Handbók um öryggi og velferð barna í grunnskólum

21 • Áhersla sé lögð á fjölbreyttar aðgerðir sem fela í sér umræður um ákvarðanatöku og þjálfun í samskiptahæfni. Markmiðið er að styrkja félagslega hæfni barna og ungmenna, sjálfsmynd þeirra og getu til að forðast áhættuhegðun, t.d. að afþakka tóbak og vímuefni þegar þau eru í boði og taka ábyrga afstöðu gagnvart allri mismunun, einelti og öðru ofbeldi. • Styrkja tengsl nemenda við skólasamfélagið og byggja upp þrautseigju þeirra. • Byggja upp fagmennsku og þjálfun þeirra sem sinna fræðslunni. Varast ber ... að beita hræðsluáróðri eða einhliða fræðslu sem hefur lítil sem engin áhrif á fjöldann og hugsanlega neikvæð áhrif á hegðun ákveðinna aðila. Þó hræðsluáróður sé stundum eftirminnilegur og börn og ungmenni áhugasöm um slíka fræðslu sýna rannsóknir að hún hefur ekki tilætluð áhrif. Slík fræðsla getur haft neikvæð áhrif á hegðun og hugsanlega ýtt undir áhættuhegðun hjá ákveðnum aðilum. Í þessu tilliti þarf að hafa í huga að valda ekki skaða þó að ásetningurinn sé góður. Hafa skal í huga að: • Áhrifaríkar forvarnir byggja á niðurstöðum rannsókna og sýna rétta mynd af stöðu ákveðinna hegðunar og umfangi hennar. • Eftir því sem börn og ungmenni meta að fleiri stundi ákveðna hegðun eru þau líklegri til þess að prófa sjálf. Því er mikilvægt að taka mið af staðbundnum gögnum. • Áhrifaríkar aðferðir þurfa að vera heildstæðar og í samstarfi við foreldra og nærsamfélagið. • Fræðsluerindi sem einungis leggja áherslu á aukna þekkingu geta verið nauðsynleg en eru sjaldan nægjanleg til að hafa áhrif á hegðun. • Kennsla þarf að vera gagnvirk, sveigjanleg, umhyggjusöm og án innrætingar þar sem börn og ungmenni fá tækifæri til að tjá sig. • Áhrifaríkt er að þjálfa félagsfærni, ákvarðanatöku, markmiðasetningu, að standast félagsþrýsting og að setja sig í spor annarra. • Til þess að ná árangri er betra að hafa langtímaáætlun sem byggir á heildstæðri nálgun með mælanlegum markmiðum, skammtímaátak getur verið hluti af henni. • Kennarar eða aðrir fagaðilar innan skólasamfélagsins eru best til þess fallnir að halda utan um kennslu í forvörnum, m.a. svo að börn og ungmenni geti í framhaldinu leitað til þeirra með spurningar eða aðstoð. • Kennsla í fámennum hópi er áhrifaríkari en kennsla í fjölmennum hópi. • Ef nauðsynlegt er að leita til utanaðkomandi aðila með fræðslu er æskilegt að kennari eða annar fagaðili innan skólans sé virkur þátttakandi. Mikilvægt er að skoða vel fyrirfram hvað slíkt fræðsluerindi inniheldur. • Skólinn skal leggja sig fram um að aðstoða þá nemendur sem eiga í vanda vegna tóbaks, áfengis eða annarra vímuefna með umhyggju að leiðarljósi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=