11 • Að nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, notið hæfileika sinna og séu öruggir í öllu starfi á vegum skólans. • Að stuðla að ábyrgð nemenda á eigin námi, hegðun og samskiptum með hliðsjón af aldri, þroska og aðstæðum að öðru leyti. • Að allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag, þar sem öryggi, vellíðan og heilbrigði eru leiðarljós. • Að stuðla að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um nám nemenda, hegðun og samskipti og stuðla að gagnkvæmu trausti allra aðila í skólasamfélaginu, gagnkvæmri virðingu, samábyrgð, kurteislegri framkomu og tillitssemi. • Að haldið sé uppi námsaga þar sem tekið er tillit til þarfa nemenda, þroska og hæfni með áherslu á mannréttindi, jafnrétti, lýðræðisleg vinnubrögð og bann við mismunun af öllu tagi. • Að hver grunnskóli setji sér skólareglur með skýrum viðbrögðum við brotum á reglunum, að úrræði og viðbrögð stuðli að jákvæðri hegðun og miði að því að rækta persónuþroska og hæfni nemenda. 2.2 Forvarnir Skólinn skal vinna markvisst að forvörnum með því að stuðla markvisst að velferð barna og farsælli skólagöngu þeirra þar sem hugað er að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Fræðsla til starfsmanna, foreldra og nemenda er mikilvægur þáttur forvarna. Góð heilsa er undirstaða velfarnaðar í námi og starfi og virkrar þátttöku í samfélaginu. Heilsa er skilgreind sem líkamleg, andleg og félagsleg velferð. Líðan barns hefur áhrif á sjálfsmynd þess, hvort það hefur trú á eigin hæfni og er áhugasamt og sýnir vilja og getu til að takast á við mismunandi viðfangsefni. Daglegar athafnir í skóla eiga að stuðla að líkamlegri og andlegri vellíðan barns og góðri heilsu. Í skólum gefst tækifæri til að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan óháð efnahag og aðstæðum á heimili nemenda. Starfsfólk skóla skal ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja öryggi, vellíðan og vinnufrið til þess að þeir geti notið skólagöngu sinnar. Almenn menntun miðar að því að efla sjálfsskilning einstaklingsins og hæfni hans til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Hugtakið hæfni felur í sér þekkingu og leikni og er samofið siðferðilegum viðhorfum nemenda. Nemendur þurfa að vita hvað þeir kunna og hvað þeir geta og hvernig best er að beita þekkingu sinni og leikni til að hafa áhrif á umhverfi sitt og bæta það. Hæfni er þannig meira en þekking og leikni, hún felur einnig í sér viðhorf og siðferðisstyrk, tilfinningar og sköpunarmátt, félagsfærni og frumkvæði. Upplifun nemenda er mikilvægt atriði í að styrkja velferð þeirra. Það hvernig nemendur upplifa stöðu sína og gengi í skólanum hefur þar áhrif sem og ytri aðstæður eins og skólahúsnæði. Allt skiptir þetta máli og hefur mismikil áhrif á líðan nemenda. Hafa skal í huga að mælikvarði fullorðinna á þægilegu umhverfi þarf ekki að fara saman við mat barna og unglinga. Spurningalistar sem lagðir eru fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk eru leiðbeinandi um mat á líðan nemenda og beina sjónum að jákvæðum aðstæðum og þeim sem þarf að bæta. Eins geta þeir verið til stuðnings reglubundnum viðtölum við nemendur og foreldra. Tillögur að spurningalistum má finna í viðauka. 2.3 Réttur barna Allir nemendur eiga rétt á að stunda nám við sitt hæfi. Tækifærin eiga að vera jöfn óháð atgervi og aðstæðum hvers og eins. Jafnrétti til náms þýðir að nemanda eru sköpuð bestu skilyrði á hans forsendum, óháð félagslegri og námslegri stöðu. Nemendur eiga að njóta styrkleika sinna og þeim á
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=