40 • Tannáverkar. Alla áverka á tönnum þar sem spurning er um að fullorðinstennur hafi skaddast, dottið úr, brotnað eða losnað. • Augnáverkar. Alla alvarlega augnáverka t.d. skerðingu á sjón. • Klemmuáverkar. Ef fingur fer af eða hangir á húðpjötlu svo dæmi sé tekið. 8.11 Endurskoðun öryggismála eftir slys Í kjölfar slyss er mikilvægt að starfsfólk skóla fari vel yfir það sem gerðist og kanni hvort unnt hefði verið að fyrirbyggja það. Áður en farið er í slíka vinnu þarf að ganga úr skugga um að starfsfólk sem hlut á að máli eigi ekki um sárt að binda. Ef starfsmönnum líður illa er mikilvægt að þeir fái viðhlítandi áfallahjálp áður en greiningarvinnan á sér stað. Samkvæmt vinnuverndarlögum nr. 46/1980 ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem byggir á áhættumati. Við áhættumat þurfa starfsmenn að vera vakandi fyrir umhverfi sínu með tillit til slysavarna og bregðast við með viðeigandi hætti til að fyrirbyggja slys. Mikilvægt er að starfsmenn upplýsi skólastjóra um atvik sem jaðrar við slys til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Í mörgum tilvika alvarlegra slysa í skólum eru engin vitni og því liggja ekki alltaf fyrir upplýsingar um atburðinn. Til að koma í veg fyrir slíkt er mikilvægt að: • Gera áhættumat á öllum svæðum skólans bæði inni og úti. • Gera teikningu af lóðinni og gera áhættumat þar sem öll falin og hættuleg svæði eru skilgreind og merkt. • Tryggja að mönnun sé í samræmi við áhættumat og að starfsmenn hafi yfirlit yfir öll svæði skólans þar sem börn eru, úti sem inni. • Ef starfsmaður þarf að víkja frá því svæði sem hann einn hefur yfirsýn yfir gerir hann öðrum viðvart til að tryggja gæslu þess svæðis. • Fara yfir allar aðstæður og verkferla þegar alvarleg atvik eiga sér stað og ræða ábyrgð starfsmanna. Ræða þarf hvað gerðist, hvernig var staðið að öryggismálum (t.d. hvers vegna ekki var starfsmaður á slysstað ef við á) og ákveða hvernig verkferlum verður breytt til að draga úr hættu á að slíkt endurtaki sig. • Tryggja að allir starfsmenn þekki áhættumatið og verkferla sem því tengjast. Viðtal við foreldra eftir alvarlegt slys Þegar niðurstöður könnunar á slysi liggja fyrir er mikilvægt að skólastjóri bjóði foreldrum barnsins, sem slasaðist, viðtal. Í viðtalinu er farið yfir athugun skólans á tildrögum slyssins og hvað skólinn hyggst gera í framhaldinu. Með því að fara yfir það sem gerðist með foreldrum og til hvaða aðgerða hefur verið gripið í kjölfarið vex öryggistilfinning foreldra og traust þeirra til skólans. Því er mikilvægt að halda ekki upplýsingum, sem skipta máli, frá foreldrum. Skólastjóri þarf að hafa allar upplýsingar um málið áður en hann tjáir sig um það. Mikilvægt er að sveitarfélög/rekstraraðilar setji sér verklagsreglur um framkvæmd viðtala eftir alvarleg eða lífshættuleg slys.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=