40344_velferd_barna_grunnsk_handb

| 40344 | MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 5 | 1. Velferð barna og ungmenna Skólinn er griðastaður barnanna og mikil ábyrgð hvílir á starfsfólki að hlúa að börnum og veita þeim öryggi í daglegu starfi. Velferð allra er sameiginlegt verkefni en félagsleg staða nemenda og starfsmanna er ólík. Það er mikilvægt að nemandi njóti bernsku sinnar og eigi góðar minningar úr skóla. Þegar fjallað er um velferð nemenda er horft til þriggja þátta, þeir eru: • Félagslegt öryggi nemenda og að þeir séu metnir út frá eigin verðleikum • Tilfinningalegt öryggi nemenda sem finna væntumþykju annarra • Traust þar sem nemendur átta sig á að þeir geti treyst þeim sem eru að mennta þá Á Íslandi er skólaskylda samkvæmt 15. gr. grunnskólalaga frá 6 ára aldri. Samkvæmt þeim eiga öll börn á aldrinum 6–16 ára að vera í grunnskóla og því er mikilvægt að umhverfi og aðstæður í skólanum tryggi farsæld barna og að þau geti þar dafnað í daglegu lífi og leik. • Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst (Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands). Meðal markmiða laga og reglugerða um skólahald er að tryggja að nemendum líði vel. Mikilvægt er að þeir búi við öryggi og að gagnkvæmt traust ríki í skólasamfélaginu. Sýn skólans á velferð og farsæld nemenda Bernsku- og unglingsárin eru mikilvægt skeið í ævi hvers einstaklings og eiga skólar að leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir barna og unglinga. Skólastarfið miðar að virkri þátttöku þeirra í lýðræðissamfélagi innan skóla sem utan. Í lögum um leik- og grunnskóla eru skýrar áherslur á öryggi og velferð og hvatt er til góðs og farsæls samstarfs allra sem að skólasamfélaginu koma. Allir geta verið sammála um að nemendur eigi rétt á að eiga góðar minningar úr skóla, hvort heldur er úr námi, félagslífi eða tilfinningalega. Barn sem líður vel í skóla, á góða vini og getur tekið beinan þátt í að móta góðan skóla er líklegra til að ná árangri í skóla og það hefur áhrif á skólabrag. Góður árangur barns í skóla hefur einnig áhrif á heilsufar þess. Barn sem býr við tilfinningalegt og félagslegt öryggi í skóla er líklegt til að geta metið stöðu sína og náð árangri á eigin forsendum. Samkvæmt reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, nr. 1040/2011 skulu skólar vinna sameiginlega sýn og stefnu um velferð og birta í skólanámskrá. Mikilvægt er að hvort tveggja sé skilgreint, unnið sé að því að styrkja ímynd skólans og skapa sameiginlegan skilning meðal starfsmanna, nemenda, foreldra og grenndarsamfélagsins. Í skólasamfélaginu er lögð rækt við að vinna að almennri velferð nemenda og gegn andfélagslegri hegðun í hverju svo sem hún kann að birtast, svo sem einelti, öðru ofbeldi og niðurlægingu. Næst á eftir heimili barnsins er skólinn mikilvægasta umhverfi þess og þar mótast meðal annars félags- og tilfinningaþroski að hluta. Því er mikilvægt að skólar móti sér sýn á velferð og birti hana í skólanámskrá sinni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=