| 40344 | MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 6 | Hér að neðan eru talin upp nokkur atriði sem vert er að hafa til hliðsjónar við mótun heildarsýnar skóla á velferð nemenda: • Markmið um aukna velferð nemenda er samvinnuverkefni skóla og heimilis • Skólinn skilgreini í hverju jákvæður skólabragur felst og móti leiðir til að viðhalda honum. Starfsfólk skóla, nemendur og foreldrar skulu í sameiningu leggja áherslu á að móta og viðhalda góðum starfsanda í skólanum og jákvæðum skólabrag. • Leggja skal áherslu á styrkleika barna og hæfni. Leitast skal við að vinna að fjölbreyttum viðfangsefnum og starfsháttum til að koma til móts við mismunandi námsþarfir ólíkra einstaklinga og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. • Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, ábyrgð, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra. • Skólinn skal vinna markvisst að forvörnum þar sem hugað er að félagslegri vellíðan og velferð nemenda. • Skólinn er griðastaður barna þar sem þau eiga að finna til öryggis. Hafa skal að leiðarljósi að börn og unglingar þarfnast verndar og leiðsagnar fullorðinna. • Nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þá varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra. • Nemendur eiga að fá tækifæri til að skiptast á skoðunum við önnur börn og fullorðna þar sem þau finna lausnir í sameiningu og miðla málum. • Þarfir og áhugi barna ættu að vera sá grunnur sem mótar umhverfi og starfshætti skólans. Starfsfólk skóla skal grípa til viðeigandi ráðstafana ef þörf krefur þannig að öll börn fái sem best notið sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins. • Ofbeldi, einelti, kynbundið og annað andfélagslegt atferli skal aldrei liðið. Skólinn skal grípa til viðeigandi ráðstafana til að uppræta slíkt atferli og koma í veg fyrir að það þróist til að bæta umhverfi nemenda. • Starfsfólk skóla ber ábyrgð á að börnum líði vel í skólanum. Í skólasamfélaginu á nemandi að fá tækifæri til að þroska og nýta hæfileika sína og njóta bernsku sinnar. Skólinn á, í samstarfi við foreldra, að kappkosta að fylgjast með og efla alhliða þroska allra barna, veita þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og stuðla að öryggi þeirra og vellíðan. Samkvæmt aðalnámskrá eru starfshættir skóla og samskipti allra aðila ekki síður mikilvæg en önnur viðfangsefni til að ná markmiðum skólanna og stuðla að velferð og menntun. Starfshættir skólanna skulu mótast af umburðarlyndi og jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð. Námsárangur byggir á forsendum nemandans sjálfs, samskiptum og samkennd með vinum og félögum og samskiptum við kennara og annað starfsfólk, sem og af upplifun nemandans um eigin stöðu. Æskilegt er að nemandinn taki þátt í aðgerðum til að móta vinsamlegt umhverfi í skólanum. Foreldrar eru hluti af skólasamfélaginu og er mikilvægt að traust og virðing ríki milli heimilis og skóla. Foreldrar nemenda skulu gæta hagsmuna barna sinna. Þeir skulu hafa náið samráð við starfsfólk skóla, fylgjast með skólagöngu barna sinna og veita þær upplýsingar sem kunna að
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=