16 4 Slysavarnir og líkamlegt öryggi Þessi hluti handbókarinnar á við um grunnskóla og er stuðst við lög, reglugerðir og aðalnámskrá. Handbókinni er meðal annars ætlað að vera leiðarvísir við gerð viðbragðsáætlana fyrir grunnskóla. 4.1 Forvarnir og fræðsla Allir starfsmenn skóla (bæði fastráðnir og lausráðnir) þurfa að kunna skyndihjálp og viðhalda þeirri þekkingu með því að fara yfir og æfa reglulega viðbrögð við slysum og vá. Mikilvægt er að allir starfsmenn skólans kunni að bregðast við slysi á fumlausan hátt og er það á ábyrgð skólastjóra að svo sé. Hann ætti einnig að sjá til þess að haldið sé námskeið í slysavörnum og skyndihjálp annað hvert ár þar sem starfsmenn endurnýja skyndihjálparréttindi sín. Þeir sem halda slysavarnarnámskeið fyrir starfsmenn skóla skulu hafa til þess bæra þekkingu og reynslu. Einnig er mikilvægt að starfsmenn skóla æfi reglulega viðbrögð við mismunandi slysum. Þegar nýir starfsmenn hefja störf í skólanum er mikilvægt að þeir komist á námskeið í slysavörnum og skyndihjálp eins fljótt og auðið er. Skólastjóri á að hafa yfirlit yfir alla starfsmenn sem hafa lokið skyndihjálparnámskeiði. Bent er á að gott er að halda yfirlit yfir þá starfsmenn sem hafa farið á slysavarnarnámskeið í öryggishandbók skólans. Allt starfsfólk skóla ber ábyrgð á börnum meðan þau eru í skólanum og verður að grípa inn í ef barn sýnir af sér hegðun sem getur leitt til slysa. Starfsfólk þarf að vera meðvitað um hvaða hættur geta leynst í skólum og umhverfi þeirra og hvar. Skólahjúkrunarfræðingar sinna minniháttar slysum og meta áverka þegar þeir eru á staðnum en annars er það hlutverk starfsmanna skólans. Nauðsynlegt er að tryggja að kennarar hafi ávallt yfirlit yfir réttan fjölda nemenda í umsjá þeirra hverju sinni. Fræðsla starfsmanna um öryggismál Öryggi nemenda í skólum ætti að vera forgangsmál. Það er því mikilvægt að allir starfsmenn fái þjálfun í öryggismálum. Mikilvægt er að þjálfun í öryggismálum byrji um leið og starfsmenn taka til starfa og að því sé fylgt eftir að þeir öðlist færni í öryggismálum. Það sem þarf að hafa í huga fyrir alla starfsmenn er meðal annars: • Námskeið um slysavarnir og skyndihjálp annað hvert ár til að starfsmenn geti endurnýjað skyndihjálparréttindi sín. • Árleg könnun á kunnáttu og þekkingu starfsmanna í öryggismálum og viðbrögðum skólans við slysum, bruna og annarri vá. • Regluleg þjálfun starfsmanna í viðbragðsáætlunum og öryggisferlum skólans.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=