40344_velferd_barna_grunnsk_handb

| 40344 | MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 39 | Í þeim tilfellum sem hringt er á sjúkrabíl kemur lögregla oftast með. Lögregla biður um ýmsar upplýsingar tengdar slysinu. Það er ekki lögregluskýrsla heldur skýrsla vegna útkalls sjúkrabíls; því þarf að fá lögreglu á staðinn til að gera sérstaka lögregluskýrslu um atvikið eða biðja um að hún sé gerð samhliða skýrslu vegna útkalls sjúkrabíls. Skólastjóri ber ábyrgð á að lögregluskýrsla sé gerð. Hægt er að óska eftir því að hún sé gerð eftir á. Til að hægt sé að meta hvenær á að gera lögregluskýrslu þarf oft að bíða eftir að læknisskoðun hafi farið fram. Ef gerð er lögregluskýrsla á að upplýsa foreldra og rekstraraðila um það. Slys á börnum sem gera skal lögregluskýrslu um: • Öll alvarleg slys, t.d. áverkar á innri líffærum, drukknun, umferðarslys. • Höfuðhögg. Heilahristingur, brot, umtalsverð blæðing, bjúgur eða annar alvarlegur áverki. • Brunaslys. Ef meira en 8–10% af líkamanum eru brennd og sár eru djúp. • Öll beinbrot, sama hversu lítil þau virðast vera. Komi í ljós að grunur um beinbrot er ekki réttur og barnið hefur aðeins tognað illa er óþarfi að gera lögregluskýrslu. • Tannáverkar. Alla áverka á tönnum þar sem spurning er um að fullorðinstennur hafi skaddast, dottið úr, brotnað eða losnað. • Augnáverkar. Alla alvarlega augnáverka, t.d. skerðingu á sjón. • Klemmuáverkar. Ef fingur fer af eða hangir á húðpjötlu svo dæmi sé tekið. Endurskoðun öryggismála eftir slys Í kjölfar slyss er mikilvægt að starfsfólk skóla fari vel yfir það sem gerðist og kanni hvort unnt hefði verið að fyrirbyggja það. Áður en farið er í slíka vinnu þarf að ganga úr skugga um að starfsfólk sem hlut á að máli eigi ekki um sárt að binda. Ef starfsmönnum líður illa er mikilvægt að þeir fái viðhlítandi áfallahjálp áður en greiningarvinnan á sér stað. Samkvæmt vinnuverndarlögum nr. 46/1980 ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem byggir á áhættumati. Við áhættumat þurfa starfsmenn að vera vakandi fyrir umhverfi sínu með tilliti til slysavarna og bregðast við með viðeigandi hætti til að fyrirbyggja slys. Mikilvægt er að starfsmenn upplýsi skólastjóra um atvik sem jaðrar við slys til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Í mörgum tilvika alvarlegra slysa í skólum eru engin vitni og því liggja ekki alltaf fyrir upplýsingar um atburðinn. Til að koma í veg fyrir slíkt er mikilvægt að: • Gera áhættumat á öllum svæðum skólans bæði inni og úti. • Gera teikningu af lóðinni og gera áhættumat þar sem öll falin og hættuleg svæði eru skilgreind og merkt. • Tryggja að mönnun sé í samræmi við áhættumat og að starfsmenn hafi yfirlit yfir öll svæði skólans þar sem börn eru, úti sem inni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=