Handbók um öryggi og velferð barna í grunnskólum

32 Markmiðið með skoðuninni er fyrst og fremst að tryggja öryggi barna á lóðinni. Mikilvægt er að framkvæma skoðun á lóð daglega áður en nemendur fara út í frímínútur. Eftirfarandi atriði þyrfti að skoða: • Hálka: Kanna þarf hvort mikil hálka er á lóð og göngustígum innan lóðar. Ef svo er skal gera viðeigandi ráðstafanir, s.s. að salta þá fleti sem eru hálir. Mikilvægt er að kanna hálku á yfirborði leiktækja. Sé ísing úti er ekki ólíklegt að þau séu hál. Meta þarf hvort hindra þurfi aðgang barna að hálum leiktækjum því þau geta verið hættuleg og skapað fallhættu. Ef starfsfólk kemur því ekki við að hálkuverja lóðina með góðu móti þarf að meta hvort æskilegt sé að nemendur fari út að leika sér meðan ástandið varir. • Lýsing: Kanna ber hvort unnin hafa verið skemmdarverk á lýsingu lóðar eða hvort perur hafa bilað. Ef svo er þarf að tilkynna það strax til viðkomandi aðila sem sér um viðhald lóða. • Rusl: Mikilvægt er að allt rusl sé fjarlægt. Sprautur og nálar sem finnast ber að fjarlægja samkvæmt leiðbeiningum frá Embætti landlæknis um meðferð á notuðum sprautum og nálum. • Leiktæki: Skoða þarf leiktæki til að kanna hvort þau séu brotin eða skemmd. Ef skemmdarverk hafa verið unnin á þeim er mikilvægt að það sé tilkynnt strax til viðeigandi aðila sem sér um viðgerð á leiktækjum. Ef ekki tekst að lagfæra tækin þarf að girða þau af þannig að börn komist ekki að þeim. • Undirlag: Skoða þarf undirlag undir tækjum. Ef möl er notuð sem fallundirlag skal kanna hvort borist hafi grjót, timbur eða annað í mölinni og fjarlægja það strax, sé þess þörf, annars virkar öryggisundirlagið ekki ef barn fellur úr tækinu. Þar sem möl er notuð sem öryggisundirlag myndast oft hola t.d. undir rólum. Til að öryggisundirlagið virki þarf að raka mölina reglulega. • Gangstéttar: Sópa þarf gangstéttar. Laus möl sem berst upp á gangstéttar er hættuleg og getur valdið slysi hjá nemendum, foreldrum og starfsfólki. • Vatnssöfnun: Kanna þarf hvort vatn hafi safnast fyrir á lóðinni. Ef rekja má vatnssöfnun til stíflaðs niðurfalls skal tilkynna það til þeirra sem sjá um viðhald á lóðinni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=