1. KAFLI 13 Rökræður Það er stórmunur á því að rökræða og að rífast. Við höfum ólíkar skoðanir á mörgum hlutum og það væri í raun óeðlilegt ef allir eru sammála, alltaf. Þegar fólk rökræðir skiptir miklu máli að hlusta líka á rök hinna. Sá sem ekki hlustar á rök þess sem hann rökræðir við lendir fljótt í ógöngum. Þegar við finnum rök erum við ekki bara að segja HVAÐ okkur finnst heldur HVERS VEGNA. Mikilvægt er að fara í boltann en ekki manninn! Það skiptir gríðarlega miklu máli í rökræðum að hafa áhersluna á málefnið sjálft en ekki þann sem þú rökræðir við. Að hætta að tala um málefnið og fara að rakka niður viðmælandann er jafn mikið brot og að rennitækla leikmann í fótboltaleik án þess að reyna að ná af honum boltanum. Algjörlega tilgangslaust fyrir leikinn en getur valdið manneskjunni stórskaða. Segjum sem svo að þig langi í nýjan síma. Síminn þinn er ekki ónýtur og foreldri þitt sér enga ástæðu fyrir símakaupum. Þú þarft að rökræða við foreldrið til að það sjái þína hlið á málinu. Fyrst reynir þú að koma með rök sem þér finnst góð. Foreldrið er enn ósammála og á lokaorðið þar sem þú ert ekki sjálfráða. Að geta sagt skoðun sína er mikilvægt. Á Íslandi er tjáningarfrelsi. Það þýðir að við höfum rétt til að segja okkar skoðun innan þeirra marka sem lög setja. Lögin segja t.d. að við megum hafa skoðanir og tjá þær án þess þó að eyðileggja mannorð annarra.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=