Handbók um öryggi og velferð barna í grunnskólum

39 Undirritun foreldra á slysaskráningarblaðið og afrit af því Meginreglan er að foreldrar þurfa ekki að kvitta á slysaskráningarblöðin nema þar sem sveitarfélög hafa sett um það reglur að svo skuli vera. Hins vegar er nauðsynlegt að foreldri kvitti á slysaskráningarblaðið í þeim tilfellum þar sem starfsmaður skóla hefur metið áverkann á þann hátt að það þurfi að fara með barnið til læknis/hjúkrunarfræðings en foreldri ákveður að fara ekki eftir þeim tilmælum. Er þetta gert til að tryggja að ekki verði hægt að ásaka starfsmann síðar fyrir vanrækslu. Dæmi um texta sem foreldrar eru beðnir um að skrifa neðst á skráningarblaðið: „Ég undirrituð móðir/faðir barnsins (nafn barns) hef tekið þá ákvörðun að fara ekki eftir tilmælum skólans um aðhlynningu fyrir barnið hjá slysadeild eða heilsugæslu.“ Viðkomandi undirritar með dagsetningu, nafni og kennitölu. Ekki er gert ráð fyrir því að foreldri fái sjálfkrafa afrit af slysaskráningarblaðinu nema að reglur sveitafélagsins kveði á um það. Foreldrum er heimilt að skoða blaðið og fá afrit af því. Slysaskráningarblaðið er trúnaðarmál og má því ekki afrita né afhenda það öðrum en þeim sem hafa heimild til að skoða það s.s. heilbrigðiseftirliti sem ber að skoða þessi blöð til að kanna fjölda slysa og ástæður þeirra sem hluta af sínu ytra eftirliti. Ef aðrir en foreldrar biðja um skráningarblaðið þarf leyfi foreldra. Tilgangur beiðninnar þarf að vera skýr, s.s. ef verið er að vinna rannsóknir. Mikilvægt er að einungis þeir sem uppfylla allar kröfur um rannsóknarheimildir og meðferð persónuupplýsinga fái aðgang að slysaskráningarblöðum í rannsóknarskyni. Hvað er gert við slysaskráningarblöðin? Skólastjóri ber ábyrgð á að slysaskráningarblöð séu varðveitt og aðgengileg á meðan barnið dvelur þar. Við útskrift nemanda úr skóla skal skólastjóri sjá til þess að blaðið fari í varðveislu í skjalasafni sveitarfélagsins eða til þess sem varðveitir skjalasöfn einkarekinna skóla. Slysaskráningarblöðin þurfa að vera aðgengileg ef foreldrar eða barnið sjálft þurfa á þessum upplýsingum að halda síðar á lífsleiðinni samkvæmt lögum um Þjóðskjalasafn nr. 66/1985. 8.10 Lögregluskýrsla Ef alvarlegt slys verður í skóla eða slys sem veldur barni áverka sem hugsanlega getur tekið sig upp síðar á ævinni er mikilvægt að lögregluskýrsla sé gerð. Lögregluskýrsla greiðir fyrir afgreiðslu hjá tryggingarfélögum. Skýrslan er varðveitt hjá lögreglu. Skólastjóri getur óskað eftir afriti af henni ef þörf krefur. Í þeim tilfellum sem hringt er á sjúkrabíl kemur lögregla oftast með. Lögregla biður um ýmsar upplýsingar tengdar slysinu. Það er ekki lögregluskýrsla heldur skýrsla vegna útkalls sjúkrabíls; því þarf að fá lögreglu á staðinn til að gera sérstaka lögregluskýrslu um atvikið eða biðja um að hún sé gerð samhliða skýrslu vegna útkalls sjúkrabíls. Skólastjóri ber ábyrgð á að lögregluskýrsla sé gerð. Hægt er að óska eftir því að hún sé gerð eftir á. Til að hægt sé að meta hvenær á að gera lögregluskýrslu þarf oft að bíða eftir að læknisskoðun hafi farið fram. Ef gerð er lögregluskýrsla á að upplýsa foreldra og rekstraraðila um það. Slys á börnum sem gera skal lögregluskýrslu um • Öll alvarleg slys t.d. áverkar á innri líffærum, drukknun, umferðaslys. • Höfuðhögg. Heilahristingur, brot, umtalsverð blæðing, bjúgur eða annar alvarlegur áverki. • Brunaslys. Ef meira en 8-10% af líkamanum er brenndur og sár eru djúp. • Öll beinbrot. Sama hversu lítil þau virðast vera. Komi í ljós að grunur um beinbrot er ekki réttur og barnið hefur aðeins tognað illa þá er óþarfi að gera lögregluskýrslu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=