35 8 Slys Í lögum um landlækni nr. 41/2007 segir að hann skuli, í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, skipuleggja og halda skrár á landsvísu um heilsufar, sjúkdóma, slys, o.fl. Formleg skráning í Slysaskrá Íslands hófst 1. október 2001. Slysaskrá Íslands inniheldur upplýsingar um slys með meiðslum og upplýsingar um eignatjón í umferðaróhöppum. Einungis eru skráðar lágmarksupplýsingar um slysið sjálft, slasaða einstaklinga og ökutæki. Hægt er að skoða tölur um fjölda slasaðra eftir aldri og kyni á vefsíðu Embættis landlæknis. 8.1 Að hefja skyndihjálp og sinna barni þar til sjúkrabíll kemur Starfsfólk skóla, aðrir en skólahjúkrunarfræðingar, hefur ekki heimild til að meðhöndla áverka, slíkt er í höndum lækna og hjúkrunarfræðinga og þeirra sem öðlast hafa til þess sérstakt leyfi, sjá þó kafla 8.4. Hlutverk starfsfólks skóla, þegar slys ber að höndum, er að greina, koma í veg fyrir frekari slys þar til sjúkrabíll kemur en það er skilgreint sem skyndihjálp. Á vefsíðunni skyndihjalp.is sem er á vegum Rauða kross Íslands má finna stuttar og hagnýtar leiðbeiningar fyrir almenning um hvernig bregðast megi við ýmsum slysum og veikindum. Leiðbeiningarnar henta vel þegar rifja skal upp aðferðir skyndihjálpar, t.d. þegar komið er að umferðarslysi, einstaklingi sem hlotið hefur áverka á höfði, beinbrot eða hjartaáfall. Hafa ber í huga að: • Skyndihjálp er veitt út frá mati á ástandi barnsins og því haldið áfram þangað til sjúkrabíll er kominn. • Í þeim tilfellum þar sem viðkomandi ræður ekki einn við að veita skyndihjálp óskar hann eftir aðstoð nærstaddra. • Þegar enginn er til aðstoðar, verður viðkomandi að reyna sitt besta og bíða rólegur þangað til sjúkrabíll kemur. Að koma ró á svæðið - Hinn slasaði gengur alltaf fyrir Þegar alvarlegt slys verður í skóla eða í ferðum á vegum hans er ekki óeðlilegt að það myndist ringulreið meðal starfsfólks og barna. Til að draga úr líkum á að slíkt ástand skapist er mikilvægt að skólar hafi virka viðbragðsáætlun og æfi hana reglulega. 8.2 Fyrstur á slysstað Mikilvægt er að sá sem kemur fyrstur á slysstað taki yfir stjórnina, hafi hann til þess bæra þekkingu. Auk þess þarf hann að: • Meta ástand þess slasaða út frá sinni kunnáttu í skyndihjálp. • Afla upplýsinga frá hinum slasaða eða vitnum. • Meta hvort hringja á í Neyðarlínu 112. • Veita skyndihjálp. • Meta hvort þörf sé á aðstoð annarra starfsmanna.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=