| 40344 | MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 19 | • Þeir ferlar sem unnið er eftir í kjölfar slyss • Fyrirkomulag öryggismála í skólanum og í öllu starfi hans • Örugg aðkoma gangandi og hjólandi barna að skóla • Öryggi í akstri skólabíla • Örugg aðkoma foreldra sem aka börnum í skóla • Öryggi í ferðalögum skólabarna • Vinnureglur skólans varðandi ofbeldi og einelti • Viðbrögð við náttúruvá – almannavarnir • Starf skólahjúkrunarfræðings – skólaheilsugæslu Í upphafi hvers skólaárs er mikilvægt að minna foreldra á ákveðin öryggisatriði, svo sem öryggi barna á leið í og úr skóla hvort sem þau ganga, hjóla eða eru keyrð í skólann í einkabíl eða í skólabíl. Viðmið um heilsutengdar forvarnakynningar og fræðslu í skólum Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla skulu skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skóla vera meðvituð um hvað felst í heilsutengdum forvörnum og geta nýtt sér áreiðanlegar upplýsingar um þætti sem hafa áhrif á líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði nemenda. Mikilvægt er að leggja áherslu á að grunnskólar vinni markvisst að forvörnum. Þess skal gætt að forvarnir og heilsuefling í skólum séu heildstæð og unnin í samstarfi við nemendur, foreldra og nærsamfélag. Heilsueflingar- og forvarnastarf skal ávallt byggt á aðferðum sem búið er að sýna fram á með vísindalegum rannsóknum að beri árangur. Forsenda árangursríkra forvarna er sýnileg stefna skóla, uppbyggilegt umhverfi og fagmenntað starfsfólk. Við skipulag heilsutengdra forvarnakynninga og fræðslu í skólum skal þess gætt að: • Fræðslan byggi á fræðilegum grunni og sé löguð að aldri nemenda. • Áhersla sé lögð á fjölbreyttar aðgerðir sem fela í sér umræður um ákvarðanatöku og þjálfun í samskiptahæfni. Markmiðið er að styrkja félagslega hæfni barna og ungmenna, sjálfsmynd þeirra og getu til að forðast áhættuhegðun, t.d. að afþakka tóbak og vímuefni þegar þau eru í boði og taka ábyrga afstöðu gagnvart allri mismunun, einelti og öðru ofbeldi. • Styrkja tengsl nemenda við skólasamfélagið og byggja upp þrautseigju þeirra. • Byggja upp fagmennsku og þjálfun þeirra sem sinna fræðslunni. Varast ber ... að beita hræðsluáróðri eða einhliða fræðslu sem hefur lítil sem engin áhrif á fjöldann og hugsanlega neikvæð áhrif á hegðun ákveðinna aðila. Þó að hræðsluáróður sé stundum eftirminnilegur og börn og ungmenni áhugasöm um slíka fræðslu sýna rannsóknir að hún hefur ekki tilætluð áhrif. Slík fræðsla getur haft neikvæð áhrif á hegðun og hugsanlega ýtt undir áhættuhegðun hjá ákveðnum einstaklingum. Í þessu tilliti þarf að hafa í huga að valda ekki skaða þó að ásetningurinn sé góður.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=