Handbók um öryggi og velferð barna í grunnskólum

20 4.4 Öryggisatriði í upphafi skólagöngu í nýjum skóla Góð samskipti foreldra og skóla eru grundvallaratriði þegar tryggja þarf öryggi barna. Þar sem foreldrar og skóli bera sameiginlega ábyrgð á öryggi barnsins á leið í og úr skóla er mikilvægt að kynna fyrir foreldrum hvaða öryggisreglur gilda í skólanum og hvernig heimilið og skólinn geta hjálpast að við að framfylgja þeim til að tryggja börnum hámarksöryggi. Mikilvægt er að setja upplýsingarnar á heimasíðu skólans og fjalla um öryggismál og viðbragðsáætlanir í skólanámskrá. Eftirfarandi atriði er mikilvægt að kynna fyrir foreldrum: • Reglur skólans. • Aðferðir skólans við að tryggja jákvæðan skólabrag og öryggi nemenda. • Viðbrögð í skóla ef barn hlýtur minniháttar meiðsli og hvað talin eru minniháttar meiðsli. • Viðbrögð í skóla ef barn verður fyrir ofbeldi af einhverju tagi innan eða utan skóla eða hlýtur alvarleg meiðsli á skólatíma. • Upplýsingar um nemanda vegna slysa og bráðaveikinda. • Tryggingar skólans ef barnið slasast – hver ber kostnað. • Þeir ferlar sem unnið er eftir þegar slys verður. • Þeir ferlar sem unnið er eftir í kjölfar slyss. • Fyrirkomulag öryggismála í skólanum og í öllu starfi hans. • Örugg aðkoma gangandi og hjólandi barna að skóla. • Öryggi í akstri skólabíla. • Örugg aðkoma foreldra sem aka börnum í skóla. • Öryggi í ferðalögum skólabarna. • Vinnureglur skólans varðandi ofbeldi og einelti. • Viðbrögð við náttúruvá – almannavarnir. • Starf skólahjúkrunarfræðings – skólaheilsugæslu. Í upphafi hvers skólaárs er mikilvægt að minna foreldra á ákveðin öryggisatriði svo sem öryggi barna á leið í og úr skóla hvort sem þau ganga, hjóla eða eru keyrð í skólann í einkabíl eða í skólabíl. 4.5. Viðmið um heilsutengdar forvarnakynningar og fræðslu í skólum Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla skulu skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skóla vera meðvitað um hvað felst í heilsutengdum forvörnum og geta nýtt sér áreiðanlegar upplýsingar um þætti sem hafa áhrif á líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði nemenda. Mennta- og menningarmálaráðuneyti leggur áherslu á að grunnskólar vinni markvisst að forvörnum. Þess skal gætt að forvarnir og heilsuefling í skólum sé heildstæð og unnin í samstarfi við nemendur, foreldra og nærsamfélag. Heilsueflingar- og forvarnastarf skal ávallt byggt á aðferðum, sem búið er að sýna fram á með vísindalegum rannsóknum að beri árangur. Forsenda árangursríkra forvarna er sýnileg stefna skóla, uppbyggilegt umhverfi og fagmenntað starfsfólk. Við skipulag heilsutengdra forvarnakynninga og fræðslu í skólum skal þess gætt að: • Fræðslan byggi á fræðilegum grunni og sé löguð að aldri nemenda.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=