Handbók um öryggi og velferð barna í grunnskólum

29 Umferð og bílastæði við skólalóð Þegar barn byrjar í skóla þarf að kynna foreldrum/forráðamönnum barnsins aðkomu umferðar að skólanum. Slíkt dregur úr líkum á að hætta skapist vegna umferðar á álagstímum. Mikilvægt er að allir sem erindi eiga í skóla komist þangað á öruggan hátt gangandi, hjólandi og/eða akandi. Þess skal gætt að umferð akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda sé aðskilin eins og hægt er. Æskilegt er að bílastæði við skóla sé staðsett við skólabygginguna og merkt sérstaklega fyrir starfsfólk og foreldra. Gangbrautir skulu merktar þannig að sá sem ekur inn á bílastæðið sjái hvar þær eru. Nauðsynlegt er að taka á hraðakstri við skóla með bættri hönnun umferðarmannvirkja og liðsinni lögreglu. Göngu- og hjólaleiðir barna í skólann Æskilegt er að sem flest börn gangi eða hjóli í skólann en þannig skapast minni hætta af umferð ökutækja við skólann. Mikilvægt er að kynna árlega öruggar göngu- og hjólaleiðir og ábyrgð foreldra á öryggi barna á leið í og úr skóla. Ávallt skal gæta öryggissjónarmiða í þessum efnum. Æskilegt er að skólinn hafi frumkvæði að því að hvetja börn til að nota hjálm við hjólreiðar. Á vef Samgöngustofu eru upplýsingar um öryggisbúnað vegna hjólreiða. Í handbókinni eru nokkur góð ráð um gönguleiðir barna í skólann. Akstur með aðföng og önnur umferð á skólalóðinni Þar sem ekki er séraðkoma bíla með aðföng er mikilvægt að fara yfir hvar hentugast er að bílar komi að skólahúsnæðinu án þess að ógna öryggi barna. Kynna þarf fyrir bílstjórum eða merkja vel bestu og öruggustu leiðina fyrir þá til að koma með aðföng í skólann. Æskilegt er að aðstæður séu skipulagðar þannig að stór ökutæki þurfi ekki að aka afturábak á skólalóð eða þar sem vænta má barna. Göngustígar og gangstéttar Göngustígar og gangstéttar eiga að vera með slétt yfirborð. Ef meira en 2 cm mishæð er til staðar er hætta á falli. Ef hættulegar misfellur eru komnar í gangstéttar/göngustíga er mikilvægt að það sé lagað sem fyrst. Niðurföll á göngustígum/gangstéttum eiga að vera: • Í sömu hæð og göngustígurinn/gangstéttin. • Í lagi og hreinsuð reglulega til að koma í veg fyrir vatnstjón í byggingum og hálkumyndun að vetrarlagi. • Með viðeigandi loki sem snýr rétt. Mikilvægt er að gert sé strax við stífluð niðurföll. Ef lok vantar á niðurfall eða það snýr öfugt er mikilvægt að laga það strax. Tröppur, rampar og handrið Tröppur, rampar og handrið eiga að uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar, nr. 112/2012. Æskilegt er að handrið sé við allar tröppur. Ef brotnar upp úr þrepum eða þau losna þarf að gera við þau strax.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=