handbók um öryggi og velferð barna í grunnskólum Handbókin er unnin í samvinnu mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga með hliðsjón af reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009. Í reglugerðinni segir að sveitarstjórn skuli útbúa handbók fyrir starfsfólk grunnskóla með leiðbeinandi reglum um öryggi barna og slysavarnir í grunnskólum. Leiðbeiningar þessar skulu grundvallaðar á gildandi lögum og reglugerðum um öryggis-, skipulags- og byggingarmál og samræmdum starfsleyfisskilyrðum fyrir grunnskóla, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum. Leiðbeiningar þessar skulu staðfestar af sveitarstjórn sem jafnframt skal sjá um að þær séu aðgengilegar almenningi á heimasíðu skólans eða sveitarfélagsins eða með öðrum hætti og kynntar í skólasamfélaginu. Sambandi íslenskra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðuneyti ber að móta leiðbeiningar um gerð slíkrar handbókar. Handbókin er mun ítarlegri en reglugerðin segir til um og er það gert til að auðvelda sveitarstjórnum að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar. Handbókin er ætluð sveitarstjórnum, rekstraraðilum, skólastjórnendum, kennurum og öðrum sem starfa í grunnskólum til stuðnings við gerð öryggishandbókar, öryggisáætlana og viðbragðsáætlana fyrir grunnskóla. Handbókina má nýta í heild sinni eða nýta þá þætti sem henta hverju sinni. Mikilvægt er að í öryggishandbók fyrir starfsfólk grunnskóla sé tæpt á öllum þeim þáttum sem koma fram í handbók þessari. Handbókin tekur ekki til sértækra öryggismála vegna barna með bráðaofnæmi, líkamlega eða andlega sjúkdóma, eða fötlun þar sem fyrir hvert slíkt barn gæti þurft að gera sértækar ráðstafanir. Handbókin er fyrst og fremst ætluð sem uppflettirit til að auðvelda notendum að fylgja eftir þeim lögum og reglugerðum sem gilda um grunnskólann og umhverfi hans. Uppsetningu handbókarinnar er ætlað að auðvelda notendum að finna upplýsingar um hina mismunandi þætti öryggismála. Markmiðið með handbókinni er að setja fram á aðgengilegan hátt upplýsingar um öll öryggisatriði sem huga þarf að í daglegum rekstri og starfi grunnskóla. Handbókinni er skipt í 10 meginkafla en hverjum meginkafla síðan skipt í undirkafla til að auðvelda leit að sértækum þáttum. Meginkaflar handbókarinnar eru: • Lög, reglugerðir og námskrár sem gilda um grunnskóla • Velferð barna og ungmenna • Netöryggi • Slysavarnir og líkamlegt öryggi • Öryggi í námsumhverfi • Eftirlit • Öryggi í ferðum á vegum grunnskóla • Slys • Almannavarnir og viðbrögð við eldvörnum og náttúruvá • Áhugavert lesefni og viðaukar • Handbókinni er ætlað að vera rammi um sameiginlega vinnu allra í skólasamfélaginu að velferð nemenda og byggir á efni sem Herdís Storgaard og Þorlákur Helgason unnu fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti. Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur falið Menntamálastofnun umsjón, vistun og uppfærslu handbókanna fyrir leikskóla og grunnskóla.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=