40344_velferd_barna_grunnsk_handb

| 40344 | MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 10 | Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 (22. og 23. gr.) er komið inn á ábyrgð skólastjórnenda sem ber að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að nemendur verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni í skólum og ábyrgð þeirra á viðeigandi fræðslu til nemenda um jafnréttismál. Tilkynningarskylda til barnaverndarnefnda Í barnaverndarlögum, nr. 80/2002, stendur að hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu, sé skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. Sérstaklega er skólastjórum, kennurum, þroskaþjálfum og öðrum þeim sem koma að málefnum barna í skólasamfélaginu skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu óviðunandi. Tilkynningarskylda samkvæmt barnaverndarlögum gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. Á vef Barna- og fjölskyldustofu má finna verklagsreglur og vinnulag, þar með taldar verklagsreglur skóla- og heilbrigðisstarfsfólks. Skólabragur Jákvæður skólabragur sem verndar og styrkir nemandann byggir meðal annars á þátttöku hans. Jákvætt námsumhverfi og gott skólahúsnæði stuðlar að góðum námsárangri. Meðal þátta sem skipta máli eru: • Hvernig er ytra umhverfi? Er skólaumhverfi bjart og hlýtt, henta aðstæður samskiptum við vini? • Hvernig er innra umhverfi? Skólabragur, samskiptamáti, áhrif nemenda, hafa nemendur komið að mótun umhverfis og aðstæðna? • Hvernig eru skilaboð frá þeim fullorðnu? Dæmi: „Þú sem nemandi skiptir máli og við viljum að þú lærir.“ • Hvernig er búið að öryggi barna? Er starfsmaður alltaf til staðar og geta nemendur treyst honum til að bregðast við og grípa inn í aðstæður? • Hvernig er félagsstaða foreldra? Hún getur verið misjöfn og haft áhrif á samskipti heimilis og skóla.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=