43 9.2 Eldvarnir Eldvarnirnar miða fyrst og fremst að því að tryggja líf og heilsu barna og starfsmanna. Eldvarnir geta einnig dregið verulega úr tjóni á eignum. Eftirfarandi atriði eiga að vera til staðar og í lagi: • Reykskynjarar. Nægjanlega margir og rétt staðsettir. • Þekking á fyrstu viðbrögðum. • Flóttaleiðir, nægilega margar, greiðfærar og teiknaðar á blað. • Slökkvibúnaður af réttri gerð og rétt staðsettur. Til að tryggja rétt viðbrögð þarf að huga að virkri umræðu í starfsmannahópnum um brunavarnir og viðbragðsáætlun ásamt reglulegum brunaæfingum meðal starfsmanna og barna. Eldvarnareftirlitið mælir með að farið sé eftir leiðbeiningum um eldvarnir heimilisins í skólum. Sjá vef slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. 9.3 Náttúruvá Íslendingar hafa oft þurft að takast á við óblíð náttúruöfl og hættulegar afleiðingar þeirra. Eldgos með tilheyrandi hraunrennsli, öskufalli og jafnvel jökulhlaupi, aurskriður, sjávarflóð og snjóflóð, jarðskjálftar, óveður og kuldi hafa bæði valdið manntjóni og fjárhagsskaða. Loftgæði og svifryk Á heimasíðu Umhverfisstofnunar eru upplýsingar um loftgæði og svifryk. Þar er einnig að finna upplýsingar um mælingar á svifryki. Áhrif svifryks á heilsu fólks eru að miklu leyti háð stærð agnanna. Fínar agnir eru heilsufarslega mun hættulegri en þær grófu en agnir minni en 10 µm eiga auðveldara með að ná djúpt niður í lungun og geta því safnast þar fyrir. Það sem getur leitt til aukins svifryks er t.d.: • Þegar stilla er og þurrt í lofti, einkum á köldum vetrardögum, þá getur mengun safnast upp þar sem ekki er mikil hreyfing á lofti. • Mikil umferð og þá helst við stórar umferðaræðar og nálægt verksmiðjum. • Mikið rok en þá er mikið um uppfok á ögnum úr jarðvegi og umhverfi. Eldingar Hætta á eldingum getur skapast við þrumuveður og eldgos. Eldingahætta frá gjósandi eldstöð er mest í gosmekkinum sjálfum og getur breiðst út allt að 30-40 km undan vindi frá eldstöðinni. Nánari upplýsingar er að finna á www.almannavarnir.is Fárviðri Það telst fárviðri þegar vindhraði hefur náð 33 m/sek, sem jafngildir 64 hnútum (12 vindstig).
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=