Handbók um öryggi og velferð barna í grunnskólum

13 • Hvernig er ytra umhverfi? Er skólaumhverfi bjart og hlýtt, henta aðstæður samskiptum við vini? • Hvernig er innra umhverfi? Skólabragur, samskiptamáti, áhrif nemenda, hafa nemendur komið að mótun umhverfis og aðstæðna? • Hvernig eru skilaboð frá þeim fullorðnu? Dæmi: „Þú sem nemandi skiptir máli og við viljum að þú lærir.“ • Hvernig er búið að öryggi barna? Er starfsmaður alltaf til staðar og geta nemendur treyst honum til að bregðast við og grípa inn í aðstæður? • Hvernig er félagsstaða foreldra? Hún getur verið misjöfn og haft áhrif á samskipti heimilis og skóla. 2.6 Starf skóla gegn ofbeldi Leikskólinn Í lögum og reglugerðum er ekki kveðið á um skyldur leikskóla til að móta sér stefnu um aðgerðir gegn ofbeldi. Andi laga um leikskóla og aðalnámskrá leikskóla felur þó í sér hvatningu til að leikskólar setji sér stefnu til að koma í veg fyrir og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Leikskólar geta nýtt sér þær tillögur sem fram koma í kaflanum hér að neðan um grunnskólann. Grunnskólinn Í 7. grein reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila í skólasamfélaginu í grunnskólum, nr. 1040/2011 segir að allir skólar skuli hafa heildstæða stefnu fyrir skólann til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólum ber að setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum. Áætlunin skal ná til allrar starfsemi og alls starfsfólks skóla og skal kveða á um skyldur þess til að vinna gegn einelti með ábyrgum og virkum hætti. Áætlunin skal ná til allra nemenda og styrkja þá til að bera virðingu hver fyrir öðrum, sýna tillitssemi og samkennd og taka afstöðu gegn einelti. Aðgerðir gegn einelti eru órjúfanlegur þáttur í að skapa nemendum öruggt umhverfi og taka til skólans í heild, einstakra námshópa og einstaklinga. Hver kennari ber ábyrgð á að framfylgja með virkum og ábyrgum hætti aðgerðaáætlun skólans gegn einelti og skólastjóri ber ábyrgð á að starfið sé samhæft. Eineltisáætlun á að vera virk í skólanum. Traust og vellíðan nemanda byggir á að honum sé ekki strítt eða hann niðurlægður á annan hátt. Nemandi á að geta treyst starfsfólki skólans til að grípa inn í aðstæður og skipta sér af sé þess þörf. Kanna þarf reglulega eðli og umfang eineltis í skólum, kynna niðurstöður og nýta þær til úrbóta. Aðgerðaáætlun gegn einelti er hluti af skólanámskrá og er kynnt sérstaklega eftir því sem þurfa þykir og skal birt opinberlega. Aðilar skólasamfélagsins (foreldrar og forráðamenn nemenda, nemandi, starfsfólk skóla, stjórnendur skóla), auk annarra aðila sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi sem hefur stoð í grunnskólalögum geta óskað eftir aðstoð fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólum ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu skólaþjónustu sveitarfélaga. Fagráðið starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis en umsýsla þess er hjá Menntamálastofnun. Ráðuneytið gefur út verklagsreglur um starfsemi fagráðsins, málsmeðferð og eftirfylgni að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Á vefsíðu Menntamálastofnunar er hægt að nálgast upplýsingar og góð ráð um einelti og þar er m.a. að finna leiðbeiningar um verkferla í eineltismálum: https://gegneinelti.is/

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=