Handbók um öryggi og velferð barna í grunnskólum

26 Eldhús Í skólaeldhúsum er mikið af hættulegum hlutum, s.s. ýmis tæki til matreiðslu og beittir hnífar, því þarf að vera hægt að loka eldhúsinu. Í skólum, þar sem opið er inn í eldhús eða nemendur eiga þangað erindi sem hluta af sínu námi, á að ganga þannig frá tækjum og tólum að þeir geti ekki skaðast af þeim. Eiturefni og eitraðar plöntur Öll eiturefni og önnur hættuleg efni skulu geymd í læstri geymslu og gengið þannig frá þeim að nemendur hafi ekki aðgang að þeim nema undir eftirliti kennara. Mikilvægt er að starfsfólk þekki aðvaranir á umbúðum. Lista yfir merkingar eiturefna er að finna á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Ef plöntur eru í skólanum ber að ganga úr skugga um að þær séu ekki eitraðar. Hér má finna lista yfir eitraðar plöntur. Rafmagnsöryggi Samkvæmt byggingarreglugerð, nr. 112/2012 skulu vera lekastraumsrofar (lekaliðar) í öllum byggingum. Lekastraumsrofi er öryggisbúnaður sem kemur í veg fyrir rafmagnslys. Rík krafa er gerð til rafmagnstækja og öryggis þeirra. Ef tækin brotna eða rafmagnssnúrur þeirra trosna er mikilvægt að slíkt sé lagað. Flestar innstungur eru með öryggislæsingu sem kemur í veg fyrir að börn geti stungið hlutum inn í þær og þannig fengið rafstraum. Ef innstungur brotna eða losna frá vegg er nauðsynlegt að gera við þær strax. Fjöltengi geta verið varasöm. Það má ekki nota brotin fjöltengi eða fjöltengi þar sem rafmagnssnúran eða klóin er farin að skemmast. Kerti og eldfim efni Fara skal þannig með eld, eldfim efni og önnur hættuleg efni að engin hætta sé á því að eldsvoði eða tjón af völdum mengunar geti af því hlotist. Æskilegt er að banna alla notkun kerta í skólum. Í allri umgengni við opinn eld skal sýna aðgát og ekki skal skilja logandi kerti eftir eftirlitslaus meðan starfsmaður víkur frá. Kveikjarar og eldspýtur skulu geymdar í læstum hirslum. 5.2 Námsgögn og leikföng Við val á námsgögnum og leikföngum verður að hafa í huga að þau hæfi aldri og þroska þeirra barna sem þau eru ætluð. Mikilvægt er að skoða viðvörunarmerkingar vel og fara eftir þeim leiðbeiningum sem fylgja leikfanginu. Leikföng og leiktæki skulu uppfylla kröfur reglugerðar um öryggi leikfanga og markaðssetningu þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu nr. 944/2014 og vera CE merkt. Starfsfólk skóla skal framkvæma reglubundið eftirlit með námsgögnum og leikföngum samkvæmt gátlista sem skólinn útbýr. CE merkingar Leikföng sem ætluð eru börnum yngri en 14 ára eiga að vera CE merkt. CE merking vöru gefur til kynna að varan uppfylli þær lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd sem settar eru fram í Evróputilskipunum sem gilda hér á landi. CE merkið er ekki öryggis- eða gæðastimpill heldur til staðfestingar á því að leikfangið uppfylli kröfur sem gerðar eru til framleiðslunnar samkvæmt CE staðli.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=